Forsíðan er einstaklega glæsileg og töff en hana prýðir myndhöggvarinn Sólveig Baldursdóttir. Blaðið er stútfullt af vönduðu efni eins og vanalega og síðan er nú ekki verra að kíkja í jólagjafahandbókina til að fá góðar hugmyndir fyrir komandi hátíð.
Það var virkilega skemmtilegt að skrifa þennan pistil en gott hugarfar og sjálfstraust er mér hjartans mál. Sjálfstraust getur verið ólíkt eftir aðstæðum og það sem ég vil gera t.d. með því að vera þjálfari er að hjálpa fólki að öðlast sjálfstraust í æfingum. Það geri ég með því að leggja áherslu á góða tækni og lærdóm en ég vil að kúnnarnir mínir læri eitthvað nýtt nánast á hverri einustu æfingu. Með því öðlast þeir (vonandi) meira líkamlegt og andlegt sjálfstraust sem þeir geta tekið með sér út í daginn.
Það er líka skemmtilegt að segja frá því að ég byrjaði í markþjálfunarnámi núna í október en það finnst mér magnað. Ég verð að segja ykkur betur frá því við tækifæri og öðrum stórum hlutum í mínu lífi en frá og með áramótum mun ég snúa mér 100% að þjálfun í WC. Hér er þó smá fróðleikur um markþjálfun sem tekinn er af vefsíðunni markthjalfun.is:
,,Markþjálfun getur hjálpað þér til að ná betri árangri í lífi og starfi, getur bætt samskiptin hvort sem er í vinnu eða einkalífi og aðstoðað þig við að ná markmiðum þínum og aukinni lífshamingju. Marksækjandinn þarf að hafa opinn huga og vera tilbúinn að horfast í augu við sínar áskoranir. Markþjálfinn tekur þig inn á þessar brautir með þeim aðferðum sem finna má í verkfærakistu markþjálfans.“
Takk kærlega fyrir lesturinn.
Þér er velkomið að fylgja mér á Instagram: @indianajohanns