Search
Close this search box.
Halló, ertu þarna?

Halló, ertu þarna?

Ég veit ekki hversu oft ég hef hreinlega verið komin með vini og vandamenn nánast í nefið á mér þegar ég loksins ranka við mér og tek eftir því að það eru aðeins fleiri í ræktinni en bara ég.

Oftar en ekki fylgir þessu svo hlátur og eitthvað á þessa leið: „ Vá, hvar varstu eiginlega? Ég er búin að standa og reyna að ná athygli þinni endalaust lengi.“

Já, þetta er víst ég meðan á æfingu stendur. Útiloka hreinlega allt utanaðkomandi áreiti og dett að fullu inn í sjálfa mig og þær æfingar sem framkvæmdar eru hverju sinni. Og ég get algjörlega kvittað fyrir það og staðfest að þessar stundir eru þær sem halda í mér lífinu þegar álagið er mikið og heilinn flýgur áfram, úr einu í annað og gefur engan grið hvort sem er að degi eða nóttu.

Gott eða slæmt?

En er það jákvætt að detta svona algjörlega út,ef svo má segja, meðan á æfingu stendur eða er þetta eitthvað sem við ættum að varast?

Svarið er bæði já og nei og bundið af því hvort við séum að færa fókusinn allan inn á við og í æfingamómentið eða við séum að fjara út þannig að aðrar hugsanir eða utanaðkomandi áreiti nái yfirtökum á æfingunni þannig að einbeitingin hverfi.

Slíkt gerist oft vegna þess að okkur leiðist það sem við erum að gera og gæti verið vísbending um að nú sé tímabært að skoða aðra og nýja möguleika hvað æfingar og hreyfingu varðar.

Það getur verið gott að velta fyrir sér hvaða hugsanir það eru sem skjóta upp kollinum við þessar aðstæður. Oft erum við föst í hugsunum sem angra okkur meira en við kjósum að trúa en þarfnast þess að tekist sé á við. Ókláruð mál, sektarkennd, reiði og alls kyns tilfinningar geta valdið því að við fjörum út á æfingum, svo veittu hugsunum þínum athygli og reyndu í kjölfarið að finna þeim réttan farveg og úrlausn.

Að halda fókus, vera í NÚINU og einbeita þér algjörlega að æfingunni hverju sinni er hins vegar vegar mjög jákvætt. Slíkt getur hjálpað þér að ná markmiðum þínum fyrr sökum þess að allir vöðvar líkamans eru að fullu virkir meðan á æfingu stendur auk þess að geta komið í veg fyrir meiðsli. Að lyfta lóðum getur t.d. verið sérstaklega hættulegt þegar fókus og athygli er ekki að fullu til staðar.

Rétt líkamsstaða og vöðvabeiting

Rétt líkamsstaða og vöðvabeiting er ALLT þegar kemur að æfingum en oftast það fyrsta sem fer þegar við erum annars hugar. Það eykur ekki bara hættuna á meiðslum heldur gerir það æfingarnar langtum óskilvirkari… og enginn vill vinna tvöfalt meira til að ná markmiðum sínum!

Að halda réttri líkamsstöðu og vöðvabeitingu ætti að vera aðal markmið þitt á meðan þú æfir. Ef reikandi hugsanir og/eða æfingaleiði eru að trufla þig og mögulega koma í veg fyrir að þú beitir þér rétt, þá ættirðu að kafa ofan í ástæðurnar eins fljótt og mögulegt er. Það síðasta sem þú vilt er slitið liðband, beinbrot eða meiðsli í baki sem hefði auðveldlega verið hægt að koma í veg fyrir.

Settu þér markmið í æfingunum

Stundum getur ástæða þess að við missum fókus í ræktinni einfaldlega verið sú að okkur vantar markmið eða markvissa æfingaáætlun að fylgja. Ef þú setur þér vikuleg markmið og/eða fylgir fastri og fyrirfram ákveðinni æfingaáætlun verður árangurinn langtum meiri og líkurnar á því að æfingaleiði skjóti upp kollinum minni.

Prófaður að skrifa æfingadagbók með vikulegum markmiðum og fyrirfram ákveðnum æfingatímum, áskorunum eða keppnum. Þetta mun hjálpa þér að halda einbeitingunni og æfingagleðinni gangandi. Að ná fyrirfram settum markmiðum og upplifa raunverulegan og mælanlegar árangur gefur svo MIKLU MIKLU meira en þig grunar. Bæði á líkama og sál!

Haltu fókus og æfðu í NÚINU

Þegar við setjum fókusinn inn á við og tengjum okkur að fullu við líkamann meðan á æfingu stendur, þá hámörkum við líkamlegan árangur auk þess sem ánægja og steitulosun meðan á æfingu stendur verður mun meiri.

Með því að tengja líkama og huga að fullu saman, upplifum við æfinguna með allt öðrum hætti en þegar við leyfum huganum að reika í allar áttir. Gott ráð er að nota upphitunina í að hreinsa hugann af öllu öðru en því sem snýr að æfingunni. Skoðum æfinguna í heild sinni og veltum því fyrir okkur hvernig við ætlum að framkvæma hana. Hvernig líður okkur í dag og hvernig er orkan? Ætlum við að keyra hratt í gegn eða ætlum við að gefa okkur lengri tíma. Er þetta dagurinn sem við reynum við ný persónuleg met eða er þetta kannski dagurinn þar sem við breytum plani og tökum „active recovery“ dag í stað uppsettrar æfingar vegna þess að við erum þreytt og illa tillögð?

Allt skiptir þetta sköpum þegar kemur að því að ná árangri. Ef við erum ekki að fullu til staðar þá verður árangurinn einfaldlega ekki sá sami og okkur fer fljótlega að leiðast það mikið að spóla endalaust í sömu förunum án nokkurs sýnilegs eða mælanlegs árangurs!

Með kærri kveðjur frá Köben

Coach Birgir

Hér má finna aðra pistla frá Bigga og Lindu

NÝLEGT