Hver er Arnar Pétursson?
Bara strákur sem er kominn til að skemmta sér eins og segir í góðu Tvíhöfða lagi. Annars er líklega lýsingarorðið duglegur það orð sem er hvað oftast notað um mig.
Hvað starfar þú við í dag?
Flest allt sem ég geri í dag tengist hlaupum. Ég er sjálfur hlaupari, er að þjálfa bæði sjálfan mig og aðra, held fyrirlestra og tek æfingar með fyrirtækjum. Auk þess hef ég skrifað Hlaupabók sem endaði í litlum 416 blaðsíðum. Þessa dagana er ég svo að þróa hlaupasmáforrit sem heitir Runmaker og mun koma á markað á næsta ári. Það er virkilega spennandi verkefni sem gæti vel náð sessi á heimsvísu enda mun forritið á auðveldan hátt gefa þér sömu upplýsingar og fást í prófum sem eru tekin á rannsóknarstofu og að sama skapi færðu sérhönnuð hlaupa, styrktar og lyftingarprógröm líkt og þú værir í þjálfun hjá bestu hlaupaþjálfurum í heimi.
Hver er þín uppáhalds hreyfing?
Löng hröð hlaup á sléttunum í Afríku eru virkilega heillandi. Annars er það körfubolti og fótbolti.
Hvað myndir þú ráðleggja þeim sem eru algjörir byrjendur en langar að hlaupa lengri vegalelengdir?
Hættið að óttast árangur og setjið Íslandsmet í að hlaupa hægt. Þá eru allir vegir færir


Hvað er heilsusamlegt líf fyrir þér?
Það sem getur enst alla ævi. Hreyfing á að geta fylgt okkur alla ævi og það er eitthvað sem skipti mig miklu máli. Þess vegna er það ríkt í minni nálgun að við höfum gaman að þessu og höldum okkur frá meiðslum. Því þú nennir ekki að vera í meiðslum og vonbrigðum nema í ákveðið langan tíma.
Hver eru þín helstu áhugamál fyrir utan hlaupin?
Ég fylgist mjög mikið með NBA en annars hef ég virkilega mikinn áhuga á löngum göngum á ströndinni og því að vera í góðra vina hópi. Segi svona, en jú ég fylgist reyndar mjög mikið með NBA og svo ætli flokka ég það sem áhugmál að upplifa nýja hluti. Ef einhver kemur með hugmynd að einhverju sniðugu er ég alltaf til.
Hvar sérðu sjálfan þig eftir 5 ár?
Ef allt gengur að óskum þá verð ég tiltölulega nýbúinn að hlaupa á Ólympíuleikunum í París og gæti allt eins verið ennþá að njóta hvíldartímabilsins einhversstaðar úti í heimi. Svo væri gaman ef Runmaker smáforritið væri orðið alþjóðlegt og mögulega væri ég að gefa út Hlaupabók á ensku.


Stundar þú einhverskonar útivist?
Já hlaupin eru náttúrulega einhver besta útivist sem fyrirfinnst en annars hef ég líka mjög gaman af fjallgöngum og bara flestu sem tengist því að vera utandyra.
Ef þú ætlar að gera einstaklega vel við þig hvað gerir þú þá?
Þetta er erfiðari spurning en maður myndi ætla. Ég reyni að gera alltaf mjög vel við mig á hverjum degi og geri aldrei neitt ef mér finnst það þvingað, hvort sem það snýr að mataræði, æfingum eða endurheimt. Hinsvegar eru hvíldartímabilin oft skrautleg þar sem maður gerir allt sem ekki er gert yfir tímabilið. Þá væri pizza, franskar, ís og djamm mjög góður kostur ef maður ætlaði að gera vel við sig. Svo jafnvel kíkja í nudd og spa daginn eftir.
Hver er þinn íþróttabakgrunnur?
Ég var í fimleikum 4-7 ára og svo fótbolta 5-16 ára, körfubolta 9-21 árs og svo hlaup frá 21 árs. Var mjög heppinn að byrja í fimleikum og virkilega gaman að verða Íslandsmeistari í fótbolta og körfubolta í yngri flokkunum. Svo sá maður ljósið.
Hver er þinn stærsti sigur á hlaupaferlinum?
Mér þykir langvænst um árið 2017 þegar ég varð Íslandsmeistari í 9 mismunandi hlaupagreinum enda var það ótrúlega langt ferli þar sem allt þurfti að ganga upp. Það var svo mjög mikill heiður að vera valinn mikilvægasti frjálsíþróttamaður ársins af Frjálsíþróttasambandinu það ár.
Hvernig heldur þú huganum í lagi, þ.e. hvernig hugar þú að andlegu heilsunni?
Hlaupin efla andlegt atgervi alveg gríðarlega og oft eru 60 mínútur af rólegu skokki bara algjör hugleiðsla. Ég er líka duglegur að taka mér tíma í gufu eða í heita pottinum til að hugleiða. Hlaupin hjálpa líka við að vera meðvitaður um líkamann og það sem er að gerast á hverju augnabliki. Svo er ég líka heppinn að hafa gott fólk í kringum mig og er í mjög góðu sambandi við fjölskylduna en þar leynast miklar fyrirmyndir.
Hvað er það fyrsta sem þú gerir þegar þú vaknar á morgnana?
Oft á tíðum er það að klæða mig í föt og fara beint út að hlaupa á fastandi maga. Annars er það að drekka stórt vatnsglas.


Hver er ein mesta áskorun sem þú hefur tekist á við og hvernig tókst þér að yfirstíga hana?
Líklega 2012 í Reykjavíkurmaraþoninu þegar ég fékk krampa í magann eftir 17km og stoppaði og reyndi að æla en ákvað svo að halda áfram. Þetta er bókstaflega versti sársauki sem ég hef fundið á ævinni og það var eins og það væri verið að snúa hnífum í maganum á mér. Á einhvern óskiljanlegan hátt hélt ég áfram að hlaupa með því að trúa því nógu heitt að sársaukinn myndi fara á einhverjum tímapunkti. Það gerðist hinsvegar aldrei. Svo þegar það eru 5km eftir þá er ég tæpri mínútu á eftir fyrsta manni og er þá öskrað á mig að hann sé alveg búinn á því. Ég ákvað þá að gefa í, þrátt fyrir að vera gjörsamlega að niðurlotum kominn. Þetta endaði í 100m endaspretti þar sem ég vann með einni sekúndu á rétt rúmlega 2:41 í maraþoni og vann þannig Reykjavíkurmaraþonið. Með því að trúa nógu heitt á að sársaukinn myndi fara og af því að ég vildi ekki bregðast öllu fólkinu sem var komið til að styðja mig tókst mér að klára hlaupið. Ég held ég hafi svo grátið í svona korter samfellt, bæði úr gleði og sársauka. Eftir hlaupið blæddi líka úr lærunum á mér eftir nuddsár af stuttbuxunum en ég fann aldrei fyrir því í hlaupinu því eini sársaukinnn var í maganum. Ég varð svo góður í maganum tveimur dögum seinna. Þetta hefur gefið manni ótrúlegan styrk að vita að maður geti haldið áfram þrátt fyrir mikinn sársauka.
Hver væri titill ævisögu þinnar?
Frá hverju ertu að hlaupa?
Eitthvað að lokum?
Það er aldrei of seint að byrja að hlaupa eða hreyfa sig. Hlaup eru skemmtilegra en við höldum og þess vegna langaði mig að skrifa Hlaupabókina til að opna nýjan heim fyrir fólk. Eins og skáldið orti um árið A whole new world.