Við vorum ótrúlega ánægðar með hótelið en við gistum á Millenium Hilton Downtown sem er í um 15 metra göngufjarlægð frá Westfield World Trade Center sem er nýleg verslunarmiðstöð (síðan 2016) þar sem úrval verslana og veitingastaða er mjög gott. Hótelið er staðsett í u.þ.b. 20 mínútna göngufjarlægð frá Soho hverfinu sem er að mínu mati lang skemmtilegasta hverfið á allri Manhattan eyjunni. Í hverfinu er ógrynni af flottum búðum og mjög góðum veitingastöðum. Ég var búin að skoða vel hvar við gætum borðað og verð að segja ykkur frá alveg frábærum stað sem heitir The Butcher’s Daughter en við borðuðum tvisvar á staðnum í ferðinni.
Við vorum ekki búnar að plana mikið fyrirfram en ég var þó búin að punkta niður hjá mér hvaða staði mig langaði að prófa að borða á ásamt því hvaða búðir við ætluðum að heimsækja. Þar fyrir utan vorum við mikið á röltinu og nutum þess í botn að upplifa hinn sanna jólaanda sem borgin býður uppá. Jólatréð hjá Rockefeller Center var þó einn af fáum hlutum sem við vorum búnar að ákveða að við yrðum að sjá.
Mig langar að nefna annan veitingastað, By Chloe sem er 100% vegan veitingastaður sem mig hefur lengi langað að prófa en hann er einnig staðsettur í Soho hverfinu og þar settumst við niður eitt hádegið og nutum. Maturinn var mjög góður og staðurinn greinilega vinsæll en þar var þétt setið allan tímann sem við vorum þar.
Á sunnudeginum var mjög fallegt veður og notuðum við þann morgun áður en við fórum út á flugvöll til að skoða nærumhverfi okkar. Ykkur að segja var þetta yndisleg ferð með mömmu minni sem við eigum vonandi eftir að upplifa aftur þó síðar verði.
Takk fyrir að lesa og þangað til næst, hafið það gott!