Search
Close this search box.
Getur æfingaleysi verið sjálfsrækt?

Getur æfingaleysi verið sjálfsrækt?

Oftast er sjálfsrækt að fara í ræktina og taka vel á því. En stundum er sjálfsrækt að taka enga æfingu.

Suma daga er besta sjálfsræktin að hlusta á þegar líkaminn gargar á þig að klæða þig bara í lopasokka og hlusta á Rás 2 uppi í sófa með heitan hafragraut. Hinsvegar úðast skilaboð af netinu um að vera urlandi gíraður í ræktinni eins og bílasali í Miðvesturríkjunum alla 365 daga ársins. Okkur er talin trú um að til að öðlast vogskorinn skrokk og örmjótt mitti þurfi að slefa á hlaupabretti og sprengja æðar í stálrífingum sjö daga vikunnar.

Þú getur sofið þegar þú ert dauður Hvíld er fyrir landeyður Ofþjálfun er dyggð Þreyta er aumingjaskapur Sviti er fita að grenja

Ef þú hinsvegar upplifðir síðast bætingar í ræktinni þegar Trump var raunveruleikastjarna í sjónvarpinu en mætir samt uppá punkt og prik sjö daga vikunnar og hamast eins og rolla á girðingarstaur þá þarftu líklega að endurskoða réttmæti þessara skilaboða.

Ef þú ráfar um salinn í þokumóðuskýi og gerir máttvana tilraunir í viðskiptum við stálið en eina markmið er að komast útúr þessu húsi sem allra fyrst. Ef svefninn er orðinn tættur og andvökustundir að telja sauðfé orðið normið. Ef þú ert með pervertískar kreivings í sætindi og borðar þig yfir í óminnisástand í hverjum kvöldverði. Þá er hver einasta fruma í skrokknum að garga á þig að nú sé allt í bullandi ójafnvægi.

Þú þarft mjög líklega að æfa minna… ekki meira.

Ef þú tekur hvíldardag munu vöðvarnir ekki leka af þér eins og smjör á volgu rúnstykki. Ef þú hvílir þig einn dag mun spikið ekki hlaðast á mjaðmir, rass og læri. Það sem mun hinsvegar gerast eru:

Auknar þyngdir á stöng. Meiri hraði í sprettum. Meiri ánægja í ræktinni. Betri og dýpri svefn. Meiri kynhvöt og tíðara húllumhæ. Minni súkkulaðilöngun.

Það er nefnilega hægt að eiga ömurlega æfingu sem hefði betur ekki átt sér stað. Skrifaðu þess vegna æfingaprógrammið þitt með blýanti en ekki penna svo þú getir strokað út heilan dag þegar líkaminn heimtar það.

Höfundur: Ragga nagli

NÝLEGT