Hlaup eru hressandi og andlega nærandi

Hlaup eru hressandi og andlega nærandi

Sigþóra Brynja Kristjánsdóttir er ein öflugasta hlaupakona landsins. Hún mælir með að taka fyrstu skrefin með hlaupahópi, það sé bæði hvetjandi og skemmtilegt.

„Ég er úr Mývatnssveitinni og var í frjálsum íþróttum, fótbolta og á skíðum og um tíma í Cross-fit. Eftir að ég eignaðist eldri son minn datt ég út úr íþróttum en langaði að koma mér í form. Eftir að ég fór á hlaupanámskeið árið 2015 hjá UFA Eyrarskokk á Akureyri, þar sem ég er búsett, fann ég mig gjörsamlega. Hlaup henta vel fólki með börn, æfingin byrjar um leið og stigið er út um útidyrnar og ekki þarf að eltast við opnunartíma í líkamsræktarstöð,“ segir Sigþóra, sem á nú tvo syni.

Frá 2018 hefur hún æft hlaup markvisst og náð frábærum árangri í keppnishlaupum. „Ég fór að fylgja æfingaplani og hljóp fimm sinnum í viku. Núna æfi ég undir leiðsögn Arnars Péturssonar og æfi sex sinnum í viku. Æfingarnar eru mislangar. Yfirleitt tek ég tvær hraðaæfingar í viku og hleyp þá um 15-17 km. Svo tek ég eina allt upp í tveggja tíma æfingu og svo rólegar æfingar inn á milli,“ upplýsir Sigþóra, en hún er að ljúka mastersnámi í auðlindafræði og byrjar að vinna hjá sprotafyrirtækinu MýSilica í sumar.

Frá því að Sigþóra hóf að æfa hlaup finnur hún mikinn mun á sér hvað varðar þol og styrk. „Ég er miklu sprækari og hressari og hlaupin eru andlega nærandi. Mér finnst dagleg störf verða léttari.“

-Breyttir þú mataræðinu þegar þú byrjaðir að æfa hlaup?

„Já, algjörlega. Ég hef stúderað mataræðið vel og stóra breytingin hjá mér er að borða meira af hollum kolvetnum. Ég mæli með því fyrir alla hlaupara. Margir flaska á þessu og borða of lítið af kolvetnum. Ég borða jafnt yfir daginn og er miklu orkumeiri og fljótari að ná endurheimt eftir æfingar. Hægt er að auka kolvetni í öllum máltíðum, t.d. bæta banana út á hafragrautinn, fá sér stærri skammt af hrísgrjónum eða aðeins fleiri kartöflur. Þetta skilar sér margfalt til baka í æfingum. Áður upplifði ég oft þreytu seinnipartinn en eftir að ég breytti mataræðinu finn ég ekki fyrir því. Í þolíþróttum hjálpar almennt að borða meira af kolvetnum,“ segir Sigþóra.

-Hvernig hleður þú batteríin fyrir hlaup?

„Almennt séð er ég með marga bolta á lofti, börnin, námið, vinnan og hlaupin. Mér finnst gott að borða nóg til að fá orku og svefninn er númer 1, 2 og 3! Ég leyfi mér líka að slaka á og fer í sund, í heita pottinn og gufuna. Svo hugleiði ég nokkrum sinnum í viku. Það er gott að tæma hugann.“

-Hvernig er best að byrja að æfa hlaup?

„Ég get ekki mælt nógu mikið með því að fara í hlaupahóp. Mér finnst það hjálpa mest. Ef ég hefði ekki farið í hlaupahóp væri ég sennilega ekki enn að hlaupa. Þar fær maður æfingar og kynnist nýju og skemmtilegu fólki sem hvetur mann áfram. Ég heyri oft að fólk heldur að það sé ekki í nógu góðu formi til að vera í hlaupahópi en það ætti ekki að vera nein fyrirstaða, það eru hlauparar á öllum getustigum í hlaupahópunum. Ég mæli með að mæta og ef þú reynist vera hægasti hlauparinn, þá tekurðu æfinguna bara á þínum hraða og það tekur einungis nokkrar æfingar að komast í betra form. Ef þú hefur ekkert hreyft þig lengi er gott að taka göngutúra og ganga í 1 mínútu og hlaupa í 1 mínútu til skiptis, auka svo við hlaupin og hlaupa í 2 mínútur og ganga í 1 mínútu, og svo koll af kolli þar til þú getur hlaupið nokkra kílómetra. Best er að byrja rólega til að sprengja sig ekki og hlaupa 2-3 sinnum í viku og taka styrktaræfingar inn á milli. Þannig aðlagast líkaminn hlaupunum. Slatti af þolinmæði er nauðsynleg og ekki ætla sér of mikið strax.“

Árið 2020 náði Sigþóra Brynja frábærum árangri eins og hér sést:

  • Hálfmaraþon á 1:22:40 – annar besti tími kvenna ársins.
  • 10 km hlaup á 37:37 – þriðji besti tími kvenna ársins.
  • Íslandsmeistari í 3000 m á 10:30 á MÍ utnahúss í frjálsum og náði þar einnig 3. sætinu í 1500 m
  • Sló brautarmet í  Hvítasunnuhlaupi Hauka í 17 km vegalengdinni.
  • Svo stefndi allt að því að hún myndi ná að fara leikandi undir 3 klst. í Reykjavíkurmaraþoninu sem ekki margar konur hafa gert hér á landi. En þar sem því var aflýst náði hún ekki að láta reyna á það. En tíminn sem hún hljóp maraþon á fyrir tveimur árum er 3:06:30.

NÝLEGT