Göngutúr er frábær heilsubót!

Göngutúr er frábær heilsubót!

Ef langhlaup, hjólreiðar á háum púls eða kröftugir líkamsræktartímar eru þínar hugmyndir um árangursríkar þolæfingar sem stuðla að betra hjarta- og æðakerfi og auknu þoli, þá hefur þú rétt fyrir þér. En þú ert að gleyma annarri einfaldri en árangursríkri hreyfingu sem hefur einnig góð áhrif, en það er að ganga.

Ganga er frábær þjálfun sem hægt er að stunda inni og úti, hvenær sem er dagsins eða á kvöldin, án þess að þurfa aðgang að sérstakri líkamsræktarstöð eða tæknilegum búnaði. Hægt er að ganga inni á bretti eða úti, við mælum klárlega með göngum úti því fátt jafnast á við góða göngu í náttúrunni. Það er bæði heilsusamlegt fyrir okkur og einstaklega uppbyggjandi fyrir líkama og sál. Við hér á Íslandi erum svo heppin að þurfa ekki að fara langt til þess að vera komin í náttúruna og er fjöldinn allur af góðum gönguleiðum steinsnar frá okkur, sama hvar við búum.

Það eina sem þú þarft til að geta gengið á þægilegan máta eru góðir skór og hvatning til þess að reima þá á þig og koma þér af stað. Ef þér finnst erfitt að koma þér af stað og ert sífellt að finna afsakanir til að fara ekki, þá skaltu finna þér einhvern sem er til í að ganga með þér, það er hvetjandi og heldur okkur við efnið. Kosturinn við að ganga saman er vissulega hvatningin og tíminn sem við fáum með viðkomandi í góðu spjalli. Þá mælum við einnig með að taka göngtúra einn með sjálfum sér og jafnvel góðri hljóðbók eða hljóðvarpi, hlusta á eitthvað sem gleður okkur og nærir.

En getur ganga einnig verið góð þolþjálfun?

Hægt er að nota göngur sem þol þjálfun, þú getur bætt formið og heilsuna með því að setja smá kraft í göngutúrana. Þolþjálfun þýðir að stunda æfingar sem stuðla að betra þoli, það er að segja að stunda æfingar sem fá hjartað til að pumpa hraðar og hafa þannig jákvæð áhrif á hjarta- og æðakerfi. Góð þolæfing fær hjartað til að pumpa hraðar, ásamt því að flytja blóð fullt af súrefni hraðar til vöðva, líffæra og vefja í líkamanum.

Þú gætir tengt aukið blóðflæði og það að hjartað pumpi hraðar við hlaup og hugsað með þér, geta göngur flokkast sem þolæfingar? Staðreyndin er sú að öll hreyfing sem fær hjartað og lungun, ásamt stóru vöðvunum í líkamanum til að vinna hraðar geta flokkast sem þolþjálfun og kraftmikil ganga gerir alla þessa hluti. Göngur eru frábær tegund hreyfingar og bæta okkur á margan hátt, en til þess að skora á þolið og úthaldið þarftu að ganga á frekar kraftmiklum hraða svo það hafi aukin áhrif á hjartað, lungun og vöðvana.

Hver er ávinningurinn af því að ganga rösklega?

Göngutúrar hafa marga góða kosti, auk þess að bæta hjarta- og æðakerfið. Það að taka reglulega kraftmikla göngutúra getur hjálpað til við að:

• draga úr hættu á hjartasjúkdómum, heilablóðfalli og sykursýki

• bæta blóðflæði

• stjórna háum blóðþrýstingi

• bæta kólesterólmagn

• stjórna blóðsykri

• byggja sterkari vöðva og bein

• hafa stjórn á þyngd þinni

• bæta svefninn

• auka orku þína

• bæta heilastarfsemi

• bæta jafnvægi og samhæfingu

Regluleg hreyfing og þar með talið göngur bæta heilsuna, auka lífshamingju og lífsgæði. Það er ekki eftir neinu að bíða, reimaðu á þig skóna og gangtu af stað. Byrjaðu rólega og bættu svo við með tímanum.

 „Walk to be healthy, walk to be happy.“ Charles Dickens

Heimild: https://www.hsph.harvard.edu/nutritionsource/2013/11/19/walking-and-bicycling-your-way-to-health/

NÝLEGT