Search
Close this search box.
Fyrstu dagarnir í Svíþjóð

Fyrstu dagarnir í Svíþjóð

En eins og ég hef áður sagt hef ég haft í nógu að snúast hér í Kalmar og langar mig að sýna ykkur nokkrar vel valdar myndir frá fyrstu tveimur vikum mínum hér úti:

Flugskólinn heitir Diamond Flight Academy og er staðsettur í 5 mínútna göngufjarlægð frá flugvellinum í Kalmar og því mjög hentugt að geta rölt niður á völl fyrir flugtíma dagsins.

Heimavistin og herbergin eru í gömlum skandinavískum stíl sem gerir upplifunina hérna úti ennþá skemmtilegri.

Flugnámið hér úti fer mikið fram í “simma“ eða flughermi á jörðinni. Skemmtilegast er þó þegar við fljúgum vélinni sjálfri enda landslagið og veðráttan önnur en ég hef fengið að kynnast heima sem fer allt saman í reynslubankann. Ísland er þó alltaf yfirburða fallegast, svo mikið er víst.

Vélin sem ég flýg hér úti heitir Diamond DA42 og er fjögurra sæta, tveggja hreyfla austurísk vél og alveg einstaklega skemmtileg og lipurð með sína löngu vængi. 

Hér á heimavistinni eldar hver fyrir sig. Ég hef haldið mig á mjög einföldum nótum þegar kemur að matargerð enda einungis að elda mat fyrir sjálfa mig. Þegar ég var heima á Íslandi átti ég það til að gleyma mér í eldhúsinu með mínum tilraunum í matargerð og er það æðislegt enda matargerð stórt áhugamál hjá mér en hér í Svíþjóð hef ég verið að einbeita mér að öðrum hlutum. Á morgnanna hef ég til að mynda ekki verið að breyta mikið til enda engin ástæða til á meðan maturinn er ennþá jafn spennandi en flest alla morgna hef ég fengið mér: 

  • 1/2 bolli hindber
  • 1/2 bolli bláber
  • Kanill eftir smekk
  • 4 msk tröllahafra eða sykurlaust múslí
  • Möndlu-  eða Kókosmjólk 
  • Toppað með hálfum banana og 4-5 möndlum

Hér er t.d. gott dæmi yfir einfaldan en á sama tíma mjög næringaríkan kvöldmat sem ég sýndi á Instagram story hjá mér um daginn. Grænmetispottréttur með nýrnabaunum, tófú, túrmerik og kínóa. 

Ég var síðan ekki lengi að finna mér Vegan-friendly veitingastað  sem bíður uppá hlaðborð af allskonar fersku hráefni með bæði köldum og heitum réttum ásamt súpu. Staðurinn heitir Porten og er á aðalgötunni í Kalmar en það eru ekki margir staðir hér sem bjóða uppá slíkan mat og mun ég ef að líkum lætur kíkja aftur þangað á meðan dvöl minni stendur.

Kaffihúsið OAS er einnig á aðalgötunni hérna í Kalmar og bíður uppá góð salöt, ferska djúsa, hrákökur, samlokur, smoothie-skálar og fleira. Mjög notalegur staður að heimsækja og njóta.

Annars er Kalmar mjög notalegur og fallegur bær staðsettur eins og áður sagði í suðaustur Svíþjóð með u.þ.b. 37.000 íbúa. Austur af bænum er 6 km löngbrú (Eylandsbrúin) sem tengir Kalmar við eyjuna Öland en þar búa rúmlega 6.000 manns. Fallegar byggingar ásamt risastórum kastala einkenna bæinn.

Ef þið viljið fylgjast með mér frekar er ég virkur notandi Instagram en þar inná fara gjarnan uppskriftir, hreyfing, matur, flug, já eða bara eitthvað sem auðgar lífið og gerir það enn skemmtilegra.

  Þangað til næst, hafið það gott! 

Sigrún Birta

NÝLEGT