Grænn ofur-smoothie

Grænn ofur-smoothie

Heil og sæl! Ég trúi ekki að ég hef aldrei deilt uppskrift af grænum smoothie með ykkur fyrr en núna! Þegar ég er að flýta mér á morgnana þá þykir mér upplagt að henda í einn grænan ofur-smoothie til þess að grípa með mér í skólann eða vinnuna. Ég nota m.a. grænkál í þennan smoothie því það er uppáhalds grænmetið mitt og algjör ofurfæða. Stundum borða ég grænkál eintómt sem snakk því mér þykir það svo gott! Grænkál er afskaplega næringarríkt og inniheldur mikið magn af A, C og K- vítamíni ásamt kalsíum og andoxunarefnunum: quercetin og kaempferol sem eru bólgueyðandi. Grænkál er einnig gott fyrir meltinguna. Þrátt fyrir alla heilsueiginleika grænkáls þá eru ekki allir fyrir grænkálið því það er með einkennilegt bragð svo spínat dugar líka í þessa uppskrift. Ég vil taka það fram að þessi uppskrift er gerð í samstarfi við Himneska Hollustu og Isola Bio. Ég nota meðal annars hampfræ frá Himneskri Hollustu fyrir auka prótein í smoothie-drykkinn minn en það er líka hægt að nota chia fræ. Ég hef verið að prófa mig áfram með krydd í smoothie-drykki, það hljómar kannski undarlega en ég mæli með að prófa! Ég nota túrmerik í þennan smoothie-drykk og örlítið af svörtum pipar en svartur pipar hjálpar líkamanum að taka upp túrmerik. Fyrir áhugasama þá skrifaði ég stutta færslu um helstu heilsueiginleika túrmeriks en það er m.a. þekkt fyrir að vera bólgueyðandi. Byrjum að blanda! 

  • 2 lauf af grænkáli 
  • frosinn mangó eftir smekk 
  • 1 frosinn banani 
  • engifer eftir smekk 
  • 1-2 msk hampfræ eða chia fræ frá Himneskri Hollustu 
  • 1/4 – 1/2 tsk af túrmerik frá Himneskri Hollustu + dass af svörtum pipar 
  • 1/2 avocado (má sleppa)
  • Þynnið með möndlumjólk, kókosvatni eða ávaxtasafa


Aðferð:
Setjið allt hráefni í blandara og blandið vel saman. Þynnið með möndlumjólk, kókosvatni eða ávaxtasafa eftir smekk. Einfalt og fljótlegt! Ef blandarinn ykkar er ekki kraftmikill þá er eðlilegt að grænkálið leysist ekki alveg allt upp.

Þessi uppskrift er alls ekki heilög og það má breyta hlutföllunum eins og manni sýnist. Mér persónulega finnst æðislegt að setja slatta (og þá meina ég slatta) af engifer út í smoothie-drykkina mína en sumum finnst engifer ekkert sérstakt og setja kannski lítið af því en ég myndi alls ekki sleppa því! Það sama gildir með hampfræin og túrmerik. Ef þið eruð ekki fyrir það þá bara um að gera og setja aðeins minna af því eða nota chia fræ í staðinn fyrir hampfræ. Ég reyni líka að troða avocado í allt sem að ég borða svo að sjálfsögðu setti ég avocado í smoothie-drykkinn minn en það er til þess að fá holla fitu. Ég er með mjög þurra húð svo ég reyni að borða fæðu sem inniheldur holla og góða fitu, eins og avocado. Það má samt alveg sleppa avocado ef maður vill hann ekki.

Hendið klökum út á smoothie-drykkin ef þið viljið og njótið!

 Ef þið viljið fylgjast betur með mér getið þið fylgt mér á Instagram 

Þangað til næst, verið heil og sæl! 

Höfundur: Asta Eats

NÝLEGT