Search
Close this search box.
Hættum að bæla niður tilfinningar okkar, viðurkennum þær!

Hættum að bæla niður tilfinningar okkar, viðurkennum þær!

Höfundur: Ragga nagli

Við erum öll að berjast við nýjan veruleika. Stundum ertu valhoppandi með einhyrningum prumpandi glimmeri í bullandi jákvæðni. Urlandi bjartsýnn og ferskur eins og nýbakað normalbrauð úr Kristjánsbakarí;

„Þetta er bara fínt. Maður fer allavega snemma að sofa. Fær fullt af tíma til að púsla og lita. Baka bananabrauð og tala við mömmu á Facetime.“

En suma daga er bugun í sálinni á ólympískum mælikvarða. Lúxusvandamálin hrannast upp í harða efninu;

„Ég hata þetta. Mig langar að hitta vini mína. Fara út að borða. Á kaffihús og til útlanda. „

Í gærkvöldi átti Naglinn erfitt með að vera fullorðin. Pikkaði rifrildi við bóndann yfir röngum innkaupum. Alveg að fara að grenja inni í eldhúsi yfir enn einu kvöldinu yfir Netflix. Það vantar alla dópamín framleiðslu í skrokkinn frá því sem áður veitti vellíðan.

Varð átta ára í þroska – fimm ára í hegðun. Vildi bara sitja í fýlu inni í herbergi og borða nammi. Það losar allavega út dópamín og serótónín.

Naglann langar að setja á sig varalit.
Krullur í hárið.
Fara í háa hæla.
Dansa í partýi.
Hlægja og slúðra.

Extróvertinn er vanræktur eins og kaktus í stofuglugganum.

Sem betur fer býr Naglinn sem sálfræðingur yfir færni og hæfni til að átta sig á hvað er raunverulega í gangi í tilfinningakerfinu. Í bók sinni Leitin að tilgangi lífsins sagði Victor Frankl að á milli áreitis og viðbragðs er bil þar sem þú velur viðbrögð þín. Þar liggur valdið þitt.

Með því að viðurkenna tilfinningarnar og mæta þeim með viðeigandi hjálplegum bjargráðum. Hvaða tilfinningar ertu að upplifa?
Pirring. Frústrasjón. Kvíða.

Finndu síðan hvers vegna þessi tilfinning er að hríslast um skrokkinn.

Skortur. Óöryggi. Streita. Leiðindi.

Ekki dæma þig fyrir að vera urlandi grjótpirraður.
Ekki skammast þín fyrir að vera hræddur og með kvíða.
Ekki fela þig fyrir að vera viðkvæmur.

Sýndu sjálfum þér samkennd á þessum erfiðu tímum.
Við eigum öll daga þar sem við prumpum glimmeri.
Við eigum líka öll daga sem eru eins og píslarganga Krists.

Naglinn er ekki fullkominn frekar en aðrar mannlegar hræður og vill deila sínu ströggli líka.

Án þess að skammast sín.
Berskjöldun er hugrekki.
Viðkvæmni er styrkur.

Það er auðvelt að fá augun full af ryki frá stöðuuppfærslum um hamrandi hressleika og drífandi dugnað að baka bananabrauð og klára þrjúþúsund púsl á einum eftirmiðdegi og fá samviskubit yfir eigin vanlíðan og framtaksleysi.

En það prumpar enginn glimmeri alla daga. Allra síst í Kórónukrísu. Það knúsar enginn kettlinga í nýju rúmi úr Betra bak… á Tempur dýnu.

Allir berjast við sína djöfla og drauga.

Segðu frá þínum tilfinningaglímum upphátt. Leyfðu öðrum að heyra af þinni baráttu. Það verður kannski öðrum til hjálpar. Og að hjálpa öðrum er skjótasta leiðin til aukinnar vellíðunar.

Höfundur: Ragga nagli

NÝLEGT