Byrjum á að kynna hverjar standa á bakvið hópinn fjallastelpur? (Sara, Vala og Inga)
Sara: 32 ára gömul draumórakona, náttúruunnandi, lestrarhestur, tveggja barna móðir, nemi í fjallaleiðsögn, einkaþjálfari og hjúkrunarfræðingur úr Keflavík.
Inga: Lyfjatæknir, tveggja barna móðir, fjallgönguáhugamanneskja og alhliða útidýr.
Vala: Lögfræðingur, móðir og forvitin fjallastelpa með flökkueðli.
Hvernig varð hópurinn fjallastelpur til?
Inga: Við sáum tækifæri í Covid bylgjunni í apríl og stofnuðum hóp einungis ætluðum konum til að hvetja, styrkja og valdefla konur í sinni útivist og skiptast á ráðum. Konur eru jú konum bestar.
Vala: Hópurinn var stofnaður sem vettvangur fyrir konur til að skiptast á ráðum og hvetja hverja aðra í sinni útivist. Verkefnið gengur út á að hvetja konur áfram til dáða við að ná sínum útivistarmarkmiðum og láta sína útivistardrauma rætast. Skiptir þá engu hvort sá draumur sé að komast upp á Úlfarsfell eða Mount Blanc. Allar erum við í þessum hópi á eigin forsendum.
Sara: Ég tek undir með Ingu og Völu. Mér fannst mikilvægt að skapa vettvang fyrir konur í fjallamennsku til að valdefla og hvetja konur til að þróa sína fjallamennsku frekar og afla sér aukinnar þekkingar og kunnáttu, á sínum forsendum.
Þið eruð núna að hvetja til 30 daga fjallgöngu. Eru þið til í að segja okkur meira um það verkefni?
Sara: Verkefnið varð til þegar við stelpurnar vorum að ræða markmiðasetningu og fórum að rifja upp persónuleg markmið síðasta árs. En í nóvember í fyrra setti ég mér það markmið að ganga á 30 fjöll á 30 dögum og gekk þá á eitt fjall á dag í 30 daga og leyfði vinum og vandamönnum að fylgjast með mér á samfélagsmiðlum.
Þá skráði ég hverja göngu samviskusamlega niður; hæð fjallsins, hækkun og kílómetrafjölda og tók myndir í hverri ferð. Ég var ótrúlega heppin með veður það árið og þurfti bara einu sinni að snúa við vegna versnandi veðurs og náði því að toppa öll fjöllin nema eitt. Þetta var svo skemmtilegt markmið að ég ákvað að endurtaka það aftur í ár og úr varð þessi hugmynd, að fá sem flesta með í þetta 30 daga fjallgönguferðalag undir myllumerkinu #30á30.
Verkefnið gengur út á það að stunda daglega hreyfingu á fjöllum og fellum, hæðum og hólum í 30 daga. Fjöllin þurfa ekki að vera há né kílómetrarnir margir. Hver og einn fer út á sínum forsendum og stundar þá hreyfingu sem honum hentar. Það þarf auðvitað ekki alltaf að vera fjall og það má líka hlaupa eða hjóla. Aðalmálið er að njóta náttúrunnar og ferska loftsins. Klæða sig eftir veðri og rækta líkama og sál í okkar næsta nágrenni.
Inga: Saman getum við komist lengra, þó það séu fjarlægðarmörk þá sameina samfélagsmiðlar okkur og mér finnst svo hvetjandi að sjá Fjallastelpurnar ná markmiðum sínum og fæ þá styrk til að gera slíkt hið sama.


Ég hef tekið eftir að þið hvetjið fólk til að merkja við á samfélagsmiðlum #útaðborða. Þetta er dásamleg hvatning en hvað þarf maður að hafa með sér?
Inga: Þar sem Vala hefur hingað til séð um matseldina, þá hef ég bara þurft að mæta með hlý föt, sessuna mína úr GG-sport og nokkra brandara – stefnan er samt að vera kaffi-uppáhellarinn ?
Vala: Það eina sem þarf er hlý föt og ágætur prímus.
Sara: Nota hugmyndaflugið og bara velja eitthvað sem auðvelt er að útbúa á prímus, góð útileguáhöld og góða skapið! Svo eins og stelpurnar segja að hafa hlý föt, jafnvel teppi og góða sessu til að sitja á ?
Hafi þið einhver góð ráð fyrir þá sem langar að fara með fjölskylduna #útaðborða?
Inga: Eiga góðan primus, undirbúa heima sem mest og vera í góðu skjóli.
Vala: Leyfa börnunum að velja hvað er í matinn.
Sara: Leyfa börnunum að taka þátt á sínum forsendum. Velja öruggt umhverfi í veðri þar sem allir njóta sín.
Hvað er gott að hafa í huga þegar maður fer í fjallgöngur að vetri til?
Sara: Fjallgöngur að vetri til eru örlítið annars eðlis heldur en fjallgöngur að sumri til, sérstaklega þegar dagsbirtan er minni og það er kominn snjór í fjöllin. Þá geta aðstæður breyst hratt og hættur skapast og þess vegna mikilvægt að geta lesið í landslag og veðurfar. Mikilvægt er að kynna sér leiðina vel. Skoða veðurspá og láta alltaf vita af sér ef maður er einn á ferð. Ef maður er byrjandi á fjöllum er gott að hafa ferðafélaga og fara stikaðar leiðir í nærumhverfi.
Við veljum líka aðeins annan búnað á veturnar og klæðum okkur ef til vill aðeins betur en á sumrin. Við mælum alltaf með lagskiptum fatnaði, ull innst, góðu miðlag sem getur verið flíspeysa eða primaloft úlpa, góðar göngubuxur, góðum skelfatnaði yst og svo húfu, buffi, góðum göngusokkum og hlýjum vettlingum. Ég ráðlegg fólki að klæðast ekki bómull í fjallgöngum, sérstaklega ekki á veturnar þegar kalt er úti. Bómullinn andar ekki og hann blotnar þegar við svitnum sem getur aukið líkur á ofkælingu.
Á veturnar er líka mikilvægt að vera í góðum gönguskóm sem blotna ekki í gegn og geyma strigaskónna heima þegar farið er að snjóa. Göngustafir geta líka reynst vel á veturnar fyrir þá sem eru vanir að ganga með stafi.
Við erum líka alltaf að huga að öryggi á fjöllum og því mikilvægt að hafa alltaf höfuðljós og esjubrodda í bakpokanum sínum á veturnar, litla sjúkratösku, auka rafhlöður, ferðahleðslutæki og GPS tæki ef fólk á þau til. Ef fólk á ekki GPS tæki getur fólk notast við öpp í símana sína eða íþróttaúr til rötunar. Því þó að leiðir séu stikaðar, þá getur veður breyst hratt á Íslandi og fólk hefur tapað áttum á fjöllum og fellum sem það þekkir vel og hefur jafnvel gengið margsinnis áður.
Svo má ekki gleyma nestinu! Ég er alltaf með vatn með mér og jafnvel heitan drykk eins og heitt súkkulaði, te eða kaffi á brúsa. Svo tek ég alltaf með mér smá bita líka og vel þá nesti út frá lengd göngunnar. Þó svo að gangan sé stutt eða ég ætli ekki að taka mér nestispásu, þá getur alltaf eitthvað komið upp á sem getur orðið til þess að ég kemst ekki til byggða innan þess tímaramma sem ég áætlaði í upphafi. Þá getur verið gott að eiga Snickers eða Mars í neyð í bakpokanum.
Hverjar eru ykkar topp þrjár fjallgöngur þetta árið?
Inga: Hrútfjallstindarnir voru magnaðir og ógleymanleg upplifun. Þetta var leiðangur sem ég fór í á vegum Tinda Travel í maí. Ég hef verið skráð á frábær námskeið hjá þeim síðan 2018 og það hefur verið vægast sagt ævintýralegt. Í júní gekk ég Nautastíginn á vegum Glacier Adventure, algjör náttúruparadís í Suðursveit. Pabbi minn fagnaði 60 árum í sumar og við fögnuðum því með því að ganga upp Sveinstind við Langasjó.
Sara: Ég á mjög erfitt með að velja topp þrjár fjallgöngur en ég verð að taka undir með Ingu og segja að leiðangurinn á Hrútfjallstinda fór langt fram úr mínum björtustu vonum. Það er ein fallegasta dagleið á jökli sem ég hef hingað til gengið og var bara algjörlega mögnuð upplifun. Tveimur dögum áður hafði ég gengið á Hvannadalshnjúk í fyrsta sinn, sem var stóra markmiðið mitt á árinu. Sá leiðangur fær því að vera á listanum yfir topp þrjár fjallgöngur á árinu, enda stórkostlegt ferðalag frá upphafi til enda.
Á afmælinu mínu í ágúst, gekk ég óvænt á Herðubreið og Snæfell í sama leiðangri með eiginkonu frænda míns og það var líka alveg stórkostleg ferð.
Vala: Hrútfjallstindar, Sveinstindur og Kerlingarfjöll


Ein loka spurning okkur til hvatningar af hverju fjallgöngur?
Inga: Þú færð allan pakkann: útiveru, hreyfingu, núvitund og náttúrukraft beint í æð!
Sara: Fjöllin búa bara yfir svo mikilli orku. Þar er auðvelt að gleyma sér í núinu, anda að sér ferska loftinu og endurstilla hugann. Svo eru fjallgöngur bara svo ótrúlega góð hreyfing. Langflestir geta stundað fjallgöngur og algjörlega á sínum forsendum, þar sem fjallamennskan er svo fjölbreytt.
Vala: Því það dregur úr einkennum kvíða og bætir mína andlegu heilsu. Svo hafa rannsóknir sýnt að göngur í náttúrunni dragi úr líkum á heilabilun seinna á ævinni. Svo kem ég nánast alltaf í góðu skapi heim úr fjallgöngum.
Ég þakka fjallastelpum fyrir að veita okkur innblástur til að stunda fjallgöngur allt árið!
Það er hægt að fylgjast með þeim hér á instagram og hér er stuðningshópur fyrir fjallastelpur á facebook.
Höfundur: Berta Þórhalladóttir