Hreyfum okkur daglega fyrir betri heilsu

Hreyfum okkur daglega fyrir betri heilsu

Höfundur: Lilja Björk Ketilsdóttir

Margir eru fastir í því að æfingar og líkamsrækt þurfi að taka langan tíma og er klukkutími eða meira oft viðmiðið. Svo gerist það að við finnum ekki klukkutímann til að æfa og gerum þá ekkert eða hreyfum okkur miklu sjaldnar en okkur langar. Enn aðrir eru sífellt að setja sér ný markmið varðandi það hvenær þeir ætli að byrja, ætla að byrja á morgun eða bara á mánudaginn. Selja sér að það sé alltaf gott að byrja um mánaðamót eða bara um leið og ræktin opnar aftur. Kannski betra að byrja þegar við erum komin með réttu skóna, betri buxur, nýjar græjur o.s.frv. Við getum verið snillingar í að finna okkur afsakanir á afsakanir ofan og erum stanslaust að fresta því að koma reglulegri hreyfingu inn í daglega rútínu.

Margir eru búnir að koma sér upp æfinga aðstöðu heima, kaupa sér sippuband jafnvel eina ketilbjöllu eða eitthvað fleira, sem er frábært. En svo eru margir aðrir sem finnst þetta erfitt, vantar agann og koma sér ekki af stað. Ætla bara að bíða, finnst erfitt að hreyfa sig þegar ræktin er ekki opin, finnst erfitt að breyta rútínunni, erfitt að koma æfingunum fyrir og vita ekki hvar þeir eiga að byrja. Margir fara alltaf í hóptíma eða eru alltaf á námskeiðum og geta ekki hugsað sér neitt annað. Ég er hóptíma þjálfari í Hreyfingu og veit að það eru margir þarna úti með þessa hugsun, finnst hreinlega ekki hægt að hreyfa sig án hópsins. Auðvitað er krafturinn og orkan sem við fáum hvort frá öðru í hóptímum frábær, en á tímum eins og þessum þurfum við eftir bestu getu að reyna að aðlaga okkur að breyttum aðstæðum. Hreyfingin er okkur svo mikilvæg að við þurfum að reyna að halda okkur við efnið og halda áfram. Ef við höfum dottið út úr rútínu og ekki hreyft okkur að neinu viti undanfarið, þá er líklegt að við finnum fyrir því að hægt og rólega er andlegu hliðin að bogna, erfiðara að halda svefninum í rútínu, þráðurinn jafnvel styttri, borðum meira af óhollu fæði og borðum óreglulega. Ekki bíða lengur, það er alveg hægt að hreyfa sig án þess að komast inn í ræktina, þetta snýst bara um smá skipulag og dass af sjálfsaga.

Það fyrsta sem er gott að hafa í huga er að æfingarnar okkar þurfa ekki alltaf að vera langar og við þurfum ekki endilega að eiga nýjustu skóna eða allt dótið í íþróttabúðinni, þótt að það hjálpi vissulega allt. Komum okkur bara af stað og verðlaunum okkur frekar með nýjum skóm eða nýju æfingadóti seinna. Ef okkur finnst erfitt að finna klukkutímann eða finnst þetta óyfirstíganlegt þá er mjög sniðugt að skipta æfingunum upp í fleiri styttri æfingar t.d. að taka tvær hálftíma æfingar eða tvær til þrjár 20 mínútna æfingar yfir daginn, stutt hreyfing er betri en engin því öll hreyfing skiptir máli. Viðmið landlæknis er amk. 30 hreyfing á dag fyrir fullorðna og 60 mínútur fyrir börn og ungmenni. Hreyfum okkur frekar styttra og oftar frekar en sjaldnar og lengi. Einhver hreyfing á hverjum degi skiptir sköpum og telur öll hreyfing með. Höfum í huga að fjölbreytni skiptir miklu máli. Suma daga er gott að keyra púlsinn vel upp, lyfta, taka kröftuga tabata æfingu, hlaupa hratt eða taka spretti. Aðra daga ættum við að fara í  göngutúr, taka mjúkt flæði, nokkrar teygjur eða jóga æfingar. Bara hreyfa okkur eitthvað á hverjum degi. Flott viðmið er að við hreyfum okkur til að byrja með í 20 mínútur á dag og fetum okkur upp í viðmið landlæknis sem er amk. 30 mínútur á dag.

Mikilvægt er að hafa í huga að ætla ekki að gleypa fílinn í einum bita. Við hlaupum ekki maraþon í fyrstu atrennu. Byrjum rólega, finnum okkar takt og bætum svo í. Það er svo gaman að finna árangurinn, finna þessa dásamlegu vellíðan sem hlýst af því að hreyfa sig reglulega. Tilfinningin sem við upplifum eftir hreyfingu er svo dásamleg. Munum að dagsformið skiptir gríðarlega miklu máli, það sem er auðvelt í dag verður jafnvel hrikalega erfitt á morgun. Hér spilar svo margt annað inn í, hvernig svaf ég, hvað er ég búin að borða, drakk ég vel af vatni, var mikið álag á mér o.s.frv.

Eitt mjög mikilvægt atriði er að skipuleggja okkur áður en við byrjum, ákveðum hvað það er sem við ætlum að gera og búum til áætlun. Setjum jafnvel upp hreyfingarprógram fyrir hverja viku. Munum að fara rólega af stað, finnum okkar takt og bætum svo í. Með tímanum finnum við hvað við þolum, finnum okkar takt og getum þá bætt inn æfingum, þyngt lóðin, aukið endurtekningarnar o.s.frv.

Munum að fjölbreytnin er afar mikilvæg, eitt gott viðmið er að ef við hættum að fá harðsperrur þá er kominn tími til að breyta til. Pössum okkur að festast ekki alltaf í því sama, sjokkerum líkamann reglulega og höfum þetta allt mjög fjölbreytt. Á netinu má finna fjöldann allan af æfingum og æfingaáætlunum, munu bara að finna áætlun áður en við förum af stað annars getum við dottið í hafsjó upplýsinga á netinu og lítið verður úr æfingunni. Hér á vefnum okkar H Magasín má finna fjölbreytt úrval æfinga sem við mælum með að nota.

Pössum að festast ekki í einni rútínu. Veljum æfingar sem okkur finnst erfiðar, stígum út fyrir þægindarammann, eflum með því andlegan styrk og bætum líkamlega getu.

Mitt markmið er að æfa og hreyfa mig reglulega af því ég get það, af því að mér þykir vænt um mig og mér finnst ég eiga það skilið. Ég hreyfi mig til að verða heilbrigðari, snarpari, hraðari og sterkari. Gott form verður bónusinn. Ég hreyfi mig af því líkaminn er gerður til að vera á hreyfingu, ef við hættum að hreyfa okkur þá eldumst við hraðar. Finnum það sem okkur finnst skemmtilegt að gera, hættum að fara í átak, gerum daglega hreyfingu að lífstíl og stuðlum þannig að heilbrigðara og betra lífi fyrir okkur sjálf. Munum að þetta snýst allt um að láta okkur líða vel.

Fyrir áhugasama þá set ég reglulega inn fjölbreyttar æfingar á Instagram undir aðgangnum liljaketils_training.

NÝLEGT