Search
Close this search box.
Fjallgöngur og fótaheilsa

Fjallgöngur og fótaheilsa

Höfundur: Kolbrún Björnsdóttir

Það eru greinilega margar á ferð og flugi þessa dagana sem er dásamlegt, á Íslandi eru ótal margar fallegar og skemmtilegar gönguleiðir sem er gaman að fara. Góður undirbúningur skiptir miklu máli og það er grundvallaratriði að fætur séu í lagi, sérstaklega á löngum göngum því þá skiptir miklu máli að líða vel og því til mikils að vinna að halda þeim góðum.

Hér eru nokkrir punktar sem geta skipt sköpum fyrir lengri göngur

Táneglur: Klippið táneglurnar 5-7 dögum fyrir göngur, of langar neglur geta gert sár á tær með núning og gat á sokka.

Tvennir skór: Ég mæli með að þið takið með ykkur tvenna skó aðra þyngri og hina léttari og passið að vera í skóm sem ykkur líður vel í. Við göngum í þyngri skóm sem þola frekar snjó/slabb við þær aðstæður sem það á við en það er gott að geta farið í léttari skó inn á milli þegar aðstæður leyfa.

Ef þið kaupið ykkur eitthvað nýtt fyrir lengri gönguferðir, kaupið þá sokka. Sokkar eru það sem ég endurnýja oftast af útivistarbúnaðinum mínum. Gamlir sokkar auka líkurnar á fótaveseni.

 Verið dugleg að bera feitt krem á fæturna viku fyrir göngu.

Haldið fótum þurrum á göngu – hafið aukasokka með í bakpokanum til að skipta ef sokkarnir verða rakir.

Reimið skóna vel til að hællinn hreyfist sem minnst í skónum.

Ef þið hafið fundið fyrir núningi í skónum ykkar þá munið þið mjög líklega finna fyrir honum áfram. Það gæti því verið ágætt að teipa þá staði með íþróttateipi/silkiteipi áður en lagt er í hann.

ALDREI hunsa særindi á fótum. Tæklið þau um leið áður en þau versna.

Á lengri göngum ættum við að gera allt sem við getum til að koma í veg fyrir blöðrur en ef blaðra lætur á sér kræla þá er ráðlagt að tæma hana og búa um hana með plástrum. Ekki leyfa henni að stækka/fara dýpra inn.

Gangi ykkur vel og góða skemmtun á fjöllum

Kolla

Um höfund:

Kollu þykir fátt skemmtilegra en að vera úti í náttúrunni, hvort sem það er á göngu, hlaupum, í sjónum eða á gönguskíðum. Hún uppgötvaði útivistina seint eða fyrir nokkrum árum en hefur tekið hana þeim mun fastari tökum. Það er sérstök ástríða hennar að koma sem flestum út að leika eins og hún kallar það en hún er sannfærð um að hreyfing í náttúrunni sé eitt besta meðalið við mörgu sem hrjáir mannfólkið. Kolla er menntaður stjórnmálafræðingur og leiðsögumaður.

NÝLEGT