Oddrún Helga Símonardóttir heilsumarkþjálfi, matarbloggari og námskeiðshaldari deilir hér með okkur góðum ráðum sem og heilsusamlegum uppskriftum sem hafa það að markmiði að gera lífið ögn heilsusamlegra og betra.
Gefum Oddrúnu orðið:
Það eru rúmlega 10 ár síðan ég ákvað að ég þyrfti að breyta um áherslur. Ég var rúmlega þrítug með tvö lítil börn en mér leið eins og ég væri eldgömul. Auðvitað höfðu svefnlausar nætur eitthvað um það að segja en ég var orðin alltof þung eftir tvær meðgöngur á stuttum tíma. Ég lifði á brauðmeti í öll mál ásamt sætindum og ís og eldaði ekki máltíð án þess að bræddur ostur kæmi við sögu. Ég var stanslaust þreytt og þrútin auk þess að finna í fyrsta skipti á ævinni fyrir verkjum þegar ég skrönglaðist fram úr á morgnana.
Það sem hjálpaði mér var að fara á matreiðslunámskeið hjá Sollu. Ég fór á tvö námskeið og fékk fullt af hreinum og góðum hugmyndum sem ýttu mér af stað í ferðalag sem hefur ekki tekið enda ennþá. Þannig að þegar ég útskrifaðist sem Heilsumarkþjálfi 4 árum síðar ákvað ég að þetta væri það sem ég vildi einbeita mér að. Kenna fólki að elda og útbúa hreina og næringarríka rétti. Reyndar hef ég oft sagt það þegar fólk kemur á matreiðslunámskeið að þetta er meira hugmyndanámskeið. Flestir kunna að elda en oft skortir fólki hugmyndir hvernig það geti notað grænmeti, krydd, hnetur og fræ til að búa til girnilega máltíð á einfaldan hátt.
Það ætti ekki að vera neitt flókið að borða næringarríkt og hreint, mat sem gefur okkur orku og kraft. Semsagt, borða mest úr jurtaríkinu, ef við borðum dýraprótein að borða þá hreint kjöt, nota góða ólífuolíu og krydd og sætindi í hófi. En eins og þetta hljómar einfalt þá flækist það fyrir flestum okkar.
Það sem mér finnst skipta máli við það að bæta mataræðið er að einbeita sér ekki að öllu því sem við ætlum ekki að gera, heldur einbeita okkur að því sem við ætlum að gera. Það er auðvelt að detta í þessa gryfju ef við viljum bæta okkur; t.d. hugsa “ég ætla að hætta borða brauð, hætta að borða nammi, minnka kaffi, hætta að drekka gos, hætta að borða skyndibita o.s.v.fr.” En betra væri í rauninni að hugsa um hvað við ætlum að gera, t.d. ákveða að borða meira af ávöxtum, meira af grænmeti, drekka meira vatn, drekka meira te, elda oftar heima eða borða meira grænt. Þegar við bætum þessu góða inn er minna rými fyrir hitt og þannig sjálfkrafa minnkar það. Svona verður breytingin miklu ánægjulegri og mun líklegra að árangur náist.
Það er líka mikilvægt að finna út hvað okkkur finnst gott. Til dæmis höfum við vanið okkur á mikið unnið morgunkorn úr kassa og viljum borða næringarmeiri morgunmat gæti það kostað nokkrar tilraunir að finna út hvað okkur líkar. Það eru til margar gerðir af morgungrautum og drykkjum og ekki gefast upp þó ein uppskrift sem við prófum falli ekki að okkar smekk.
Það finnst engum það heillandi hugmynd að hætta öllu því sem okkur þykir gott enda engin ástæða til. Oft er hægt að búa til næringarríkari útfærslur án þess að bragðið sé neitt verra en svo er heldur enginn sem segir að við þurfum að borða 100 % hollt alltaf. Það væri mjög streituvaldandi að reyna það. Ef við reynum að hafa meirihlutann af öllu sem við borðum næringarríkan er pláss til þess að njóta inn á milli matar sem nærir okkur ekki eins vel. Þegar við trítum okkur með einhverju sem okkur þykir gott er svo auðvitað aðal málið að njóta þess í botn en ekki finnast við vera að svindla og borða með samviskubiti.
Sumum finnst það flókið að ætla að borða betur því það er mikið um mismunandi mataræði í gangi. Margir aðhyllast vegan á meðan aðrir eru á Ketó og allt þar á milli. Mismunandi mataræði hentar mismunandi einstaklingum og á meðan öðrum líður mjög vel á einu fæði verða aðrir orkulausir. Þess vegna getur verið gott að prófa mismunandi hluti og finna út hvað það er sem hentar okkur persónulega.
Uppskrift af orkukúlum
Þessar kúlur hafa verið vinsælar á námskeiðum. Þær innihalda protein, fitu og trefjar og eru þar af leiðandi fínn millibiti ef okkur langar í eitthvað sætt. Þessar kúlur hafa oft fengið að fljóta með á fótboltamót, fimleikamót og fjallgöngur í gegnum tíðina. Enda mikil orka í einni kúlu.
Innihald
( gerir uþb 25 kúlur/bita)
- 1 dl möndlur Himnesk hollusta
- 1 dl grófir hafrar Himnesk hollusta
- 1/2 dl sólblómafræ Himnesk hollusta
- 1/4 dl sesamfræ Himnesk hollusta
- 1/2 dl rúsínur eða þurrkuð trönuber
- 1/2 dl kókosflögur/kókosmjöl Himnesk hollusta
- 25 g 70 % súkkulaði smátt saxað
- örlítið himalayjasalt eða annað gott salt
- 1 – 1,5 dl mjúkar döðlur Himnesk hollusta
- 4-5 msk möndlusmjör eða heslinhetusmjör frá Monki


Aðferð
- Setjið hneturnar, fræin og þurrkuðu ávextina og súkkulaðið í matvinnsluvél og saxið gróft. Ekki mala alveg í spað, bara flott að hafa gróft.
- Bætið döðlunum og möndlusmjörinu saman við matvinnsluvélina og vinnið vel saman. Ef deigið vill ekki festast nógu vel saman má bæta við 1 -2 msk af vatni eða expressokaffi saman við.
- Mótið kúlur eða stangir og kælið.
- Geymast lengi í loftþéttu íláti í ísskáp.
Hnetu og fíkjumúslí
Uppskrift af góðu múslíi sem ég á alltaf til. Frábært í morgunmat eða seinnipartinn.
Innihald
- 1 dl hafraflögur Himnesk hollusta
- 1 dl möndlur Himnesk hollusta
- 1 dl pekan hnetur eða aðrar hnetur Himnesk hollusta
- 1 dl fræblanda af eigin vali t.d. sólblómafræ, graskersfræ og sesamfræ
- örlítið salt Himnesk hollusta
- 3-4 vænar msk kókosolía eða önnur hitaþolin lífræn olía Himnesk hollusta
- 1,5 dl kókosflögur (ath. fara seinna á plötuna)
- 0,5- 1 dl kurlaðar fíkjur (fara seinna á plötuna) Himnesk Hollusta


Aðferð
- Setjið möndlur og hnetur í matvinnsluvél og grófmalið eða saxið með hníf.
- Blandið öllum þurrefnunum saman nema kókosflögum og fíkjum í skál og hellið olíunni yfir.
- Setjið í ofnskúffu og bakið í 20-25 mín við 150°c. Það er gott að velta múslíblöndunni fram og tilbaka öðru hverju með spaða svo hún brenni ekki.
- Þegar 15 mín eru búnar af tímanum setjið þið kókosflögur og fíkjur saman við og bakið áfram í 5-10 mín.
- Takið ofnskúffuna út úr ofninum og leyfið blöndunni að kólna.
- Geymist vel í loftþéttum umbúðum
Fleiri uppskriftir má finna á
https://heilsumamman.com/
Höfundur: Oddrún Helga