Henta föstur öllum?

Henta föstur öllum?

Höfundur: Ragga Nagli

Föstur eru ekki allra. Ekki frekar en pastellitir og dauðarokk.

Sumum líður illa án matar í fleiri klukkutíma. Fá svima. Hausverk. Yfirliðstilfinningu.

Rannsóknir sýna til dæmis að konur, sérstaklega smágerðar konur eiga erfitt með að fasta mikið lengur en 12 tíma því þær hafa ekki lagerbirgðir til að sækja orku. Karlmenn, sérstaklega stórgerðir karlmenn, eru með stærri vöðva sem hýsa meiri glýkógenbirgðir og sérstaklega stórgerðir karlmenn hafa oft meiri fituforða til að gramsa upppúr í föstuástandi.

Karlar segjast oft vera flugbeittir eins og svissneskur vasahnífur í föstuástandi, pollrólegir með fljúgandi fókus og skýra hugsun. Það er sefkerfið þeirra sem er að störfum í föstunni.

Konur hinsvegar segja frá heilaþoku, kvíða, hærri hjartslætti og meiri depurð í svengdarástandi. Það er streitukerfið að kikka inn hjá konum í föstunni.

Sem afleiðing af þessu streituviðbragði eykst oft fita í kringum líffærin og veldur aukinni kviðfitu hjá konum sem fasta of lengi. Sem þýðir að þú ert að skjóta þig í fótinn ef föstur er nýttar í þeim tilgangi að plokka einmitt lýsi af maganum. Sjálfsát frumna og betri blóðsykurstjórnun sem eru oft auglýsingaherferð föstugúrúanna, eru mun hærri hjá körlum. Í raun sýna rannsóknir að langar föstur hjá konum hafa ekki áhrif á blóðsykurstjórnun og sjálfsátið fer bara í gang við 10-12 tíma föstur hjá kvensunum.

Ef þú ert að tæta upp stál og rífa í galvaníseraða stöng í bullandi járnrífingum, geta langar föstur oft í viku haft skaðleg áhrif á hormónabúskap, grunnbrennslu, síþreytu og orkustig líkamans. Þungar lyftingar, sprettir og CrossFit eru kolvetnafrekar æfingar og ef þú ert að stunda föstur en upplifir orkuleysi eins og gamall klósettbursti á æfingum getur verið ráðlegt að kúpla inn morgunmat.

Ef saga er um átröskun, eða óheilbrigt samband við mat, geta föstur aukið á svarthvítar hugsanir um reglur í kringum máltíðir og ákveðin matvæli. Að sama skapi getur saklaust daður við að hafa tóman maga skyndilega breyst í sveltikúr áður en þú færð rönd við reist.

Hungurtilfinning getur orðið að normi sem sóst er eftir og átröskun lúrir handan við hornið. Byrjaðu frekar á að leita þér faglegrar aðstoðar og koma góðri næringu upp í rútínu. Föstur eru streitumerki til líkamans. Þess vegna þarftu að finna mataræði sem þú sérð fyrir þér að geta viðhaldið í langan tíma. Í hvaða kringumstæðum sem er. Sama hvaða hindrunum lífið hendir í þig.

Þegar þú velur mataræði hafðu í huga skrokklega hollningu, kyn, bragðlauka, matarsmekk, vinnutíma, lífsstíl og fjölskylduaðstæður. Ef mataræðið passar inn í lífið og þú hlakkar til máltíðanna þá muntu halda þig við það mataræði til langtíma. Ef mataræðið fer vel í skrokkinn og gefur þér aukna orku þá muntu halda þig við það. Ef þú heldur þig við mataræðið dag eftir dag muntu sjá árangur. Sama hvaða nafni það nefnist. Tileinkaðu þér mataræði sem eflir skrokkinn þinn, bætir þína heilsu, færir þig nær þínum markmiðum og friðar hausinn þinn.

Mataræðið þitt þarf ekki að koma upp í leitarstreng á Google, eða innbundið í skræðu úr Mál og menningu.

Mataræðið þitt þarf bara að passa þér.

Naglinn!

46461 Comment2 SharesLikeCommentShare

NÝLEGT