Fyrir þessa uppskrift notaði ég matvinnsluvél til að blanda öllu hráefninu saman. Ég persónulega hef ekki prófað að nota blandara í verkið en það er alltaf hægt að prófa sig áfram með blandara ef þú átt ekki matvinnsluvél. Hefjumst handa!
Innihald:
Deig:
- 30 döðlur frá Himneskri Hollustu (lagðar í heitt bleyti í 5-10 mín)
- 2 msk kakóduft frá Himneskri Hollustu
- 1 msk chiafræ frá Himneskri Hollustu
- 150 grömm af pekanhnetum frá Horizon (tveir pakkar eða ca. 2 dl.)
Krem:
- 2 msk af dökku agave sírópi frá Himneskri Hollustu
- 1 msk af kakódufti frá Himneskri Hollustu
- 1 msk af kókosolíu frá Himneskri Hollustu (hún þarf að vera fljótandi)
Aðferð:
Byrjið á því að leggja döðlurnar í heitt bleyti. Ég hita vatn upp að suðu og legg döðlurnar í vatnið í 5-10 mínútur til að mýkja þær. Hellið svo vatninu í vaskinn.
Næst skal setja döðlurnar, kakóduftið, chiafræin og pekanhneturnar í matvinnsluvél og blanda þar til þið fáið límkennt deig. Ef deigið er of þurrt er hægt að bæta við döðlum eða jafnvel nokkrum dropum af heitu vatni og blanda áfram.
Þegar deigið er tilbúið þá leggið þið það í kökuform eða brauðform (ég persónulega notaði brauðform) og munið eftir því að setja bökunarpappír undir svo auðvelt sé að taka kökuna upp úr forminu. Ég klippi tvær lengjur af bökunarpappír og set þær í kross eins og þið sjáið á myndinni hér fyrir neðan. Það er auðvelt að fjarlægja kökuna á þennan hátt með því að toga í „spottana“ fjóra. Pressið deigið niður í formið með höndunum eða með skeið og dreifið því jafnt eftir forminu og hafið yfirborðið slétt.
Þegar deigið er komið í formið er næsta skref að búa til kremið. Byrjið á því að setja 2 msk af dökku agave sírópi í skál ásamt 1 msk af kakódufti. Hrærið saman. Næst skal setja fljótandi kókosolíu í skálina og hræra öllu vel saman. Ef kókosolían ykkar er hörð þá er sniðugt að setja hana í örbylgjuofninn í 30 sekúndur, fljótleg og auðveld lausn!
Þegar kremið er tilbúið skal setja það á kökuna, mér fannst best að nota sleikju en þið notið bara það sem ykkur finnst best. Það er ekki nauðsynlegt að skreyta kökuna en mér fannst svo sniðugt að skera niður nokkrar pekanhnetur eða jafnvel möndlur og strá yfir, það kemur svo fallega út!
Að lokum skal setja kökuna inn í ísskáp í a.m.k. 30 mínútur til að leyfa kreminu að harðna. Geymið í loftþéttu íláti, t.d. nestiboxi inn í ísskáp í mesta lagi 7 daga.
Njótið!
Ef þið viljið fylgjast betur með mér getið þið fylgt mér á Instagram eða bætt mér við á Snapchat en ég er undir nafninu astaeats
Þangað til næst, verið heil og sæl!
Þessi færsla er gerð í samstarfi við Himneska Hollustu og Horizon
Höfundur: Asta Eats