Hreyfing getur dregið úr kvíða og þunglyndi

Hreyfing getur dregið úr kvíða og þunglyndi

Nýleg rannsókn, sem unnin var af rannsakendum við háskólann í suður Ástralíu (UniSA) og MSH læknaskólann í Hamburg, Þýskalandi, leiddi í ljós að hreyfing og íþróttir geta dregið úr líkum á því að fólk þjáist af kvíða og þunglyndi sem og tengdum einkennum.

Um 682 manns tóku þátt í rannsókninni en hún leiddi í ljós að þeir þátttakendur sem æfðu samkvæmt viðmiðunarreglum alþjóða heilbrigðisstofnunarinnar er varðar líkamsrækt og hreyfingu, voru þeim mun ólíklegri til þess að þjást af kvíða og þunglyndi, samanborið við þá sem æfðu undir viðmiðunum. Samkvæmt höfundum rannsóknarinnar kveða viðmiðin á um að einstaklingar á aldrinum 18-64 ára hreyfi sig að lágmarki í 150 mínútur á viku, skipt niður á nokkra daga. Hér er um að ræða svokallað „moderate physical activity“ en það er hreyfing sem reynir hóflega á líkamann, samanber göngur, hlaup, sund, æfingar í líkamsrækt o.fl.

Rannsóknin leiddi einnig í ljós að þeir sem æfðu utandyra voru enn líklegri til þess að njóta þeirra góðu áhrifa sem hreyfing hefur á andlega líðan, samanborið við þá sem æfðu innandyra. Hins vegar telja höfundar rannsóknarinnar að bæði hópíþróttir sem og einstaklingsíþróttir hafi jákvæð áhrif á andlega heilsu, hvort á sinn hátt.

Höfundurnar greindu jafnframt frá því að meiri hreyfing skilaði ekki endilega meiri heilsufarslegum ávinningi fyrir andlegu heilsuna og hvöttu því fólk til þess að gæta hófs þegar kæmi að hreyfingu.

NÝLEGT