Geta meltingargerlar hjálpað gegn þunglyndi?

Geta meltingargerlar hjálpað gegn þunglyndi?

Þann 6. júlí síðastliðinn birtist í ritrýnda tímaritinu BMJ Nutrition, Prevention & Health, niðurstöður rannsóknar, sem unnin var af sérfræðingum við Brighton and Sussex Medical School á Englandi, sem sýndu fram á mögulegan ábata af því að taka inn meltingargerla fyrir fólk sem þjáist af þunglyndi.

Rannsakendur tilkynntu niðurstöður sínar í greininni og sýndu fram á það hvernig nokkrar tegundir meltingargerla bættu einkenni, til skamms tíma, hjá fólki sem greint hefur verið með þunglyndi.

Rannsóknin er viðbót við vaxandi flóru annarra rannsókna sem miða að því að útskýra hvernig þarmaflóra fólks, þá sér í lagi jafnvægi þarmaflórunnar, hefur áhrif á heilann og geðheilsu fólks.

Það skal þó tekið fram að sérfræðingar sem unnu að þessari tilteknu rannsókn telja of snemmt að alhæfa um niðurstöðurnar þar sem rannsóknin hafði ákveðnar takmarkanir. Sem dæmi má nefna að úrtakshópur rannsóknarinnar hverju sinni var innan við 100 manns og flestir þátttakendur voru á þunglyndislyfjum meðan á rannsókninni stóð.

Þá gátu rannsakendur ekki útilokað lyfleysu áhrif þar sem ekki var notast við samanburðarhóp í öllum tilvikum rannsóknarinnar. Þá benda sérfræðingar sem unnu að rannsókninni að rannsóknir sem meta áhrif þarmaflórunnar á þunglyndi séu almennt skammt á veg komnar.

Það er því rík þörf á frekari rannsóknum sem bæði meta skammtíma sem og langtíma áhrif þess að taka inn meltingargerla fyrir fólk sem þjáist af þynglyndi.

Rannsakendurnir undirstrika einnig mikilvægi þess að þeir sem séu að taka þunglyndislyf samkvæmt læknisráði haldi því áfram og að meltingargerlar verði þannig viðbót við slíkar meðferðir og komi ekki í stað lyfjanna.

Melting og þarmaflóran

Skilvirk starfsemi meltingarkerfisins er afar mikilvæg fyrir góða heilsu og leggur grunninn að almennu heilbrigði og líðan en talið er að stór hluti ónæmiskerfisins okkar liggi í meltingarveginum ásamt flóknu taugakerfi sem framleiðir fjölda taugaboðefna og hormóna sem hafa áhrif á geð og líðan okkar.

Meltingarvegurinn er nokkrir metrar að lengd og þar búa yfir milljónir örvera sem allar gegna mikilvægu hlutverki og því er vert að huga vel að og efla þarmaflóruna okkar.

Þá hefur fjöldi rannsókna sýnt fram á tengsl milli þarmaflórunnar og allskyns heilsufarslegra sjúkdóma og einkenna en má þar nefna sjúkdóma á borð við Alzheimer, sjálfsónæmissjúkdóma, sykursýki og gigt.

Heimild:

https://www.webmd.com/depression/news/20200708/can-probiotics-help-ease-depression#2

Share on facebook
Share on twitter
Share on pinterest

NÝLEGT