Arnar Pétursson er einn fremsti maraþonhlaupari landsins. Hann er bjartsýnn og vongóður um að fram undan sé gott hlaupasumar.
Arnar segir að síðasta ár hafi verið bæði áskorun og fín andleg æfing, en hann þurfti að umturna öllum sínum æfingaplönum vegna heimsfaraldursins. „Ég ákvað að tækla þetta tímabil með því að hugsa eins og við værum komin 100 ár aftur í tímann. Árið 1920 voru ekki til hlaupabretti og aðstaða til æfinga innanhúss var ekki góð. En það var samt sem áður hægt að þjálfa sig og hlaupa. Ég klæddi mig eftir veðri og náði góðum hlaupaæfingum utandyra, sem gekk ágætlega. Ég vona samt að ég þurfi ekki að upplifa annan svona vetur,“ segir Arnar léttur í bragði, þegar hann er spurður út í síðasta æfingatímabil.
„Ég æfi daglega, eða 7-13 sinnum í viku og tek mér frídag á tveggja vikna fresti. Æfingarnar eru mismunandi eftir dögum en ég hleyp um 110-160 km að jafnaði í hverri viku. Ég tek oft morgunæfingar þar sem ég hleyp 7 km mjög hægt og geri svo styrktaræfingar í 30 mínútur. Það er líka æfing að nota nuddrúllu til að mýkja upp vöðva, eða fara í sauna og æfa hjartað,“ segir Arnar og bætir við að þolinmæði sé einn mesti styrkleiki sem þolíþróttafólk þurfi að búa yfir. „Það tekur tíma að byggja upp þol og styrk og hafa úthald í löng hlaup.“
Hann er meðvitaður um að bæta sífellt við sig þekkingu varðandi hlaup til að ná betri árangri. „Ég veit að ég veit ekki allt, og er því opinn fyrir nýrri þekkingu. Ég vil þekkja vísindin á bak við hlaupin og les því bækur, hlusta á podkast og horfi á þætti sem fjalla um hlaup, hreyfiflæði, næringarfræði og uppbyggingu líkamans til að fræðast meira.“
Þegar Arnar er á æfingu hlustar hann stundum á podkast eða lög af playlista sem hann hefur sett saman fyrir hlaupin. „Á playlistanum eru bara lög sem ég er til í að hlusta á 150 sinnum án þess að fá leiða á þeim. Ég er svo heppinn að eiga marga vini, bæði í íþrótta- og listgeiranum og Doctor Victor er þeirra á meðal. Mörg af hans lögum eru á playlistanum mínum. Í erfiðum æfingum finnst mér fínt að hlusta bara á andardráttinn og einbeita mér að líkamanum því það er mikilvægt að tapa ekki líkamsmeðvitundinni.“
Stöðugleiki í æfingum mikilvægur
Hlaupin eru í fyrsta sæti hjá Arnari, sem er með BA-gráðu í hagfræði, M.Acc.-gráðu í endurskoðun og reikningshaldi, M.sc.-gráðu í fjármálum fyrirtækja og Masters-gráðu í kennsluréttindum fyrir framhaldsskóla. „Nám og hlaup fara mjög vel saman. Þessa dagana held ég reglulega fyrirlestra um hlaup og sinni hlaupaþjálfun. Það gerðist eiginlega óvart en á mjög vel við mig. Þetta byrjaði þannig að fólk setti sig í samband við mig til að fá ráðleggingar og smám saman vatt þetta upp á sig, eins og snjóbolti. Þótt ég sé ekki að vinna beint við það sem ég lærði nýtist menntunin mér mjög vel í því sem ég er að gera. Mér finnst líka mjög gaman að miðla og leiðbeina fólki til að ná árangri.“
Þegar Arnar er spurður hvað sé gott að hafa í huga til að ná árangri segir hann mikilvægt að gera hlutina rétt frá upphafi. „Ég mæli með að hafa stöðugleika í æfingum. Það er ekki nóg að æfa einu sinni í viku, heldur 3-4 sinnum til að það hafi eitthvað að segja. Þá sérðu framfarir og það er bæði skemmtilegt og hvetjandi. Það er mikilvægt að byggja æfingatímabilið rétt upp, hafa fjölbreytni í æfingum, finna út réttu vegalengdina sem hentar þér og fá rétta hvíld. Með þessu gerast ótrúlegir hlutir og þú upplifir þetta eins og að það ætti að vera erfiðara, því þetta er léttara en flestir halda,“ segir hann og nefnir að hlaup séu fyrir alla, sama á hvaða aldri fólk sé. „Hlaup eru góð til að auka þol, þjálfa vöðva og ekki síst til að styrkja hjarta- og æðakerfið,“ bendir Arnar á.


En hvaða ráð áttu fyrir þá sem vilja byrja að hlaupa en koma sér ekki af stað?
„Byrjaðu nógu hægt og hægðu svo á þér um 50%, þá ertu mögulega að fara nógu hægt. Reyndu að halda þeim hæga hraða í 20-30 mínútur. Ef þú hefur ekki hreyft þig lengi eiga fyrstu æfingarnar að vera labb. Vertu með prógramm eða áætlun til að fara eftir, það reynist alltaf betur. Þetta er eins og að klífa fjall, það er þægilegra með leiðarvísi sem segja hvar bestu leiðirnar á fjallið eru.“
Arnar sér fram á skemmtilegt hlaupasumar á Íslandi en ætlar að bíða með öll hlaup í útlöndum þar til í haust. „Ég tók þátt í vormaraþoni Félags maraþonhlaupara fyrir stuttu og sló brautarmetið í hálfu maraþoni, sem var mjög gaman. Ég er búinn að skrá mig til leiks í Dyrfjallahlaupið á Borgarfirði eystri í sumar. Afi og amma eru þaðan og ég hlakka til að fara á þeirra slóðir,“ segir Arnar að lokum.
Á vefsíðunni www.arnarpeturs.com má lesa meira um hlaup.
Stefnir þú á hlaup í sumar?
Við mælum með einstaklega góðu og fjölbreyttu úrvali af hlaupaskóm, fatnaði og aukahlutum sem finna má í H Verslun. Nánar tiltekið hér að neðan:
Hlaupafatnaður kvenna – skoða úrval
Hlaupaskór kvenna – skoða úrval
Hlaupafatnaður karla – skoða úrval
Hlaupaskór karla – skoða úrval
Aukahlutir, svo sem brúsar, hlaupavesti, töskur, Bose heyrartól, Garmin snjallúr, sokkar, teip o.fl – skoða úrval