Getur ekki hugsað sér lífið án útivistar

Getur ekki hugsað sér lífið án útivistar

Kolbrún Björnsdóttir er mörgum að góðu kunn fyrir störf sín í útvarpi og sjónvarpi. Fyrir nokkrum árum ákvað hún að skipta um starfsvettvang og er nú framkvæmdarstjóri Lífs styrktarfélags, auk þess að vinna við leiðsögn hjá Ferðafélagi Íslands. Kolla hreyfði sig ekki neitt og segist hafa fengið harðsperrur við það eitt að hnoða deig. Eftir að hún stóð upp úr sófanum varð ekki aftur snúið og útivist er nú stór hluti af hennar lífi. 

Hvers konar útivist stundar þú? 

„Ég er svo heppin að stunda alls konar útivist og því hef ég yfirleitt alltaf eitthvað að gera. Ég geng á fjöll, fer á gönguskíði, bæði í braut og utan brautar, skelli mér í sjóinn öðru hvoru og svo eru það hlaupin á náttúrustígum sem eru eiginlega í mestu uppáhaldi hjá mér þessa dagana. Fjallahjólið mitt er óþarflega lítið notað en það stendur til að bæta úr því þegar tími gefst.“

Hvað gerir útivist fyrir þig?

„Útivistin hefur gjörbylt lífi mínu og það til hins betra. Fyrir utan að ég er miklu sterkari og hraustari en ég var áður en ég rataði úr sófanum, þá finn ég berlega hversu góð áhrif hreyfing úti í náttúrunni hefur á geðheilsuna. Ég get farið frekar þung og öfug út en komið inn full af gleði og vellíðan. Það er kannski erfitt að trúa þessu en ég held að öll sem stunda útivist skilji nákvæmlega hvað ég er að meina. Fyrir mér er útivera orðin nauðsynleg. Ég get ekki hugsað líf mitt án hennar.“

Hvað varð til þess að kveikja áhuga þinn á útivist og hreyfingu?

„Þegar ég varð fertug hugsaði ég með mér að nú færi að styttast í að lífið byði mér upp á áföll og áskoranir og ég hugsaði með mér að ég væri engan veginn í stakk búin að takast á við þau í því líkamsástandi sem ég var. Ég hreyfði mig ekki neitt og fékk í alvörunni harðsperrur við það eitt að hnoða deig. Mitt í þessum pælingum stakk Rikka vinkona mín upp á því að við byggjum til lið og tækjum þátt í hjólakeppni hringinn í kringum landið. Ég spurði hana hvort hún væri klikkuð en sagði svo já daginn eftir. Sem betur fer. Ég hef síðan þá kallað hana örlagavaldinn minn. Eftir að hafa fallið fyrir hjólasportinu þá fór boltinn að rúlla og ég fór að stunda alls konar útivist.“

Hvaða ráð áttu fyrir þá sem hafa áhugann en koma sér ekki af stað?

„Að hætta að slá hlutunum á frest. Fara út í dag. Það má byrja með göngutúr um hverfið. Það eru til ótal hlaupaprógrömm á netinu fyrir byrjendur. Það er líka mjög sniðugt að skrá sig á námskeið og fá leiðsögn því það getur alveg verið pínu flókið að byrja. Ef fólk vill fara í fjallgöngur, þá er kannski ekki augljóst á hvaða fjöll er best að ganga, hvar á að leggja bílnum, hvaða leið á að ganga upp á fjallið, í hvernig fötum og svo framvegis. Það er úr ótal námskeiðum að velja, til dæmis hjá Ferðafélagi Íslands, og ættu öll að finna eitthvað við sitt hæfi. Það góða við námskeiðin er að fá þessa leiðsögn og kennslu. Læra nýjar leiðir og ekki síst félagsskapurinn, því oft er erfiðasti parturinn að koma sér út en það er mun auðveldara ef það er hópur sem bíður eftir manni.“

Þú stundar vetrarútilegur, hvað er spennandi við þær?

„Vetrarútilegurnar eru hrein dásemd. Ég held að þetta hafi byrjað með Nepal þegar við keyptum okkur hlýja svefnpoka til að nota þar en okkur fannst við þurfa að nota aðeins meira. Svo vatt það upp á sig þegar leiðangur yfir Vatnajökul var ákveðinn og það rak okkur í að fara út í garð í sem mestu frosti og sofa. Þetta hljómar kannski pínu klikkað í eyrum þeirra sem kjósa bara hótel en það er eitthvað við það að sofa úti í kulda. Ég mæli þó alls ekki með því að fólk fari út með skálasvefnpokann sinn, forsendur þess að þetta sé bæði gott og gaman er að hafa réttan búnað. Gott tjald, dýnu sem einangrar vel kuldann frá jörðinni og að sjálfsögðu mjög hlýjan svefnpoka.“

Hugar þú að mataræðinu samhliða hreyfingunni?

„Ekkert sérstaklega. Það gerist eiginlega að sjálfu sér án þess að það sé eitthvað skipulagt. Líkaminn þarf orku í þetta bras og kallar yfirleitt á það sem er í hollari kantinum. Ég hika samt ekki við að fá mér alls kyns gúmmelaði með sem mig langar í og það hvarflar ekki að mér að lifa einhverju meinlætalífi. Ætli ágætis viðmið sé ekki 80-90% hollt?“

Hver er mesta áskorun sem þú hefur tekist á við? 

„Það er pínu erfitt að gera upp á milli. Það getur verið krefjandi að ganga upp í mikla hæð því loftið þynnist með hverjum hæðarmetra. Það er samt svo skrítið að mér leið eiginlega betur á toppi Kilimanjaro en í grunnbúðum Annapurna og Everest þótt Kilimanjaro sé töluvert hærra. En jú, toppadagurinn á Kilimanjaro var mjög langur og strangur. Ævintýri sumarsins var svo allt annars eðlis en þá þveraði ég Vatnajökul á viku með góðum vinum undir leiðsögn Haraldar Arnar og Örvars Ólafssona. Það var vissulega áskorun en þó fyrst og fremst magnað ferðalag.“

Er eitthvað fjall sem er algjört möst að klífa? 

„Nei, eiginlega ekki. Ég er að minnsta kosti voða lítið að vinna með að tikka í einhver box. Mér finnst fyrst og fremst bara gaman að vera úti, bæði hér heima og svo á framandi stöðum. Ég get farið aftur og aftur á sama staðinn, sama fjallið eða sömu leiðina bara af því að hún er dásamleg. Eins og til dæmis gangan yfir Fimmvörðuháls og Laugaveginn. Þannig að jú, það er möst að fara þangað!“

Hvaða verkefnum vinnur þú að núna?

„Ég held utan um tvö verkefni á vegum Ferðafélags Íslands. Annars vegar Kvennakraft, ásamt Nönnu Kaaber, en Kvennakraftur er æfinga- og útivistarverkefni fyrir konur sem vilja hreyfa sig úti í náttúrunni, samhliða því að fá leiðsögn fagaðila við styrktarþjálfun heima fyrir. Á milli allra heimaæfinganna göngum við á fjöll og hlaupum á náttúrustígum sem eru svo miklu fleiri hér á höfuðborgarsvæðinu en margir gera sér grein fyrir. Þetta er nýtt verkefni hjá Ferðafélaginu og hefur gengið ótrúlega vel þrátt fyrir að við höfum þurft að aðlaga okkur aðeins vegna COVID-19. Við erum þegar byrjaðar að skipuleggja ný verkefni eftir áramót. Þá held ég líka utan um gönguhóp eldri og heldri hjá Ferðafélaginu en hópurinn hittist tvo morgna í viku þegar COVID leyfir og fer í að minnsta kosti klukkustundalanga göngutúra. Þetta eru iðulega mínir bestu morgnar vikunnar.“

Við þökkum Kolbrúnu kærlega kærlega fyrir viðtalið og óskum henni góðs gengis í komandi verkefnum.

NÝLEGT