Search
Close this search box.
Heilsan á tímum kórónuveiru

Heilsan á tímum kórónuveiru

Kórónuveiran er komin á kreik aftur. Henni fylgja breytingar á okkar daglegu lífi sem geta reynst okkur erfiðar, enda er áskorun að takast á við heimsfaraldur. Sumir finna til kvíða og vanlíðunar vegna veirunnar, sem skiljanlegt er, og eru hræddir um sig og sína. En það er eitt og annað sem við getum sjálf gert til að hlúa að andlegri og líkamlegri heilsu – fyrir utan að gæta ávallt ýtrustu sóttvarna.

Hollt mataræði

Hafðu reglu á mataræðinu og veldu hollari kostinn. Það gefur þér meiri orku og vellíðan. Það getur verið freistandi að detta í óhollustuna en reyndu að halda henni í lágmarki. Borðaðu fjölbreyttan, hollan og næringarríkan mat. Ávextir, grænmeti, fiskur, heilkorn og vítamín ætti að vera hluti af fæðunni. Fáðu hugmyndir að mataræði frá morgni til kvölds hér.

Góður svefn

Hafðu reglu á svefninum. Farðu að sofa og vaknaðu á svipuðum tíma. Svefn er ein af undirstöðum vellíðunar. Svefninn er endurnærandi og veitir okkur hvíld, hann hefur jákvæð áhrif á ónæmiskerfið, og bætir almennt lífsgæði. Of lítill svefn ýtir undir kvíða, þreytu, streitu og vanlíðan. Hér getur þú lesið meira um mikilvægi svefns.

Hreyfing

Hreyfðu þig reglulega og settu þér markmið. Mundu að lítil hreyfing er betri en engin. Hreyfing eykur þrekið, styrkir vöðva og hefur góð áhrif á líkamlega og andlega líðan. Fullorðið fólk ætti að hreyfa sig í hálftíma á hverjum degi og börn í klukkutíma. Ef þú kemst ekki í ræktina getur þú gert æfingar heima hjá þér. Hér finnur þú innblástur að fjölbreyttum og skemmtilegum æfingum.

Samvera

Nýttu tímann í samveru með þínum nánustu. Hægt er að tvinna saman hreyfingu og samveru, t.d. með því að fara saman í gönguferðir, fjallgöngur eða hjólatúra. Þá má líka föndra saman, taka í spil, púsla eða bara spjalla.

Ný þekking

Lærðu eitthvað nýtt. Prófaðu t.d. nýja mataruppskrift, taktu námskeið á vefnum í einhverju sem þig hefur alltaf dreymt um að læra,

Rútína

Haltu rútínu í daglega lífinu. Á tímum kórónuveirunnar er mikil óvissa í gangi. Rútínan veitir flestum ákveðið öryggi og festu, sem gott er að hafa þegar annað er í óvissu.

Þakklæti

Iðkaðu þakklæti. Fyrir svefninn er gott að fara  yfir daginn í huganum og þakka fyrir hvað var gott við þennan dag. Það þarf ekki að vera neitt merkilegt. Stundum er nóg að þakka fyrir gott veður.

Varfærni

Sýndu góða dómgreind og vertu varkár. Þvoðu hendur, sprittaðu og virtu tveggja metra regluna.

NÝLEGT