Search
Close this search box.
Finnur þú fyrir æfingakvíða? Þá gætu þessi ráð gagnast þér

Finnur þú fyrir æfingakvíða? Þá gætu þessi ráð gagnast þér

Höfundur: Coach Birgir

Reglubundin hreyfing er einn besti streitu- og kvíðabani sem fyrirfinnst á jörðinni.  Samt er það þó þannig fyrir marga að líkamsrækt og hugsunin ein um að koma hreyfingu inn í reglubundna rútínu veldur miklum kvíða- og streituhugsunum. Við skulum bara vera heiðarleg með það – að koma sér í gang hvort sem er frá grunni eða eftir tímabundna pásu er HUNDERFITT og virkilega KREFJANDI.  En það er þó ALLS EKKI ómögulegt!

Það eru til ótalráð við slíkum kvíðahugsunum og oft er kvíðinn einfaldlega á þeim stað að leita þarf aðstoðar frá sálfræðingi og/eða geðlækni við að vinna sig út úr honum. En sama hvernig þetta hittir okkur er afar gagnlegt að hafa eftirfarandi í huga:

Byrjaðu hægt og gefðu sjálfum/sjálfri þér sama kærleik og þú yfirleitt gefur öðrum

Sama hvernig við erum stödd líkamlega, þá skiptir öllu máli að fara ekki of geyst af stað. 2 – 3 æfingar í viku, 30-40 mínútur í senn eru frábær byrjun og gefa líkamanum færi á að aðlagast nýrri rútínu og nýjum áskorunum á réttan hátt. Vertu stoltur/stolt að hverri æfingu sem þú klárar og leyfðu þér að upplifa það á sama kærleiksríka háttinn og þú myndir  t.d. gera með börnunum þínum og/eða góðum vini /vinkonu sem væri í sömu stöðu og þú.

Einbeittu þér eingöngu að þér og æfingunum og njóttu þess

Flestir sem upplifa æfingakvíða tala um pressuna sem þeir upplifa í tengslum við að vera ekki að gera það sama og ”allir hinir”. Þá eru líka margir sem upplifa að” allir hinir” séu að horfa og/eða fylgjast með því sem þeir eru að gera eða ekki að gera.. en ættu þó að vera að gera.

Sama hvað, þá erum við öll að vinna að sömu markmiðunum þegar kemur að hreyfingu, þ.e. að láta okkur líða betur á líkama og sál og vinna að því að verða betri en við erum í hinu og þessu. Sama hvernig það getur litið út, þá eru allir með hugann við það sama í ræktinni. Að njóta æfingarinnar sem þeir sjálfir eru að gera og fá tækifæri til þess tímabundið að hugsa ekki um neitt annað en nákvæmlega það!

Settu þér raunhæf og hægvaxandi markmið

Því miður erum við of gjörn á að ætlast til of mikils á of stuttum tíma. Sérstaklega af okkur sjálfum. En GÓÐIR HLUTIR GERAST HÆGT og á það sérstaklega við um líkamlegar og andlegar breytingar og bætingar. Látum upphafsmarkmiðin snúast um að mæta og læra að njóta. Gefum okkur þennan fyrirfram ákveðna tíma yfir daginn til þess að kúpla út og fá hugsunarlausa útrás, laus frá daglegu kvabbi og skyldum.

Ef það hentar þér að fara og ganga á bretti í 30 mínútur, gerðu það – ef það hentar þér að fara og hjóla í 50 mínútur þá gerðu það, fara á Crossfit æfingu, ganga á fjöll, synda eða lyfta lóðum. Allt er þetta holl og góð hreyfing sem færir okkur nær langtíma markmiðum okkar.

Hugsaðu vel hvaða hreyfingu þú ert tilbúin í að skuldbinda þig við 2-3 sinnum í viku . Þegar þú svo upplifir að þig langi að bæta í eða prófa eitthvað nýtt, þá gerir þú það. Líkaminn lætur þig vita – þú þarft bara að leyfa því að gerast.

Ekki pressa um of og verum sanngjörn

Það er staðreynd að það sem við ætlumst til af sjálfum okkur myndum við ALDREI ætlast til af nokkrum öðrum. Þessi pressa um að vera eitthvað annað og meira en bara við sjálf er helsta ástæða þess að fólk upplifir æfingakvíða og –streitu.

Ef við fórum síðast í ræktina fyrir 10 árum, þá getum við verið viss um að við getum engan veginn byrjað á sama stað og við hættum þá…eða hvað? Samt er þetta svo algeng hugsun og pressa sem við setjum okku sjálfum. Verum sanngjörn og látum æfingarnar vera í samræmi við okkar núverandi ástand – ekki eins og við vorum einu sinni og hvað þá síður samkvæmt því sem einhver annar er að gera. Gott er að hafa í huga að líkaminn er alltaf viku á eftir þ.e það sem þú gerðir í síðustu viku mun líkaminn vinna úr í þessari viku o.s.frv  Þess vegna er mjög raunhæft að setja sér markmið um að finna árangur frá viku 3-6.

Fáðu einkaþjálfara með þér í lið eða nýttu þér hópatíma

Mjög mikið af okkar kúnnum hafa í gegnum tíðina leitað til okkar vegna þess að þeir gáfust upp á að reyna að koma sér af stað í ræktinni einir. Höfðu oft reynt en alltaf hætt aftur sökum þess að hafa upplifað hina ýmsu þætti með neikvæðum hætti.

Ef þú ert að tengja við eitthvað sambærilegt þá mæli ég heilshugar með að þú leitir þér aðstoðar frá einkaþjálfara og fáir hann með þér í lið í a.m.k. 3 mánuði. Þá er líka mjög sniðugt að skrá sig í hópatíma því þannig fær maður fast skipulag á æfingarnar og hvatningu frá hópnum til þess að standa sig, ögra sér umfram það sem maður sjálfur myndi gera.. og það sem mikilvægast er: AÐ MÆTA!

Ég óska þér góðs gengis við að koma hreyfingu og/eða æfingum inn í reglubundna rútínu.

Í góðri heilsu!

Birgir þjálfari

Hér má sjá fleiri áhugaverða pistla eftir Birgi

Í H Verslun færðu allan fatnað og skó fyrir ræktina þína sama hvort það er inni eða úti. Skoðaðu úrvalið hér.

NÝLEGT