Search
Close this search box.
Hollráð á faraldstímum

Hollráð á faraldstímum

Höfundur: Sara Barðdal

Það eru fordæmalausir tímar í gangi sem við sjáum ekki ennþá fyrir endann á . Óvissan, samkomutakmarkanir, hugsanlegar fjárhagsáhyggjur og einangrunin getur virkilega tekið á andlega líðan. Vanlíðan og kvíði gætu verið tíðir gestir hjá mörgum, hvað þá núna þegar skammdegið og myrkrið eykst með hverjum deginum.

Ég tók saman ráð sem ég hef sjálf nýtt mér óspart og vona að það geti stutt við þig á komandi tímum.

  1. Fókusaðu á það sem þú hefur stjórn á og slepptu tökum á öllu öðru.

Þetta er eitthvað sem hefur hjálpað alveg gríðarlega síðustu vikur og mánuði, því við getum haft allar áhyggjur heimsins á herðum okkar. En er það að gera einhverjum greiða? Er það að hjálpa þér eða öðrum? Líklega ekki…

Það eina sem gagnast okkur er að einblína á það sem við getum haft áhrif á. Því annars erum við að gefa allan kraft frá okkur og setja okkur í fórnarlambshlutverkið og það verða engar breytingar þar. Horfðu frekar á hlutina sem þú getur breytt og ákveddu að þú ætlir að setja tímann þinn í hluti sem þú hefur stjórn á. Við munum ekki hafa áhrif á þróun Covid-19, hvað gerist á vinnustaðnum eftir 1 viku, hvað gæti gerst eftir 1 mánuð með því að hafa áhyggjur yfir því. En þú getur hins vegar haft áhrif á heilsuna þína og ónæmiskerfi, hugsanirnar þínar, venjur og þína upplifun.

2. Spurði þig uppbyggilegri spurninga

Spurningar eins og: ,,af hverju er þetta að gerast fyrir mig?” ,,af hverju lendi ég alltaf í þessu?” eru ekki til þess gerðar að koma með uppbyggjandi svör, og maður festist frekar í fórnarlambshlutverkinu. Spurði þig frekar betri spurninga sem koma með svör sem gefa þér kraft og styrk. Sem hjálpa þér að vaxa og láta þér jafnvel líða betur. Spurningar eins og:

-Hvaða eiginleiki þarf að koma fram núna sem mun hjálpa mér í gegnum þetta tímabil?

-Hvað þarf ég að gera til þess að líða betur í dag?

-Hvaða jákvæðu tilfinningu ætla ég að kalla fram í dag?

-Fyrir hvað er ég þakklát/ur fyrir núna?

-Hverju þarf ég að sleppa til þess að líða betur?

Síðan getur þú einnig spurt leiðandi spurninga og “gabbað” hugann þinn til þess að horfa í betri átt og finna jákvæð svör. Leiðandi spurningar geta verið sem dæmi:

-Af hverju er ég alltaf svona jákvæð/ur og full/ur af orku?

-Af hverju upplifi ég alltaf svona mikinn innri frið og öryggi?

-Af hverju upplifi ég svona mikla gleði og kærleika á hverjum degi?

-Af hverju gengur allt svona vel hjá mér og ég næ öllum mínum markmiðum?

Búðu til þínar eigin spurningar sem hjálpa þér og segðu þær upphátt á hverjum morgni, taktu eftir breytingunni sem þetta skapar innra með þér.

3. Treystu því að allt muni fara vel á endanum, sjáðu það fyrir þér og upplifðu það

Lokaðu augunum og ímyndaðu þér að allt sé fullkomlega í lagi, sjáðu fyrir þér aðstæður þar sem lífið þitt og umhverfi er að ganga 100% eftir áætlun og þér hefur aldrei liði betur. Hvernig tilfinning kemur upp?

Haltu í þessa tilfinningu og treystu því að þú munir komast þangað, því þú getur það.

Leyndarmálið hér er að þú þarft ekki að bíða eftir að lífið þitt verði “fullkomið” til þess að upplifa þessa sátt og hamingju. Þú getur upplifað þessar tilfinningar strax í dag, þó svo að allt sé ekki fullkomið, þó svo að þú sért að ganga í gegnum erfiðleika og hindranir.

Það að vera alltaf að fresta hamingjunni þangað til eitthvað X gerist er ein mesta blekking sem er við líði í dag. Við höldum að þegar eitthvað ákveðið gerist, við missum x mörg kg, við klárum skólann, flytjum í húsið, eignumst börnin, giftumst, covid klárast eða hvað sem það gæti verið, þá getum við loksins orðið hamingjusöm og sátt með lífið okkar. En málið er að það gerist yfirleitt ekki, það kemur alltaf bara eitthvað nýtt til að eltast við.

Við þurfum því að læra að kalla fram þessar tilfinningar strax í dag og finna sáttina í ófullkomleikanum og í ferðalaginu sjálfu. Við erum alltaf að þróast og breytast, og munum aldrei komast á neina endastöð þar sem við erum orðin “fullkomin” (hver sagði að það ætti að vera markmiðið?)

Þannig fögnum við lífinu eins og það er akkúrat í dag. Ekki fresta hamingjunni lengur, núna sem aldrei fyrr er frábær tími til að hægja á sér, líta innávið og rækta innri frið, traust og hamingju.

Þegar við finnum þessa innri sátt hjá okkur og treystum lífinu og ferðalaginu þá verður auðveldara að upplifa þetta öryggi, þrátt fyrir erfiðleika og áskoranir í umhverfinu okkar.

Endurtaktu möntrurnar:

-Það mun alltaf allt fara vel

-Lífið er einmitt eins og það á að vera

-Það leynast alltaf möguleikar í öllum aðstæðum

Eða búðu til þína eigin sem hentar þér.

Stöndum saman og hugum að eigin heilsu

4. Mundu að þetta er tímabundið…

Það er allt tímabundið. Í rauninni er það eina sem við getum treyst á í lífinu, því það er ekkert sem endist að eilífu, það eru stöðugar breytingar. Þessi tími mun líka líða hjá, vonandi getum við lært af honum og komið út úr þessu sem vitrari og betri manneskjur. Það er svo mikilvægt að muna það þegar við erum að ganga í gegnum erfiðleika að þeir eru tímabundnir. Sama hversu illa þér líður, þá er það tímabundið og mun líða hjá. Það sem hefur reynst mér vel er að vera ekki í stöðugri baráttu við erfiðar tilfinningar og sleppa tökunum á að finnast ég þurfa alltaf að líða vel. Því partur af því að vera manneskja er að upplifa sorg, leiða og allan skalann. Við þurfum ekki á því að halda að líða illa yfir því að líða illa.

Það besta sem ég gerði var að gefa mér leyfi til þess að líða illa og ég gaf mér svigrúm til þess að finna þessar tilfinningar. Ég gaf mér tíma og rúm til þess að fara í gegnum þær, ekki bæla, ekki hunsa eða afneita, heldur að vera í því. Það var ekki skemmtilegt, en það var akkúrat það sem ég þurfti á að halda. Því síðan einn daginn vaknaði ég og mér leið svo margfalt betur! Ég fór í gegnum tilfinningarnar, leyfði mér að gráta, leyfði mér að gera ekki neitt, hvíla mig og sofa. Hvað er 1 dagur, 2 dagar eða vika í stóru myndinni.

Svo var eins og einhverju hafði verið lyft af mér og ég fann fyrir gleðinni aftur. Ég minnti mig reglulega á að ,,þetta væri tímabundið” og væri nauðsynlegt skref í sorgarferlinu. Ef þú upplifir hins vegar að þú sért ekki að komast í gegnum erfiða tímabilið sjálf/ur, þá hvet ég þig til þess að leita þér aðstoðar. Það getur gert kraftaverk að fá hjálp hjá sérfræðingum eða fólki sem vinnur á þessu sviði. Þannig ekki hika við það ef þú upplifir eins og þú sért föst/fastur á erfiðum stað.

5. Hreyfðu líkamann

Eins og Tony Robbins segir, ,,motion creates emotion”. Hreyfing hefur verið eitt af því sem hefur stutt gríðarlega við andlegu hliðina síðustu mánuði. Á þessi ári hefur hvatningin til þess að æfa og hreyfa sig verið ,,til þess að líða betur”. Þetta er eitt besta “meðalið” við slæmu skapi eða vanlíðan. Þetta losar vellíðunarhormónin í líkamanum og léttir lundina um leið. Þannig ef þú upplifir orkuleysi og erfiðar tilfinningar, stattu upp og hreyfðu þig. Gerðu heimaæfingu, farðu út að skokka, hjóla eða út að ganga.

6. Farðu út í náttúruna

Náttúran gefur orku og vellíðan! Farðu út á hverjum degi, og ef þú hefur tök á, út í náttúruna. Það eru margar náttúruperlur hér í kringum höfuðborgarsvæðið og margar skemmtilegar gönguleiðir út um allt land. Þú getur fengið hugmyndir inná https://gonguleidir.is/ ef þig vantar innblástur.

Að vera úti í náttúrunni hefur margslungin jákvæð áhrif á heilsuna okkar. Það minnkar neikvæð áhrif kvíða og streitu, eykur á jákvæðar tilfinningar og fólk upplifir meiri ró og jafnvægi. Það getur einnig haft jákvæð áhrif á blóðþrýsting, róandi áhrif á hjartslátt, minnkað vöðvaspennu og framleiðslu streituhormóna. Það hefur meira að segja sýnt sig að húsplanta inní herberginu þínu hefur jákvæð áhrif á þína líðan. Það er því um að gera að taka heimilið í gegn og umkringja þig grænum plöntum. 🙂

7. Gerðu meira af því sem gefur þér gleði og vellíðan

Settu ásetning um að gera meira af því sem lætur þér líða vel. Gerðu lista af atriðum sem þér þykja skemmtileg og hafa góð áhrif á þig og gerðu a.m.k 1-4 atriði af honum daglega.

Það getur t.d. verið:

-Kveikja á kertum og hafa kósý

-Hugleiða

-Kaupa falleg blóm

-Fara í falleg föt

-Hreyfa sig

-Prjóna/hekla

-Hlusta á jákvætt podcast

-Lesa góða bók

-Tala við vinkonur/vini og fjölskyldu

-Leika við börnin þín

-Elda extra góðan mat

-Fara út í fjallgöngur

-Dansa

-Syngja

8. Minnkaðu “to-do” listann

Hann hefur líklega gert það sjálfkrafa þegar öllu var lokað, saumaklúbbum frestað, æfingum aflýst, fundum og ýmislegt annað var sett á hold. En ef við erum undir álagi þá er ótrúlega gott að minnka álagið á öðrum vígstöðum. Segja oftar nei til þess að geta sagt já við þér og þínum þörfum. Ef þú hefur verið að upplifa mikla þreytu og jafnvel verið í streituástandi lengi, er eitt af því besta sem þú getur gert að einfalda lífið þitt og gera minna. Vertu dugleg/ur að standa með sjálfri/sjálfum þér, segja það sem þér finnst og setja skýr mörk. 

9. Einblíndu á sjálfa/n þig og lífið þitt

Þetta er fullkominn tími til þess að líta innávið og jafnvel endurskoða lífið sitt og forgangsröðun. Stað þess að vera bíða eftir því að þetta tímabil klárist svo að þú komist í gömlu rútínuna þína aftur, staldraðu við og athugaðu hvort þú viljir fara í gömlu rútínuna aftur. Var hún að styðja við þig? Veitti hún þér hamingju? Er eitthvað sem þú gætir jafnvel breytt og gert öðruvísi? Núna er tíminn til að skoða sína forgangsröðun og spyrja sig, hvernig get ég komið ennþá sterkari út úr þessu tímabili? Get ég lært að hugsa betur um sjálfa/n mig, andlega og líkamlega? Hlúað að mínum þörfum og hlustað á innsæið mitt? Munað betur eftir hvíldinni? Hvað sem það er fyrir þig, þá hvet ég þig til þess að taka upp blað og blýant og skrifa niður allt sem kemur upp hjá þér. Haltu dagbók  og fylgstu með þinni líðan og hugsunum.

10. Hafði þakklæti ofarlega í huga

Að velja að vera þakklát/ur hrindir af stað jákvæðum breytingum í lífi þínu. Fólk sem er þakklátt fyrir það sem það hefur er hamingjusamara en aðrir. Þakklæti er ein sterkasta og jákvæðasta tilfinning sem við upplifum og hafa rannsóknir sýnt að hún hefur mikil áhrif á okkar vellíðan. Rannsóknir hafa sýnt að ef þú skrifar niður á hverjum degi það sem þú ert þakklát/ur fyrir, fer heilinn smám saman að læra veita góðum hlutum athygli. Haltu þakklætisdagbók og skrifaðu niður 3-5 hluti sem þú ert þakklát/ur fyrir, bæði stór og smá atriði og skrifaðu einnig niður af hverju þú ert þakklát/ur fyrir þessi atriði.

Þó þetta séu furðulegir tímar þá leynast svo sannarlega í þeim mörg tækifæri. Þetta ár hefur einkennst af mikilli sjálfsrækt og mörgum aha-mómentum hjá mér og ég veit að það mun standa uppi sem mikið lærdómsár þegar ég lít til baka. Hvernig vilt þú upplifa 2020 þegar þú lítur til baka, 5 eða 10 ár aftur í tímann?

Um höfundinn: Sara Barðdal er stofnandi HiiTFiT, ÍAK einkaþjálfari, heilsumarkþjálfi frá Institute of Integrative Nutrition og viðskiptafræðingur frá HR. Hún stofnaði HiiTFiT með það markmið í huga að allir hafi tækifæri á að upplifa þá vellíðan og kraft sem fylgir hreyfingu og að sinna heilsunni. Síðustu ár hefur kviknað brennandi áhugi hjá Söru að læra allt um kraft hugans og muninn hjá fólki sem nær árangri og þeim sem gera það ekki. Sara elskar allt sem tengist andlegri og líkamlegri heilsu ásamt því að skrifa, deila og hvetja aðra í gegnum vinnu sína hjá HiiTFiT.

NÝLEGT