Search
Close this search box.
Heima er best

Heima er best

 

Þegar maður er ekki heima hjá sér þá getur verið auðvelt að detta í óhollustu og þá sérstaklega ef maður er undir miklu álagi og ég viðurkenni að það kom stundum fyrir mig á meðan ég var úti. Ég átti auðvelt með að borða hollan morgunmat og hádegismat en þegar líða fór á daginn fór líkaminn að kalla á sykur eða skyndibita. Eftir langa og stundum erfiða daga þá var oft auðvelt að velja einfaldan kost fyrir kvöldmat sem oft varð raunin. Ég var samt sem áður mjög meðvituð um að ég væri kannski ekki alveg að velja það besta fyrir mig en var staðráðin í að koma mér fljótlega á rétta braut hvað varðar mataræði þegar ég kæmi heim því að þannig líður mér best. Nú er ég komin heim og er strax byrjuð að elda mér góðar og næringaríkar máltíðir og er hægt og rólega að koma mér aftur í góða rútínu bæði í mataræði og hreyfingu. Það var einn réttur sem ég var búin að ákveða að elda um leið og ég kæmi heim til Íslands. Þetta er minn uppáhalds heimilismatur og ætla ég að deila með ykkur uppskrift af honum. Heima hjá mér er þessi réttur kallaður Vegan Moussaka og ég er að segja ykkur það ég gæti borðað þetta í öll mál. Þetta er líka hinn fullkomni réttur til að henda í box eftir matinn og taka með í nesti daginn eftir. Ég ætla einnig að deila með ykkur uppskrift af minni allra uppáhalds súkkulaðiköku sem er vegan, sykur- og glútenlaus.

Vegan Moussaka 

1. Steikt grænmeti

1 laukur
Lítil sæt kartafla
¼ grasker
Hálfur kúrbítur(zucchini)
4 gulrætur
2 hvítlauksrif
5 sveppir
Ein rauð paprika
1 dós tómatar
Ein lítil dós af tómat púrru
1 tsk sambal olek(chillimauk)
1 tsk cumin
1 tsk paprika
1 tsk arabískar nætur
Salt & pipar

Aðferð:

Steikið laukinn, paprikuna og hvítlaukinn uppúr smá vatni. Restinni af hráefninu er síðan blandað saman við og steikt í c.a. 5 mínútur. Tómötunum er síðan bætt útí ásamt tómat púrré og soðið í c.a. 20 mínútur.

2. Rautt pestó

1 dós sólþurkaðir tómatar
3 mjúkar döðlur
Eitt hvítlauksrif
Svartar ólífur eftir smekk
½ dl ólífuolía
2 msk Vegan parmesanostur(uppskrift hér fyrir neðan)
Salt & pipar

Öllum hráefnum blandað saman í matvinnsluvél.

Vegan Parmesanostur

Einn poki brasilíuhnetur
1-2 hvítlauksrif
2 msk næringager
Salt
(Allt sett í matvinnsluvél þar til útkoman verður eins og rifinn parmesanostur)

3. Grænt pestó

1 pakki basilíka
1-2 hvítlauksrif
100 gr ristaðar furuhnetur
½ dl ólífuolía
2 msk Vegan parmesan ostur
Salt & pipar

4. Bakað eggaldin

Eitt eggaldin skorið í sneiðar langsum og sett á álpappírs klædda bökunarplötu og kryddað með salti, pipar og smá cumin. Bakað í ofni í ca. 20-25 mínútur. Látið standa í 15 mínútur á plötu eftir að úr ofninum er komið.

Aðferð:

Helmingurinn af grænmetisblöndunni fer í botninn á eldföstu móti. Leggið eggaldinið ofan á grænmetisblönduna og smyrjið rauðu pestói ofan á. Restinni af grænmetisblöndunni er þá dreift yfir rauða pestóið áður en annað lag af eggaldini er dreift yfir. Smyrjið grænu pestói yfir eggaldinið. Drefið vegan parmesan(uppskrift fyrir ofan) ásamt furhnetum yfir.

Bakið við 180 gráður í 20-25mín. 

Með réttinum bar ég fram kryddað bygg með grænum baunum ásamt fersku salsa.

Sykur- og glútenlaus súkkulaði kaka

Nú hugsa eflaust margir:  ,,sykur- og glútenlaus kaka, það getur bara ekki verið gott“ en ég verð þá að fá að svara því með því að segja að þetta er mín allra uppáhalds kaka í þessum heimi og við gerum hana mjög oft heima einfaldlega vegna þess að hún klikkar aldrei og á fólk oft mjög bágt með að trúa því hvað hún er í raun holl þegar það smakkar hana í fyrsta sinn.

Botn

1 dl kókósolía
15 ferskar döðlur steinhreinsaðar
3 dl stappaðir bananar(hægt að nota sykurlaust eplamauk)
3 msk chia fræ
9 msk vatn
2 tsk vanilludropar
1 ½ dl sterkt kaffi
1 ½ dl kókoshveiti
1 ½ ósætt kakó
1 tsk matarsódi
½ tsk salt

Aðferð

Hitið ofninn á 175°. Blandið saman chia fræjunum og vatninu og látið standa í 15 mín. Setjið kókosolíu í heitt vatn svo hún fljóti. Setjið döðlur og banana í matvinnsluvél og maukið vel. Blandið chia fræjunum, vanilludropum, kaffi og kókosolía saman við döðlu- og bananamaukið. Bætið þurrefnunum saman við og hrærið saman. Smyrjið 22cm form og bakið í 30 mínútur.

Krem

1 bolli steinlausar ferskar döðlur
¼ bolli kakó
¼ bolli fljótandi kókosolía
¾ bolli vatn
1 tsk vanilludropar
Ögn af salti

Allt sett í blandara og maukið vel saman.

Hindberjasósa

150gr hindber
5 dropar af hindberjastevíu(Good Good brand)
1 tsk döðlusýróp
Safi úr hálfri sítrónu

Njótið vel!

instagram: sigrunbirta

Sigrún Birta

NÝLEGT