Helena Sverris: Atvinnumannalífið

Helena Sverris: Atvinnumannalífið

Ég skrifaði undir samning við Evrópudeildarlið Good Angels í Slóvakíu

Við leikmennirnir lifðum í hálfgerðri bubblu, vorum nánast með dagskrá frá morgni til kvölds og ef okkur vantaði eitthvað þá fengum við það upp í hendurnar. Við höfðum allt til þess að lifa sem þæginlegasta lífinu og gátum náð árangri inn á vellinum og inn í kennslustofunni. Eftir að skólagöngu lauk tók ég stefnuna á atvinnumennskuna, eitthvað sem manni hafði dreymt um í mörg ár. Ég skrifaði undir samning við Evrópudeildarlið Good Angels í Slóvakíu. Að fara útúr bubblunni í Texas í að lifa ein í íbúð í næst stærstu borg Slóvakíu var ansi stórt stökk.

Maður áttaði sig fljótt á því að stundum þarf maður að kunna að taka sér pásur og hvíla sig

Ég man alltaf að eftir fyrstu hlutunum sem ég tók eftir sem sýndi mér t.d hversu mikill efnahags munur var á þessum tveimur stöðum. Ruslatunnurnar við blokkina voru girtar af en samt sem áður voru alltaf sígauna börn að grafa í ruslinu, rétt fyrir utan borgina voru kofa byggðir sem voru heimili fólks sem átti lítið. Þó ég vissi það ekki á þeim tíma þá átti ég eftir að eyða þremur árum á þessum slóðum, og ég átti eftir að kynnast fullt af fólki sem hafði áhrif á líf mitt, hvort sem það voru liðsfélagar, starfsfólk klúbbsins, nágrannar eða Ameríkanarnir sem voru við stjórnstöður í stálverksmiðju bæjarins. Þetta ár þroskaðist ég gríðarlega mikið, ég var ekki lengur í bubblunni heldur tók við atvinnumannalíf þar sem allt var undir mér komið. Það voru vanalega tvær æfingar alla daga en þá daga sem ekki var æft, eða bara ein æfing þá þurfti maður að læra að nota tímann rétt. Líkaminn verður ákveðin vél til þess að standa sig í starfinu þurfti maður að sjá til þess að vélin væri rétt smurð og alltaf tilbúin í gang. Maður áttaði sig fljótt á því að stundum þarf maður að kunna að taka sér pásur og hvíla sig (eitthvað sem ég átti erfitt með að skilja enda verið á fullu síðan ég var krakki).

Stundum þarf maður að bíta á jaxlinn og ýta sér áfram, hvort sem það var á auka æfingu eða í gegnum smávægileg meiðsli. Í þannig séð fyrsta skipti á mínum ferli kynntist ég mótlæti, ég var að spila með- og á móti bestu stelpum í Evrópu og að vinna sér inn spilatíma varð oft blóðug barátta. Fyrsta árið skipti þjálfarinn leiktímanum þannig séð jafnt á milli mín og bæjar hetjunnar sem var erfitt að keppast við, þar sem árangur breytti litlu með það. En ég lærði fljótt að maður stjórnar kannski ekki öllu sjálfur og getur ekki haft áhrif á allt, en ef illa gengur þá er bara ein leið áfram og það er með jákvæðni og trú. Ef maður virkilega trúir því að maður geti eitthvað og er tilbúin að fórna sér fyrir það þá er allt hægt.

Einnig fannst mér mikilvægt að vera jákvæð í gegnum erfiðu tímana og halda alltaf áfram. Það komu alveg tímapunktar þar sem ég hringdi í foreldra mína ekki sátt og vildi kenna þjálfaranum um, en þau stöppuðu í mér stálið og upp með hausinn. Ég var oftast ekki lengi að ná mér uppúr því. Virðing og samkennd var eitthvað sem þessi staður í heiminum kenndi mér einnig. Ég ferðaðist um alla Evrópu og spilaði á mjög fróðlegum og skemmtilegum stöðum. Sumt af því fólki sem maður kynntist gat sagt manni frá hinum merkilegustu hlutum og mér fannst alltaf gaman að heyra sögurnar þeirra og sjá hversu æðislegt við höfum það hérna á Íslandi. En eftir fjögur ár í háskóla og fjögur ár í atvinnumennskunni leitaði hugurinn og hjartað heim og ég kom heim og mér líður svo vel á Íslandi, með manninn minn og barn. Ég fæ ennþá að vinna við að spila og þjálfa körfubolta.

Höfundur: Helena Sverrisdóttir

NÝLEGT