Bergsveinn eða Beggi Ólafs eins og flestir kalla hann hefur mikla ástríðu fyrir því að hjálpa einstaklingum að færast nær því lífi sem þeir vilja lifa og einstaklingnum sem þeir vilja vera. Hann hefur mikla ástríðu fyrir að deila visku sinni til eins margra og hann getur í gegnum fjöldann allan af fyrirlestrum sem hann hefur haldið, greina- og pistlaskrif, í hlaðvörpum og í gegnum þjálfunarsálfræði svo eitthvað sé nefnt. Beggi gaf á dögunum út sína fyrstu bók, 10 skref í átt að innihaldsríku lífi og fannst okkur hjá H Magasín tilvalið að heyra í Begga í tilefni að þessari útgáfu.
Hvað er að frétta af þér?
Það er gott að frétta af mér – þrátt fyrir að aðstæðurnar sem við lifum við nú til dags taki aðeins á mann. Ég hef verið að sinna ýmsum hlutum sem tengjast ástríðunni minni, því að hjálpa öðru fólki að vaxa og þróast í lífinu. Þar ber helst að nefna að fá fólk til mín í þjálfunarsálfræðitíma, fara inn í stærri langtíma verkefni með stjórnendum fyrirtækja, halda rafræna fyrirlestra og vinna að rafrænu námskeiði. Þegar ég er ekki að sinna þessum verkefnum, lesa eða skrifa ver ég vanalega tímanum með mínu nánasta fólki og nýt þess til hins ýtrasta.
Nú varstu að gefa út bók, hver var kveikjan að þeirri hugmynd?
Fyrir um þremur árum ætlaði ég að komast að hvað einkenndi innihaldrsríkt líf á tveimur vikum svo ég gæti hjálpað öllum við að öðlast frekari tilgang í lífinu. Ég áttaði mig hinsvegar fljótt á að það yrði ekki tveggja vikna verkefni heldur eitthvað sem ég myndi taka mér fyrir hendur út allt lífið. Frá því augnabliki vissi ég að ég myndi gefa út bók einn daginn.
Það var svo ekki fyrr en í maí sem ég ákvað að kýla á það. Mig vantaði vettvang til þess að miðla öllum þeim lærdómi og þeirri þekkingu sem ég hef verið að afla mér síðastliðin ár í gegnum sex ára sálfræðinám, lífið og endalausum klukkutímum í lestur og skrif. Ég var farinn að finna fyrir mikilli þörf til að deila því sem ég hafði lært með öðrum. Ég var farinn að grípa mig tala um alltof mikið af pælingum í fyrirlestrum og að tala of hratt – vegna þess að ég vildi miðla svo miklu frá mér. Að skrifa bókina svalaði þeirri þörf að deila minni vitneskju með öðrum í þeirri von að það hjálpi öðrum að miða áfram í lífinu.
Fyrir hverja er bókin hugsuð?
Fyrir alla þá sem vilja hámarka það sem í þeim býr og hjálpa öðrum að gera það sama. Bókin er fyrir þá sem vilja öðlast vitneskju og lærdóm hvernig þau geta litið öðruvísi á sjálfan sig og lífið og hagað hátterninu sínu á ákveðna vegu til þess að færast nær innihaldsríku lífi – sem er í grunninn það líf sem er dýrmætt og þess virði að lifa.
Varstu lengi að skrifa bókina?
Nei ég var frekar stuttan tíma að því. Skrifin tóku 4-5 mánuði. Þau komu tiltögulega auðveldlega til mín þar sem ég var búinn að koma hugsunum mínum í ákveðið form fyrir alla fyrirlestrana og svo hef ég verið duglegur að skrifa undanfarin ár. Það eina sem ég hugasði um þessa 4-5 mánuði var bókin. Hún tók yfir lífið mitt og eina sem ég vildi gera var að skrifa. Ég varði því miklum tíma á hverjum degi í skrifin.
Nú er þetta þín fyrsta bók, var eitthvað sem kom þér á óvart við skrifin?
Það kom mér á óvart hvað þau gripu lífið mitt. Eina sem ég gat hugsað um var þessi bók. Allstaðar þar sem ég var, þá var ég alltaf að hugsa um bókina og detta í hug nýjar hugmyndir sem gætu passað vel inn. Síminn minn var orðinn fullur af glósum með áhugaverðum punktum fyrir bókina.
Að sama skapi kom á óvart hversu mikið ég lærði af þeim. Mér fannst ég kynnast sjálfum mér mikið betur og allar pælingarnar sem ég hafði áður urðu mikið betri og skýrari.
Það kemur alltaf smá á óvart, eins og með alla sköpun, að þegar maður byrjar á einhverju er lokaniðurstaðan alls ekki skýr. Þú veist ekkert 100% hvert þú ert að fara en svo allt í einu ertu kominn með einn kafla. Svo annan kafla og annan þangað til þú ert allt í einu kominn með heila bók í hendurnar.


Einhver fleiri skrif framundan?
Ég elska að skrifa. Það er fastur liður hjá mér á hverjum degi. Stundum skrifa ég um hugsanir mínar, stundum skrifa ég til þess að auka lærdóm á því sem ég les og tengja við þekkinguna sem ég hef nú þegar. Stundum skrifa ég færslur sem ég birti fyrir öðru fólki. Stundum skrifa ég til að svara spurningum sem ég vil færast nær svari við. Þessa dagana er ég líka að vinna að nokkrum vísindagreinum sem ég ætla fá birtar í tímaritum. Skrif eru orðin stór hluti af mínu lífi og ég get ekki lofsamað þau nóg.
Mig grunar að þetta sé ekki eina bók sem ég gef út. Hvenær ég byrja á næstu er hinsvegar góð spurning!
Nú útskrifaðist þú úr hagnýtri jákvæðri sálfræði og þjálfunarsálfræði í sumar, hvað tekur við?
Að hagnýta allt sem ég lærði í því námi áfram. Þá aðallega að halda áfram að nota þjálfunarsálfræðina með einstaklingum sem koma til mín og með stjórnendum og teymum inn í fyrirtækjum. Þar að auki að halda áfram að halda fyrirlestra, námskeið og að finna ennþá betri leiðir til miðla góðum skilaboðum til fólks í gegnum samskiptamiðla.
Hvernig hefur Covid ástandið lagst í þig heilsulega andlega og líkamlega?
Lengst af hafði ástandið lítil áhrif á mig. Svo þegar það leið á það byrjaði ég að vera leiður yfir ástandinu og stundum reiður. Að lokum næ ég alltaf að samþykka ástandið og finna einhverja góða merkingu úr því – eins og að kunna meta alla hlutina sem maður tók sem sjálfsögðum hlut eins og að geta farið í ræktina, klippingu og að hitta annað fólk og knúsa það.
Þar sem ég vinn mikið einn hef fundið fyrir mikilli þörf á mannlegri nánd og snertingu. Ég á það því til að líma mig við Hildi Sif, kærustuna mína, þegar ég kem heim á kvöldin til að svala þeirri þörf.
Ertu duglegur að hugsa um heilsuna þótt þú komist ekki í ræktina?
Já – ég er það. Heilsa er eitt af mínum grunngildum og hver ég er sem manneskja. Ég reddaði mér ketilbjöllum og næ þannig að viðhalda styrknum. Þar að auki færði ég mig meira í hlaupin og er duglegur að taka göngutúra. Að sama skapi geri ég mitt besta í að borða eins hollt og ég get í hverjum aðstæðum fyrir sig – ég get ekki gert kröfu á neitt meira en það.
Hver er mikilvægasta sjálfsræktin að þínu mati?
Að gera eitthvað daglega sem bætir mig sem einstakling og þar eru möguleikarnir endalausir
Hvernig hlúir þú að andlegu heilsunni?
Ég hreyfi mig, huga að félagslegu tengslunum mínum, sef í átta tíma og ver eins miklum tíma og ég get í núvist. Ég þarf að fá að vera einn með sjálfum mér og ég næri þá þörf daglega – þar sem ég geri eitthvað sjálfur eins og að lesa og skrifa eða hvað sem mér dettur í hug. Að sama skapi að gera eitthvað daglega sem er krefjandi að gera og ýtir við mér.
Hvað finnst þér standa upp úr á árinu?
Tvennt: Að ég hafi hætt í fótbolta og að ég hafi gefið út mína fyrstu bók.
Getur þú nefnt þrennt sem nærir þig andlega?
Góður félagskapur með fáu fólki, hreyfing í náttúrunni og að skrifa/lesa.
Eitthvað sem þú vilt segja lesendum að lokum?
Haldið áfram að vera sterk og sýna þrautseigju þó lífið geti verið krefjandi – það kemur þér ansi langt.