Finnst fátt betra en góð rútína

Finnst fátt betra en góð rútína

September er tileiknaður sjálfsást að þessu sinni en orðið sjálfsást hefur færst í aukana undanfarin ár þegar kemur að því að hlúa vel að bæði andlegri og líkamlegri heilsu. H magasín ætlar að snerta á málefninu og fá innblástur frá nokkrum vel völdum sem hugsa vel um heilsuna. Kristjana Steingrímsdóttir, heilsukokkur er ein þeirra.

Hvað er sjálfsást fyrir þér?
Sjálfsást fyrir mér er fyrst og fremst að hlúa vel að sjálfri mér með góðri næringu, góðri rútínu, útiveru og yoga og svo síðast en ekki síst fá góða hvíld og góðan nætursvefn.

Ertu dugleg að hlúa vel að þér?
Já ég myndi segja að ég væri voðalega dugleg að hlúa vel að mér.  Ég er mjög meðvituð um að borða og gera holla næringu fyrir mig og mína og passa mig að hreyfa mig eitthvað á hverjum degi því ég finn hvað það gerir mér gott. 

Ætlarðu að tileinka þér eitthvað nýtt í september þegar kemur að sjálfsást?
Já ég ætla að vera dugleg að mæta í Yoga nidra tíma með tónheilun sem fara fram í Yogavitund.

Iðkar þú sérstaka morgunrútínu þegar þú vaknar?
Fyrir utan að teygja mig, tannbursta og fá mér nóg af vatni  og engifer skoti eru morgnarnir á heimilinu frekar ljúfir og stresslausir þá morgna sem ég er ekki að kenna Yoga í Yogavitund á morgnana. Við viljum frekar vakna fyrr og hafa góðan tíma heldur en að vera í einhverju stressi og byrja daginn í flýti. 

Eftir að stelpurnar eru farnar í skólann förum við hjónin oftast i göngutúr með hundinn okkar hana Freyju sem er snilldar byrjun á deginum.

Jana í eldhúsinu þar sem hún eyðir miklum tíma í að töfra fram ýmsa hollustu.

Hvað með kvöldrútínu?
Ég er mikil rútínu manneskja og finnst fátt betra en góð rútína, eftir kvöldmat förum við gjarnan í góðan göngutúr og svo finnst mér góður tebolli, plana næsta dag og lesa bók eða horfa á einn þátt. Svo finnst mér ótrúlega ljúft að taka heimadekur með maska, þurrburstun og olíum. Ég vil helst fara á sama tíma í rúmið á kvöldin og helst ekki seinna en ellefu.

Hvað gerir þú fyrir þig þegar þú finnur fyrir streitu og álagi?
Þá finnst mér voðalega gott að hreyfa mig, hvort sem það er æfingahjól okkar í bílskúrnum, út að hlaupa, yoga eða göngutúr.  Einnig er mikilvægt að staldra við og huga að öndunninn – því þegar maður er undir miklu álagi og streitu verður öndunin okkar grunn og hröð og þá er mikilvægt að gefa sér nokkrar mínútur í að taka djúpa og góða andardrætti og ná þannig betur stjórn á önduninni og minnka streitu.  Hlátur er líka frábær leið í að losa endorfín og streitu.

Uppáhalds dekrið þitt?
Mér finnst geggjað að fara í spa og í allskonar meðferðir á snyrtistofum til að gera extra vel við mig.  Ég er líka mjög dugleg að dekra við mig heima með stelpunum mínum og nota allskonar maska, krem, þurrbursta og góðar olíur. 

Svo má ég alls ekki sleppa því að minnast á íslenskar sundlaugar sem eru algjör lífsgæði að hafa og ég elska að fara nánast daglega í sund og synda, fara í gufur, kalda og heita potta og slappa af þar.

Hvernig fyllir þú á gleðitankinn?
Með góðum og skemmtilegum vinum, útiveru, hreyfingu og góðum mat 

Eitthvað annað sem þú gerir meðvitað fyrir andlegu heilsuna þína?
Stunda mikið yoga, hugleiðslu og öndunaræfingar á hverjum degi

Hvaða næring lætur þér líða vel?
Ég er algjör smoothie, manneskja og mér líður alltaf svo vel af þeim því bæði er búið að brjóta matinn vel niður og þannig auðveldari fyrir meltinguna og svo er endalaust hægt að skella auka hollustu í smoothie-ana og gera þá að súperfæðu. Mér finnst líka kryddaðar og góðar súpur/pottréttir ótrúlega nærandi og yndisleg fyrir bæði líkama og sál. 

Viltu deila með okkur uppskrift af morgunverði sem gleður sál og líkama? 

Heitur kryddaður hafragrautur með eplum, hnetum og fræjum er svo yndislegur í byrjun dags svona þegar það fer að hausta og kólna og hér er ein æðisleg uppskrift sem mig langar að deila með ykkur.Hægt að gera hann kvöldinu áður og svo bara rétt aðeins að hita hann upp á morgnana toppar hann svo með einhverju skemmtilegu og þá ertu komin með frábæran og næringarríka byrjun á deginum.

Kryddaður epla og döðlu hafragrautur

1 bolli MUNA haframjöl

2 bollar vatn eða hnetumjólk að eigin vali

Smá af salti, Himalaya – eða sjávarsalti 

1 tsk vanilla

1 tsk MUNA kókosolía

1 tsk MUNA malaður kanill

1 tsk pumpkin spice krydd

1/2 tsk kardimommur

1 msk collagen duft

1 msk MUNA hampfræ

3-4 MUNA döðlur saxaðar

1 epli, rifið á rifjárni 

Setjið allt saman í pott við miðlungshita og hrærið vel i meðan grauturinn hitnar, látið malla í nokkrar mín. Setjið að lokum í skál og toppið með því sem þið elskið. 

Dæmi um frábært hráefni til að toppa með; 

2 msk MUNA valhnetur, saxaðar gróft

1 msk MUNA ristaðar kókosflögur 

1 tsk MUNA möndlusmjör/kasjúhnetusmjör

Smá heimatilbúin hindberja og chia sulta (frosin hindber & hindber stappað saman)

Fylgstu með Jönu hér

NÝLEGT