Hafragrautur er alltaf góður kostur. Hafrar eru á meðal hollasta kornmetis á jörðinni en þeir eru heilkorna og stútfullir af nauðsynlegum vítamínum, steinefnum, trefjum og andoxunarefnum. Fjölmargar rannsóknir hafa sýnt fram á að hafrar og haframjöl hafa marga heilsusamlega kosti en þeir hjálpa m.a. við að stuðla að þyngdartapi, lægri blóðsykri og minnka hættu á hjartasjúkdómum.
Hafrar eru ein næringarríkasta fæða sem við getum borðað en samsetning næringarefna í höfrum er nokkuð jafnskipt. Þeir eru góð uppspretta af kolvetnum og trefjum, innihalda meira af próteini og fitu en annað kornmeti og eru stútfullir af vítamínum og steinefnum. Hafragrautur er mjög seðjandi og því gott að byrja daginn á graut sem gefur okkur góða orku inn í daginn – enda á meðal því hollasta sem við getum fengið okk
Möguleikarnir eru óteljandi þegar kemur að hafragraut en hér deili ég með ykkur mínum uppáhalds grautum. Þeir eru mjög ólíkir bæði í útliti, bragði og áferð en báðir lygilega góðir. Annar er kaldur og þarf að geyma í kæli yfir nótt en hinn tekur nokkrar mínútur að sjóða í potti.
Heitur próteingrautur fyrir einn
1 dl hafrar (grófir og fínir)
2 dl vatn
20 g whey prótein


Blandið saman höfrum, þeir mega vera fínir eða grófir (gott að blanda þeim saman), og próteini að eigin vali – mitt uppáhalds er með bragðinu cookies créme. Setjið blönduna í lítinn pott ásamt vatni á heita hellu og hrærið stöðugt í þar til grauturinn byrjar að sjóða. Við viljum ekki að próteinið sjóði svo slökkvið strax undir og hellið í skál. Próteinið gefur ekki einungis dásamlegt bragð heldur gefur það máltíðinni enn meiri fyllingu og orku fyrir vöðvana. Njótið!
Kaldur hafragrautur fyrir einn
1 dl hafrar
1 msk chia fræ
1 tsk kanill
2-3 dl möndlumjólk
1 tsk kakónibbur
2 niðurskornar döðlur
Nokkrar bananaskífur
Nokkur bláber
Gott er að gera grautinn í krukku eða skál sem hægt er að loka. Öllu blandað saman og geymt í ísskáp yfir nótt. Nauðsynlegt er að grauturinn standi í nokkra klukkutíma þar sem chia fræin þurfa að drekka í sig vökvann (ef þið eruð ekki að nota blaut fræ) og því tilvalið að undirbúa grautinn kvöldinu áður. Chia fræ eru stútfull af nauðsynlegum fitusýrum og góð uppspretta af trefjum.
Magn af bönunum, bláberjum, kakónibbum og döðlum er eftir smekk en einnig er hægt að sleppa þessum hlutum eða nota annað í staðinn – þeir eru einungis til að bragðbæta og möguleikarnir eru óteljandi! Njótið vel.
Höfundur: Birgitta Líf Björnsdóttir (RvkFit)