Search
Close this search box.
Fyrsta árið mitt sem „atvinnumaður“

Fyrsta árið mitt sem „atvinnumaður“

Ég hef allt mitt líf verið í íþróttum og ég elska að keppa. Ég byrjaði ung í fimleikum og fótbolta. Þegar ég hætti í fimleikum bætti ég frjálsum við fótboltann.

Ég æfði frjálsar alveg þangað til ég prófaði CrossFit í maí 2010 með mömmu minni og litlu systur. Mikið vatn hefur runnið til sjávar síðan þá og hef ég keppt á Evrópumóti í bæði liða- og einstaklingskeppni alls sex sinnum. Tvisvar keppti ég með liði og fjórum sinnum sem einstaklingur. Þar af hef ég fimm sinnum unnið mér inn þátttökurétt á The CrossFit Games í Los Angeles eða heimsleikunum í CrossFit.

Ég varð Íslandsmeistari í CrossFit í fyrsta sinn árið 2014 og svo aftur núna 2016. Á öllum Íslandsmótum síðan 2011 hef ég verið á verðlaunapalli.

2016 náði ég samt mínum langbesta árangri á Evrópumótinu og var örugg með pláss á heimsleikunum fyrir síðustu grein mótsins.

Síðasta keppnistímabil (2015-2016) var mitt langbesta hingað til. Evrópa verður alltaf sterkari og sterkari í CrossFit, en 2016 náði ég samt mínum langbesta árangri á Evrópumótinu og var örugg með pláss á heimsleikunum fyrir síðustu grein mótsins. Á heimsleikunum lenti ég í 19. sæti (af 40 keppendum), sem er minn besti árangur hingað til og ég er ótrúlega spennt fyrir komandi tímabili og vonandi enn frekari bætingum.

Ég hef einnig verið að keppa mikið í ólympískum lyftingum samhliða CrossFitinu og hefur mér tekist að setja sjálfa mig ofarlega á lista bestu lyftingakvenna landsins. Ég hef farið út til keppni á Norðurlanda, Evrópu og heimsmeistaramót og á nokkur Íslandsmet í greininni. Ég hef verið valin lyftingakona ársins síðtastliðin tvö ár af LSÍ og var ég einnig fyrsta íslenska lyftingakonan til að fá “Elite Pin” sem er viðurkenning frá Lyftingasambandi Norðurlanda fyrir afburðaárangur í greininni.

Þetta er fyrsta árið mitt sem ‘atvinnumaður’ og eru núna æfingar hjá mér í algjörum forgangi

Í haust ákvað ég að taka mér frí frá námi til að geta einbeitt mér að CrossFit og ólympískum lyftingum, en ég er að læra sjúkraþjálfun við Háskóla Íslands. Þetta er því fyrsta árið mitt sem „atvinnumaður“ og eru núna æfingar hjá mér í algjörum forgangi. Ég er að æfa tvisvar á dag í samtals um 5 klst., fimm sinnum í viku. Þess á milli er ég að borða, sofa og jafna mig fyrir næstu æfingu ásamt því að þjálfa nokkra tíma í viku í stöðinni minni, CrossFit Sport.

Ég hef náð að bæta mig töluvert í ár og er spennt að sjá hvort það skili sér út á keppnisgólfið, en næsta stóra mót er undankeppnin fyrir heimsleikana, Evrópuleikarnir í Madrid í byrjun júní. En undankeppnin fyrir Evrópumótið “The CrossFit Open” hefst strax í lok febrúar.

Höfundur: Þuríður Erla Helgadóttir

NÝLEGT