Search
Close this search box.
,,Heilbrigð að innan, hraust að utan“

,,Heilbrigð að innan, hraust að utan“

Alda María er að eigin sögn taktelskandi íþróttafræðingur sem er alltaf að dilla sér. Tveggja stráka mamma og kærasta Einars sem elskar að hreyfa sig og pæla í heilsu en samt hæfilega löt. Alda María er með Bsc í íþróttafræði frá HR og einkaþjálfaranám frá Keili. Hún kennir hóptíma í Hreyfingu og hefur verið með einkaþjálfun þar líka en er um þessar mundir að klára fæðingarorlof. Auk þessa kennir hún vatns- og stólaleikfimi fyrir eldri borgara.

Hefur dans alltaf verið stór hluti af þínu lífi?

Ég var aldrei staðföst í neinum íþróttum í æsku, prófaði hitt og þetta og byrjaði sem unglingur í ræktinni og hef verið þar síðan samhliða dansinum. Ég byrjaði í samkvæmisdönsum svona 5 eða 6 ára og æfði með pásum til 10 ára. Dans hefur verið mjög stór hluti af lífi mínu en sérstaklega síðan ég var 16 ára. Þá kynntist ég hip hop og fór að stunda danstíma aftur mjög reglulega með vinkonum mínum. Fór svo að læra fleiri dansstíla hjá dansskólanum og gjörsamlega elska þá alla. Ég hef svo verið að kenna Zumba síðan 2011 og fæ þar að deila dansgleðinni með skemmtilegu fólki. 

Hvað er það besta við dansinn að þínu mati?

Útrásin og gleðivíman! Þegar ég dansa þá næ ég einhverjum tengslum við sjálfa mig sem ég næ ekki að uppfylla öðruvísi. Stundum þarf að losa út pirring, stundum að losa um góða orku og stundum þarf bara aðeins að dilla sér og svo er þetta oft alveg frábær þolþjálfun. 

Hvað er það skemmtilegasta sem þú gerir fyrir utan það að dansa?

Mér finnst almennt mjög skemmtilegt að hreyfa mig en þar fyrir utan er alltaf mjög skemmtilegt að verja tíma með manninum mínum, hann gerir allt skemmtilegt. Auk þess stunda ég mjög fjölbreytta líkamsrækt. Elska að lyfta þungt, hlaupa, hoppa og flæða með eigin líkamsþyngd og létt lóð. Er svo aldrei betri en eftir góðar teygjur í heita salnum.

Besta leiðin til að koma sér í betra líkamlegt form?

Stunda hreyfingu sem þér finnst skemmtileg nokkrum sinnum í viku og ekki sitja of mikið er lykill að heilbrigðari líkama. En ég trúi að allir hafi gott af því að lyfta lóðum fyrir vöðva og bein, stunda æfingar sem reyna á styrk og hreyfifærni með eigin líkamsþynd og svo er mikilvægt að láta hjartað pumpa vel inn á milli hvort sem það sé með göngu, hlaupi eða þrekæfingum.

Hvað myndir þú geta ráðlagt þeim sem langar að læra að dansa, þarf að hafa félaga?

Það þarf alls ekki félaga til að dansa. Vissulega eru sum dansform þannig en það er alls ekki algilt. Það er heill heimur af dansstílum þarna úti og þarf þá bara að finna hvað maður fílar. Hip hop, afró, ballet, samkvæmisdansar, magadans, salsa og margt fleira. Flestir dansskólar bjóða upp á námskeið fyrir fullorðna og það er um að gera að nýta sér prufutíma. En svo er hægt að nýta sér tíma eins og Zumba í ræktinni. 


Hvaða mottó hefur þú þegar kemur að því að lifa heilbrigðum lífsstíl

Borða fæðu sem lætur mér líða vel, gefur mér góða orku og lætur líkamann vinna vel. Þjálfa líkamann fjölbreytt fyrir almennt hreysti. Sofa nóg. “Heilbrigð að innan, hraust að utan”

Hvað er framundan hjá þér?

Er að klára fæðingarorlof og bara hef verið að kenna hóptíma undanfarið. Framundan er svo að byrja aftur með einka- og hópeinkaþjálfun. Get ekki beðið eftir að hitta viðskiptavini mína aftur og kynnast nýju fólki.

Alda María er mikil fjölskyldukona

Eru aðrir fjölskyldumeðlimir í dansi?

Sonur minn er í acrobat sem er meira út í fimleika en þau blanda dansi saman við til að setja upp sýningar.

Hvað er það skemmtilegasta sem þú gerir með fjölskyldunni?

Ferðalög, sund, spil og almenn samvera. 

Dansinn veitir Öldu Maríu mikla gleði

Hvernig hugar þú að andlegu heilsunni?

Með reglulegri hreyfingu, nægum svefni og tíma með sjálfri mér.

Hvaða 5 hluti áttu alltaf í ísskápnum?

Möndlumjólk, egg, eplaedik, smjör og agúrku.

Áttu þér uppáhalds árstíð?

Sumar

Uppáhalds holli matur?

Kjúklingasalat

Uppáhalds ,,svindl“ matur?

Súper nachos

Podcast eða bók?

Podcast eins og er allavega

Te eða kaffi?

Te

Instagram eða Facebook?

Instagram

Alda María er vinsæll þjálfari

Hvar sérðu þig eftir 10 ár?

Ennþá að þjálfa fólk, með miklu meiri reynslu og vitneskju á bakinu. 

Eitthvað sem þú vilt deila með lesendum að lokum?

Aldrei gera ekki neitt, við getum alltaf gert eitthvað til að bæta heilsu okkar, sama í hvaða aðstæðum við erum. 

H Magasín þakkar Öldu Maríu kærlega fyrir spjallið og óskar hinni alls hins besta.

NÝLEGT