Geitaostasalat er í miklu uppáhaldi hjá mörgum, enda bæði bragðgott og hollt. Það gefur auga leið að geitaostasalat má gera ketó vænt og það er nákvæmlega það sem María Krista hefur gert í þessari uppskrift. Hún inniheldur allt það sem gott geitaostasalat þarf að innihalda og gott betur.
Geitaostasalat ala María Krista:
Innihald – Geitaostasalat
- 1 box geitaostur
- 1 bréf hráskinka Parma
- 1 poki blandað salat, spínat og ruccola er líka gott
- 1 dl pekanhnetur
- 10 brómber skorin til helminga
- Rifsber til skrauts
- 1 skammtur af dressingu að eigin vali
- 2 msk örþunnar sneiðar af rauðlauk ca, en má sleppa
Aðferð – Geitaostasalat
- Rífið salatið niður og dreifið á stóran disk
- Rífið niður parmaskinkuna og dreifið í litlar grúppur
- Setjið svo doppur af geitaosti eða myljið ost yfir ef hann er stífur
- Skerið niður brómberin og dreifið hér og þar
- Ristið pekanhneturnar í stutta stund á heitri pönnu, skerið niður og dreifið yfir salatið
- Hellið að lokum dressingunni yfir og njótið í botn.
Það má að sjálfsögðu bæta við fleiri grænmetistegundum en þetta er fljótlegt og gott og hentar mér mjög vel. Kokteiltómatar eru mjög góðir líka með þessu geitaostasalati.
Höfundur uppskriftar: María Krista
Ketó uppskriftir á H Magasín
Þegar þú hefur lokið þér við þetta gómsæta geitaostasalat getur þú rennt í gegnum fjölmargar aðrar ketó uppskriftir hér á H Magasín.
Ketó mataræði hefur verið einkar vinsælt á undanförnum árum og margir hafa séð ýmsa heilsufarslega ávinninga af því. Gott er þó að hafa í huga hvað líkaminn gæti farið á mis við, þegar kemur að bætiefnum, meðan á ketó mataræði stendur. Við hvetjum lesendur okkar því einnig til þess að lesa þessa grein um ketó og nauðsynleg bætiefni.