Gleðin í útivistinni

Gleðin í útivistinni

Gróa Másdóttir er jógakennari, markþjálfi og leiðsögumaður, sem veit fátt skemmtilegra en að vera á fjöllum. Hún hefur farið Laugaveginn 17 sinnum, ýmist hlaupandi eða gangandi, hún fer í jógaferðir m.a. á Hornstrandir og stendur fyrir ýmsum öðrum gönguferðum um hálendi Íslands á sumrin. Gróa ákvað að taka þátt í Landvættum fyrir fimmtugt og hefur aldrei verið í betra formi.

Það hafði lengi verið á óskalista Gróu að taka þátt í Landvættum hjá Ferðafélagi Íslands og hún ákvað að slá til áður en hún yrði fimmtug. Landvættirnir er æfingaverkefni sem stendur yfir í um níu mánuði og er takmarkið að ljúka fjórum þrautum innan árs.

Landvættaþrautirnar eru:

Fossavatnsgangan: 50 km skíðaganga.

Bláalónsþrautin: 60 km fjallahjólaferð.

Þorvaldsdalsskokkið: 25 km fjallahlaup eða Jökulsárhlaupið sem er 33 km.

Urriðavatnssundið: 2,5 km vatnasund.

„Ég skráði mig til leiks árið 2019 og náði að ljúka þremur þrautum á síðasta ári en sú fjórða er eftir og verður núna í apríl. Þetta verkefni hefur verið hrikalega skemmtilegt og lærdómsríkt. Ég kynntist frábæru fólki og gerði alls konar nýja hluti þannig að ég fór langt út fyrir þægindarammann. Sem dæmi þjálfaði ég mig í að  synda í stöðuvötnum. Alla tíð hef ég verið dugleg að hreyfa mig en ég hafði aldrei verið hrifin af því að synda í vötnum eða sjó, svo að sá hluti verkefnisins óx mér sérstaklega í augum. Ég hef frekar viljað synda í sundlaug þar sem ég sé bæði til botns og báða enda en á æfingatímabilinu notaði ég hugleiðslu og jóga til að sigrast á þessari fælni og það tókst. Það var því mikil persónulegur sigur að ná að synda 2,5 km í úfnu vatni. Eftir það fannst mér sem mér væru allir vegir færir,“ segir Gróa og brosir.

Þá kom henni ánægjulega á óvart hversu skemmtilegt er að hjóla úti í óbyggðum. „Ég pantaði fjallahjól í fimmtugsafmælisgjöf frá fjölskyldunni. Eftir að hafa prófað að hjóla utan vega og á fjöllum með Landvættunum langar mig að halda því áfram.“  

Göngur og jóga

Þessa dagana hefur Gróa mörg járn í eldinum. Hún hefur sinnt gönguleiðsögn fyrir m.a. Ferðafélag Íslands og Íslenska fjallaleiðsögumenn, auk þess sem hún rekur eigið fyrirtæki sem heitir Grænar ferðir.

„Það er svo mikil gleði fólgin í því að stunda útivist, enda vil ég helst bara vera úti að hreyfa mig, hvort sem er á skíðum, á hjóli eða göngu. Ég fæ svo mikla orku og hamingju með því að vera úti í náttúrunni. Þetta er lífið fyrir mér,“ segir Gróa.

Í sumar ætlar hún að hlaupa Laugaveginn með hóp kvenna á vegum Grænna ferða. Gróa er þaulkunnug þessari vinsælu gönguleið því hún hefur ýmist gengið eða hlaupið Laugaveginn sautján sinnum.

„Ég hljóp hann á tveimur dögum í fyrra og það var ótrúlega skemmtilegt. Ég fór með vinkonum mínum og mottóið okkar var að njóta en ekki þjóta. Ekki var farið hraðar yfir en sú hægasta fór. Í sumar stefni ég á að fara með tvo kvennahópa hlaupandi á tveimur dögum og einn gönguhóp á fjórum dögum þessa undurfögru leið. Síðan mun ég fara með kvennahóp á Hornstrandir í jógaferð og einnig í Lónsöræfin, sem er magnað svæði. Þar verður gist í Múlaskála og farið í dagsferðir út frá honum. Allar þessar ferðir eru á vegum Grænna ferða.“

Þá hefur Gróa kennt jóga um langt skeið en hún kynntist jóga úti í Noregi fyrir 25 árum. „Mér fannst það svo heillandi að ég fór á byrjendanámskeið hjá Guðjóni Bergmann eftir að ég flutti heim. Jógakennaraprófið tók ég 2005 og síðan þá hef ég meira og minna verið að kenna. Ég kenndi jóga í World Class um lengt skeið. Á tímabili var ég að kenna svokallað jakkafatajóga á vinnustöðum en í kórónuveirufaraldrinum hef ég verið með jógatíma á netinu. Um tíma var ég með meistaraflokk karla í fótbolta hjá Fram í jógaprógrammi, sem var mjög skemmtilegt verkefni,“ segir Gróa.

Hana langaði að vinna meira með sjálfstyrkingu og ákvað því að fara í nám í markþjálfun fyrir nokkrum árum. „Jóga og markþjálfun eiga margt sameiginlegt og innan þessara fræða er svipaður hugsunarháttur. Mér fannst gaman að geta tengt þetta tvennt saman. Ég vinn með ungt fólk hjá VIRK – Starfsendurhæfingarsjóði í gegnum Framvegis – Miðstöð símenntunar, sem er að fóta sig eftir að hafa gengið í gegnum ýmsa erfiðleika. Ég get nýtt jóga, leiðsögn og markþjálfun í því starfi, sem er mjög gefandi,“ segir Gróa að lokum.

Góð ráð

Við fengum Gróu til að segja okkur hvað gott er að hafa í huga fyrir gönguferðir, hvort sem þær eru langar eða stuttar.

Þegar fólk stefnir á lengri göngur er ýmislegt sem þarf að huga að. Búnaður skiptir miklu máli eins og skór og fatnaður.

Hver og einn verður að finna skótegund tegund sem hentar honum/henni best. Þegar verið er að prufa nýja skó þá er um að gera að fara í styttri göngur til að aðlaga skóna að fótunum.

Fatnaðurinn verður að vera hlýr, vind- og vatnsheldur. Best er að vera í þunnu ullarlagi innst, þægilegum buxum og peysu þar næst og svo flíspeysu, lopapeysu eða mjúkri skel yst. Utan yfir kemur svo vindheld/regnheld skel ef á þarf að halda.

Í undirbúningi fyrir ferðirnar skiptir máli að fara rólega af stað, sérstaklega ef fólk er alveg óvant.

Ég mæli með að ganga á jafnsléttu áður en farið er í göngur á minni fjöllum í nágrenninu. Ef fólk er á höfuðborgarsvæðinu er gott að byrja á að ganga á Úlfarsfell og Helgafell í Hafnarfirði. Smá saman er hægt að þyngja göngurnar, fara í lengri göngur og æfa sig að bera bakpoka.

NÝLEGT