Innihald
1 dl hafrar, lífrænir
2 1/2-3 dl vatn eða mjólk að eigin vali
Aðferð: Setjið þetta tvennt saman í pott og látið suðuna koma upp. Hrærið í á meðan. Um leið og suðan er komin upp, slökkvið undir pottinum, hrærið áfram og bætið við meira vatni eða meiri mjólk ef ykkur finnst þurfa. Setjið svo út á grautinn ykkar það sem ykkur finnst gott. Þið megið auðvitað láta hann malla í nokkrar mínútur í viðbót ef þið viljið hafa hann mýkri og meira eldaðan. Það er algjört smekksatriði.
Nokkur dæmi um góðgæti til að bæta við
- Eplabitar eða eplamauk
- Bananabitar
- Ber eða berjamauk
- Mjólk að eigin vali (hægt að fá möndlumjólk, rísmjólk og fleira frá t.d. Isola)
- Rjómi/smjör
- Chiafræ eða chiabúðingur (3 msk chia settar í sultukrukku með loki og 200 ml af vatni, möndlu- eða hrísmjólk helt út á – hrist vel – breytist á 15 mínútum í búðing – geymist í kæli í um 1-2 daga)
- Kókosolía (kaldpressaða)
- Kókosmjöl og/eða kókosflögur
- Kanill
- Vanilluduft
- Möndlur (gott að saxa þær fyrst)
- Fræ sem ykkur finnst góð (sesamfræ, graskersfræ, sólblómafræ sem dæmi)
- Mórber
- Rúsínur
- Ögn af lífrænu hunangi/agave/hrásykri
- Örfáir dropar vanillu-, kókos- eða karamellustevía
Athugið að hafrarnir sjálfir innihalda ekki mikla fitu og því þarf að bæta einhverri fitu út í grautinn til að hann gefi okkur góða og jafna orku sem endist okkur lengi. Fita temprar blóðsykurinn okkar og kemur í veg fyrir sykurföll. Þið getið sett smá rjóma, kaldpressaða kókosolíu, ólífuolíu, hörfræolíu, hampolíu eða smjör sem dæmi, út á grautinn. Ég sjálf tek 1-2 msk af hör-, hamp- eða fiskolíu á hverjum degi beint af skeið. Ég tek þær til skiptis. Chiafræin innihalda góðar omega-3 fitusýrur og eru því góð út á grautinn sem og möndlur og fræ. En ég myndi samt líka bæta aukalega við olíum (af skeið eða út í grautinn) eins og ég taldi upp hér að ofan.
Höfundur: Ebba Guðný