Sölvi Tryggvason er flestum landsmönnum kunnur en í gegnum árin hefur hann tekið að sér fjölbreytt verkefni og störf. Hann starfaði lengi vel í fjölmiðlum og margir muna eflaust eftir Sölva á sjónvarpsskjánum í fréttaþáttunum Ísland í dag á Stöð2, í denn tíð.
Á undanförnum árum hefur Sölvi hins vegar snúið sér alfarið að starfi sínu sem fyrirlesari og rithöfundur, ásamt því að framleiða sjónvarpsefni en hann vann m.a. að heimildarmynd um leið íslenska karlalandsliðsins á EM 2016 sem hlaut vægast sagt góða dóma og var sýnd út um heim allan. Nýjustu verk hans á bókmenntasviðinu eru annars vegar bækurnar Án filters, þar sem handknattleiksmaðurinn Björgvin Páll Gústafsson segir frá persónulegri reynslu sinni af því að kljást við andlegt og líkamlegt hrun, og hins vegar bókin Á eigin skinni en þar gefur Sölvi lesendum innsýn inn í lífshlaup sitt og hvernig hann hefur nýtt hinar ýmsu leiðir, hefðbundnar sem og óhefðbundnar, til þess að öðlast betri andlega og líkamlega heilsu. Þar miðlar hann sömuleiðis góðum ráðum til fólks um hvernig það geti sjálft bætt eigin heilsu og líðan.
Það má því segja að þegar kemur að heilsu og heilsusamlegum lífsstíl er sannarlega ekki komið að tómum kofanum hjá Sölva Tryggvasyni. Okkur fannst því tilvalið að slá á þráðinn til Sölva og fá að henda honum í einskonar hraðaspurningar um lífið og tilveruna, að sjálfsögðu með sérstaka áherslu á heilsu.


Hver er þín menntun og við hvað starfar þú í dag?
ÉG er með BA-próf í sálfræði og framhaldsmenntun í fjölmiðlafræði, en í dag starfa ég aðallega sem fyrirlesari og rithöfundur
Hvað er það skemmtilegasta sem þú gerir?
Það er gríðarlega margt. Ég elska alla tegund af hreyfingu, ég elska að ferðast og svo finnst mér það sem ég starfa við í dag algjörlega dásamlegt.
Hver er þinn bakgrunnur í íþróttum?
Ég æfði og keppti lengi í japönskum skylmingum, meðal annars á heimsmeistaramóti og fleira. Svo hef ég í gegnum tíðina leikið mér í alls kyns íþróttum.
Uppáhalds hreyfingin þín?
Í augnablikinu er það fjallganga!
Hvað er heilsusamlegt líf fyrir þér?
Fyrir mér er heilsusamlegt líf að líða vel í eigin huga og líkama og gera það sem þarf til þess að hámarka líkurnar á því. Hreyfa sig reglulega, borða vel og hvílast í góðu samræmi við ,,action”


Ef þú myndir ætla að ráðleggja fólki eitthvað eitt í átt að bættari lífsstíl, hvað væri það?
Að draga úr notkun snjallsíma og leggja áherslu á að sofa nóg og vel
Stundar þú einhverskonar útivist?
Já, ég geng úti nánast á hverjum degi og svo fer ég í lengri göngur með reglulegu millibili og eins fer ég stundum í útihlaup.
Varstu sjálfur mikið í íþróttum sem barn?
Ég lék mér gríðarlega mikið í fótbolta og körfubolta sem barn.
Hvernig heldur þú huganum í lagi, þ.e. hvernig hugar þú að andlegu heilsunni?
Með því að hreyfa mig, sofa nóg, hugleiða, vera í sambandi við gott fólk og sitthvað fleira.


Hver er þinn versti óvinur og hvernig nærðu að hafa stjórn á honum?
Minn eigin haus. Með því að stunda heilsusamlegt líf og læra betur og betur að elska það hvað ég er klikkaður!
Hver er ein mesta áskorun sem þú hefur tekist á við og hvernig tókst þér að yfirstíga hana?
Þær eru gríðarlega margar. Ég hef skrifað heila bók um mörg af mínum erfiðustu tímabilum og hvernig ég komst í gegnum þau, þannig að ef fólk vill meiri smáatriði ætti það að lesa bókina mína: ,,Á Eigin Skinni”
Instagram eða Facebook?
Bók eða podcast?
Bæði
Uppáhalds matur?
Indverskur, tælenskur og svo góð nauta eða lambasteik


Ef þú ætlar að gera virkilega vel við þig hvað myndir þú gera?
Fara í mjög langa og góða hreyfingu útivið með góðum vinum og borða svo reglulega mikið af góðum mat á eftir
Hver væri titill ævisögu þinnar?
,,Sölvi – Stórfenglegur Rugludallur”
Eitthvað að lokum?
Bara gott vibe og öll mín ást til allra sem eru að glíma við erfiðleika á þessum furðulegu tímum..:)