Ekkert mælir á móti því að stunda fjallgöngur allt árið um kring, enda hefur hver árstími sinn sjarma. Fjallgöngur eru góð leið til að hreinsa hugann, halda sér í formi, njóta útiveru og upplifa eitthvað skemmtilegt. En hvað er gott að hafa í huga þegar gengið er á fjöll yfir haustið og vetrartímann?
Fatnaður og búnaður fyrir gönguferðir
Klæddu þig vel, yst sem innst. Best er að klæðast nokkrum lögum af hlýjum fatnaði. Þannig er hægt að fara í og úr fötum eftir þörfum. Næst húðinni er gott að vera í ullar- eða dry-fit nærfötum og þar yfir ullar– eða flíspeysu og svo úlpu. Þægilegar göngubuxur eru nauðsynlegar og jafnvel síðar nærbuxur innan undir. Loks er vind- og vatnsheldur jakki og buxur, ásamt húfu og vettlingum staðalbúnaður. Bómullarflíkur og gallabuxur eru á bannlistanum. Þær blotna auðveldlega og eru lengi að þorna og gera fátt annað en að láta þér verða kalt.
Vertu í góðum skóm. Góðir skór eru nauðsynlegir fyrir fjallgöngur og geta komið í veg fyrir meiðsli. Þeir ættu helst að vera vatnsheldir, eða í það minnsta hrinda frá sér vatni, með ökklastuðningi og mjög góðu gripi til að renna ekki í brekkum, þola steina og grófa möl. Oft er gott að kaupa skó sem eru númeri stærri en þú notar vanalega. Það er líka mjög mikilvægt að vera í góðum ullarsokkum eða sérstökum göngusokkum.

Notaðu léttan bakpoka. Í bakpokanum getur þú geymt aukafatnað, nesti, vatn, göngustafi, höfuðljós og aukabatterí fyrir símann. Í bakpokanum ætti alltaf að vera íþrótta- eða silkiplástur sem kemur sér vel af húðin verður aum. Slíkur plástur getur komið í veg fyrir að þú fáir blöðrur. Verkjalyf og ofnæmislyf er gott að hafa til vonar og vara, hvort sem þú eða göngufélagarnir þurfa á að halda. Orkustykki ætti að vera í bakpokanum ef þreytan segir til sín og svo er alltaf hentugt að vera með svissneskan vasahníf með sér.
Náttúruöflin og varrúðarráðstafanir
Ekki vanmeta náttúruöflin. Veðrið getur breyst á augabragði og því er nauðsynlegt að skoða vel veðurspánna áður en þú leggur er af stað. Það er ekkert grín að vera á fjöllum í vondu veðri og því er gott að vera við öllu búinn. Betra er að sitja heima en vaða út í óvissuna. Kannaðu líka hvenær það er bjart. Þótt það sé vel hægt að ganga með höfuðljós er auðvitað best að ganga í björtu.
Vertu alltaf í hópi með öðrum. Helst í hópi fólks sem er vant fjallgöngum og þekkir vel þau fjöll sem gengið er á. Láttu alltaf vita hvert þú ert að fara og hvenær þú reiknar með að koma heim aftur.
Ef þú ert byrjandi í fjallgöngum skaltu byrja á auðveldum göngum, t.d. styttri vegalengdum eða lágum fjöllum, og auka smám saman erfiðleikastigið. Gaman er að setja sér markmið, t.d. að klífa fellin í Mosfellsdal; svo sem Helgafell, Mosfell og Grímmannsfell. Vinsælt er að ganga á Móskarðshnúka. Sú leið er auðveld, nokkuð löng en vel þess virði, enda útsýnið frá toppnum óviðjafnanlegt. Hér er listi og kort yfir gönguleiðir í Mosfellsbæ sem dæmi.
Höfundur: Sigríður Inga Sigurðardóttir
Skoða fleiri greinar tengdar útivist hér.