Search
Close this search box.
Handbolti, hjólreiðar og óbilandi keppnisskap – Ágústa Edda í nærmynd

Handbolti, hjólreiðar og óbilandi keppnisskap – Ágústa Edda í nærmynd

Í september 2019 braut Ágústa Edda Björnsdóttir blað í sögu íþrótta hérlendis þegar hún varð fyrsti Íslendingurinn til að taka þátt á heimsmeistaramóti í götuhjólreiðum. Keppnin fór fram í Yorkshire í Bretlandi þar sem var farin 150 kílómetra leið með 474 metra hækk­un milli bæj­anna Ripon og Harrogate. Aðspurð segir hún keppnina hafa verið eitt það magnaðasta sem hún hefur upplifað á sinni ævi, enda mótið stórt í sniðum og mikil stemmning í kringum keppnina.

Þrjóska, keppnisskap og magnaður ferill Ágústu

Þessi einstaki viðburður í lífi hennar, sem og í íslenskri íþróttasögu, á sér langan og skemmtilegan aðdraganda en Ágústa Edda byrjaði í íþróttum 8 ára gömul, nánar tiltekið þegar fimleikadeild Gróttu var stofnuð:

Ég hafði ákveðna eiginleika sem nýttust mjög vel í fimleikunum en svo skorti mig líka eiginleika sem eru mjög mikilvægir í greininni. Ég var mjög sterk en alveg hræðilega stirð. Þegar það kom kínverskur þjálfari til félagsins (ég var þá 11 ára) og var að velja í úrvalshóp horfði hann á mig reyna að komast í splitt (sem ég var mjög langt frá) og afskrifaði mig á 5 sekúndum,“ segir Ágústa Edda kímin.

Hún neitaði hins vegar að gefast upp og vildi ólm sanna sig, þökk sé þrjóskunni og kappseminni sem hún býr að. Við tóku daglegar teygjur og heimaæfingar fyrir framan sjónvarpið þar til markmiðinu var náð, þ.e. að komast í splitt á báðum fótum og spígatt. Úr varð að hin unga Ágústa Edda komst í úrvalshópinn og varð að lokum ein af fremstu fimleikakonum landsins á hennar aldri.

Ágústa æfði fimleika þar til hún varð 15 ára en þremur árum áður hafði hún prófað handbolta og kom þá í ljós að hún var með mikinn bolta í sér. Það reyndist hins vegar þrautinni þyngri að sameina þetta tvennt, vegna stífra og langra æfinga í fimleikunum, svo úr varð að handboltinn fór á ís. Þegar hún hætti svo í fimleikunum fór hún aftur á fullt í handboltann og sú vegferð átti heldur betur eftir að vinda upp á sig:

„Ég var farin að spila með meistaraflokki eftir 2 ár en sá styrkur sem ég bjó að frá fimleikunum nýttist mér vel. Ég var hins vegar aldrei sú tæknislegasta en bætti það upp með góðu formi, styrk, leikskilningi og óbilandi keppnisskapi. Ég lék með 18 ára landsliðinu og var svo valin í A-landsliðið 20 ára gömul og spilaði með því í 15 ár. 29 ára gömul var ég valin handknattleiks kona ársins sem mér fannst gríðarlega mikill heiður.“

Eftir gríðarlega farsælan feril í handboltanum þurfti Ágústa að hætta, 36 ára að aldri, vegna hnémeiðsla sem öftruðu henni frá því að geta hlaupið. Aðspurð segir hún það ekki hafa verið erfiða ákvörðun, enda ákvörðunin í sjálfu sér tekin fyrir hana þar sem hún gat ekki haldið áfram að stunda handboltann vegna meiðslanna. Eftir sem áður var hún sátt við að ljúka ferlinum þarna að eigin sögn, enda átt langan og góðan feril í handboltanum.

Einstök lífsreynsla í krefjandi hjólreiðakeppni

Það kom svo á daginn að það var algjör óþarfi að leggjast í svekkelsi yfir endalokum handboltaferilsins því um 1-2 árum seinna hófst næsta ævintýri Ágústu, þegar hún leiddist út í hjólreiðar og datt á bólakaf í þá grein, eins og hún segir sjálf frá: „Hjólreiðar hafa verið mín ástríða undanfarin ár, ég eyði miklum tíma í æfingar og keppni. Ég þjálfa hópa og einstaklinga bæði innan- og utandyra og ég hef eignast hrúgu af nýjum vinum og kunningjum.“

Aðspurð út í heimsmeistaramótið segir hún upplifunina hafa hreint út sagt verið stórkostlega:

„Mótið tók viku (tvær greinar – tímataka og götuhjólreiðar – og nokkrir aldursflokkar) og allar keppnir enduðu í bænum Harrogate í Englandi. Bretarnir voru ótrúlega spenntir fyrir keppninni og mér leið pínu eins og súperstjörnu því fólk horfði á eftir mér hvert sem ég fór þegar ég var í landsliðsbúningnum, dáðist að hjólinu mínu, vildi fá eiginhandaráritun og mynd með mér og óska mér góðs gengis. Þannig að ég (no-name í íþróttinni) gat rétt ímyndað mér hvernig alvöru súperstjörnunum leið.

Svona hjólreiðamót er líka stærri í sniðum en flestir gera sér grein fyrir. Það var byrjað í mismunandi bæjum og þurfti að loka götum og leiðum á allt að 150 km köflum. Svo þarf sjálfboðaliða á allri leiðinni til að passa upp á áhorfendur/umferð, lögreglufylgd á mörgum stöðum á meðan keppni stendur, fjölmiðlafólk á mótorhjólum og í þyrlu, og alls konar viðbúnað við ráslínu og endamark. Ég hef horft á svona keppnir í sjónvarpinu en að upplifa þetta allt á eigin skinni var algjörlega magnað. Varðandi mig sjálfa þá fannst mér hreint út sagt geggjað að vera þarna og keppa meðal þeirra bestu við toppaðstæður og toppumgjörð. Ég var sæmilega sátt við minn árangur en þetta var fyrst og fremst hellings lærdómur, bæði fyrir mig og fyrir aðrar sem munu keppa á stórmótum í framtíðinni. Þess vegna langar mig að fara aftur á stórmót ef ég fæ tækifæri til, vitandi miklu betur hvað ég er að fara út í.“

Aðspurð hvort þetta sé mögulega hennar stærsti sigur í lífinu segir hún; „já ætli það ekki bara, að hafa tekið þátt á heimsmeistaramótinu í hjólreiðum, fertug þriggja barna móðir, búin að æfa hjólreiðar í 4 ár, og að vera langt frá því að vera lélegust,“ segir Ágústa, með bros á vör.

Lífið, starfið og frístundir.

Samhliða hjólasportinu hefur Ágústa ýmislegt á prjónunum þessa dagana en hún starfar sem stundakennari við Háskólann í Reykjavík og Háskóla Íslands þar sem hún kennir námskeið í íþróttafræði sem fjallar um félagslegt umhverfi afreksíþrótta. Tengt því vinnur hún að viðamikilli rannsókn á kynjajafnrétti í íþróttum á vegum háskólans í Reykjavík. Þar að auki kennir hún hjólatíma í Hreyfingu með Kareni Axelsdóttur, sem og opna styrktartíma við stöðina. Hún lætur hins vegar ekki þar við sitja heldur þjálfar hún handbolta hjá Val, bæði stelpur og stráka í 3. og 4. bekk en hún segist bera sterkar taugar til Hlíðarenda eftir farsælan feril þar. Þá miðlar hún þekkingu sinni af hjólreiðum markvisst í gegnum einkaþjálfun og hóf nýverið að bjóða upp á fjareinkaþjálfun:

„já, ég var að setja á laggirnar fjareinkaþjálfun í hjólreiðum í samstarfi við snillingana Rúnar Örn Ágústsson og Thomas Skov Jensen. Við köllum okkur LENGRA og bjóðum upp á einstaklingsmiðaða þjálfun þar sem einnig er hægt að bæta styrktaræfingum og næringarráðgjöf í prógrammið. Viðtökurnar hafa verið ótrúlega góðar og við erum mjög spennt fyrir framhaldinu,“ segir hún.

Aðspurð um hvað það er sem fólk sem er að byrja að hjóla eigi að gera segir hún mikilvægt að; „ráðfæra sig við einhvern sem hefur vit á þessu og fá helstu tips. Best er að fara á einhvers konar byrjenda- eða grunnnámskeið. Og síðan skrá sig í hjólreiðafélag og mæta á æfingar. Þannig lærir maður af öðrum, kemst í betra form með því að elta þá sem eru aðeins sterkari en maður sjálfur og svo kynnist maður fullt af nýju fólki með sama áhugamál.“

Eins og glöggir sjá skortir Ágústu sannarlega ekki verkefnin, sem tengjast öll íþróttum með einum eða öðrum hætti en hún segir þau öll bæði skemmtileg og gefandi. „Eini gallinn er sá að suma daga þarf ég að skipta um föt 5 sinnum yfir daginn,“ segir Ágústa hlægjandi.

Þegar kemur að frístundunum nefnir Ágústa að sjálfsögðu hjólreiðar en hún veit fátt betra en að fara í hjólaferð til útlanda í góðra vina hópi þar sem er sól, hiti, fallegt landslag og góður matur. Heilsa er henni sömuleiðis hugleikin og hefur áhugasvið hennar einna helst tengst heilsu og hreyfingu almennt, næringu, svefn, æfingum, föstum og slökun. „Ég gæti setið dögum saman í tölvunni að lesa greinar og horfa á myndbönd um þessa hluti.“ Ágústa hefur svo sett stefnuna á að byrja að gönguskíða og fjallaskíða næsta vetur. Þegar kemur hins vegar að rólegum stundum heima veit hún fátt betra en að taka gott spilakvöld með strákunum sínum, með gott snarl á kantinum og góða tónlist sem þau skiptast á að velja.

Áskoranir og andlegi þátturinn

Þrátt fyrir að hafa tekist á við ótal áskoranir í sportinu er það þó önnur og persónulegri áskorun sem Ágústa telur hafa verið einna erfiðast að yfirstíga í sínu lífi. Áskorun sem eflaust margir kannast við en það er hræðslan við að koma fram og tala fyrir framan hóp af fólki.

„Þegar ég var yngri roðnaði ég og blánaði og leið bara illa þegar ég átti að tala fyrir framan fólk. En svo þurfti ég að takast á við þessa hræðslu í gegnum þau störf sem ég fékk. Ég var yfirmaður sumarstarfs hjá ÍTR með starfsmannahóp sem ég fundaði reglulega með. Ég var yfirþjálfari hjá Val og þurfti að tala við foreldrahópa og þjálfarahópinn minn. Ég varð stundakennari hjá HR og síðar hjólaþjálfari með hópa af fullorðnu fólki að sinna. Þannig að smám saman vandist ég þessu og fór að finnast þetta ekkert mál,“ – segir Ágústa.

Nátengt þeirri áskorun segist Ágústa einnig hafa þurft að sigrast á áhyggjum sínum yfir því hvað öðrum þætti um hana persónulega. „Það er ennþá work in progress en ég pæli miklu minna í því en áður. Ætli það sé ekki að þakka góðum vinum í kringum mig sem spá ekkert í áliti annarra – ég hef fylgst með og lært af þeim,“ – segir hún.

Þegar kemur að andlega þættinum er ýmislegt sem Ágústa gerir til þess að halda huganum á góðum stað: „Þegar ég er ein úti að hjóla er það mín núvitund. Enginn sími, ekkert áreiti, bara ég með mínum hugsunum með vindinn í andlitið og stundum zone-a ég alveg út. Annars tek ég stundum slökun heima með tónlist í eyrunum ef mig langar að gefa mér meiri tíma í að huga að þessum þætti.

Hún telur heilsusamlegt líf einmitt snúast um þetta, þ.e. að næra sig andlega með hugleiðslu, slökun, góðri tónlist, göngutúrum í náttúrunni, samveru með góðum vinum eða öðru slíku. Þessi vinna í góðu jafnvægi við hreyfingu sem reynir á vöðva, hjarta og lungu, matarræði sem miðar að því að borða holla fæðu í 80% tilvika og það að fá nægan og góðan svefn flesta daga, er að hennar mati góð uppskrift að heilsusamlegu lífi. Auk þess hefur hún nýverið prófað sig áfram með föstur sem hún telur að geti gert fólki gott þegar kemur að heilsunni.

Að lokum gátum við þó ekki sleppt Ágústu frá okkur fyrr en hún gæfi upp titilinn á sjálfsævisögunni og henti í eins og eitt gott mottó. Svörin léttu ekki á sér standa:

Mottó

Eitt væmið: Do what you love – love what you do

og eitt minna væmið: If it was easy, everyone would do it.

Ævisagan

Ágústa! – Konan sem gat ekki fundið titil á ævisöguna sína

Við þökkum Ágústu fyrir einstaklega skemmtilegt viðtal og óskum henni góðs gengis í hennar spennandi verkefnum.

NÝLEGT