Search
Close this search box.
Hreystihvíslarinn Unnar

Hreystihvíslarinn Unnar

Til þess að vel þjálfaðir íþróttamenn nái auknum árangri þarf að finna veikleika þeirra og þjálfa þá. Þeir sem eru að byrja þurfa að skipta verkefninu niður í smærri og viðráðanlegri markmið. Þetta segir Unnar Helgason, styrktar- og þrekþjálfari en samhliða því að þjálfa marga af fremstu íþróttamönnum landsins er hann að mennta sig í Osteopatíu í Gautaborg í Svíþjóð en þau fræði ganga út á að greina og meðhöndla stoðkerfavandamál sem geta skert heilsu og vellíðan.

Öll upplifun er fyrir bý ef þú ert að meiða þig.“

Unnar hefur lengi verið viðloðandi heilsurækt og þá einkum crossfit. Meðal þeirra sem hann hefur tekið þátt í að þjálfa undanfarið eru þeir Aron Einar Gunnarsson, landsliðsfyrirliði, og Gunnar Nelson, MMA bardagakappi. Við settumst niður með Unnari til að ræða heilsueflingu og æfingar. Það sem við köllum í daglegu tali að vera í formi. Hann er einn af þeim sem horfir á stóru myndina. Þetta eru ekki tímabundin átaksverkefni heldur lífsstíll. „Þú mætir ekki til mín til að líta vel út á skýlunni á sundlaugarbakkanum. Þú kemur til að vera sterkur, hraustur og heilbrigður. Það getur vel verið að afleiðingin af því verði sú að þú ferð að líta vel út í speedó – en það er hliðarafurð og varla verðugt markmið í sjálfu sér.“ Það mikilvægasta er að vera heilbrigð sál í hraustum líkama. Hann segir að hreysti, þol og góð þjálfun haldist í hendur við mataræði og svefn. Hann segir fólk æfa hjá sér vegna þess að það vilji geta farið út að leika. Til þess þarf sterkan og kvillalausan líkama með gott grunnþol.

„Það er svo letjandi að glíma við eymsli og verki. Fólk fer ekki á Esjuna vegna þess að það hefur áhyggjur af því að það sé að skemma eitthvað og á endanum gerir það kannski ekki neitt; sinnir ekki hreyfingu eða meðhöndlun og styrktaræfingum.

„Sumir hlauparar geta ekki gert hálfa hnébeygju vegna þess að ef þeir fara undir skrefdýpt þá er ekkert stoðkerfi til að taka við þeim.“

Hann segir mörg vandamál heimatilbúin: „Fólk getur verið gríðarlega agað og æft mikið en samt verið að vinna gegn sér vegna þess að það hreyfir sig ekki á fjölbreyttan hátt. Svo getur hreyfiferillinn verið rangur og ef þú ætlar að ganga Laugarveginn þannig að mjöðmin á þér skýst út í hverju skrefi þá geturðu verið að búa til meiðsli. Mörg af þessum vandamálum í dag eru komin til vegna of mikillar setu. Stífar mjaðmir, stíft bak og óvirkir rassvöðvar. Allt er þetta ótrúlega algengt, meira að segja hjá fólki sem hleypur í hverri viku. Sumir hlauparar geta ekki gert hálfa hnébeygju vegna þess að ef þeir fara undir skrefdýpt þá er ekkert stoðkerfi til að taka við þeim.“

„Fólk getur verið gríðarlega agað og æft mikið en samt verið að vinna gegn sér vegna þess að það hreyfir sig ekki á fjölbreyttan hátt.“

En vonin er ekki úti ef þetta er málið. Hann segir auðvelt að taka á þessu. Það þurfi að greina hvernig fólk er að beita sér og vinna með veikleikana. „Ég fékk þau skilaboð eftir að hafa meiðst mjög illa fyrir 14 árum að ég væri bara hættur öllu því sem ég var að gera. Það var keyrt á mig á mótorhjóli þannig að fremra og aftara krossband rifnuðu. Brjóskið í hnénu fór mjög illa og það er eiginlega ekkert eftir þar í dag. En það eru samt alltaf til lausnir. Ég hef unnið framhjá þessu.

Ég vil ekki segja neinum að hann sé varanlega skemmdur og sé ekki að fara gera neitt nema að vera heima og horfa á vídeó. Þetta eru skilaboð sem fólk fær stundum frá læknum og meðferðaraðilum. Ég vil reyna að skapa raunhæfar væntingar og gera raunhæfa tímaáætlun. Sumt tekur bara langan tíma. Sumu nær maður í gang mjög hratt. Það fer eftir því hvað fólk setur ofan í sig og hvernig það hagar sínu lífi. Það er svo margt sem spilar inn í þetta.“

„Það getur verið andlega erfitt fyrir þessa einstaklinga að treysta því og draga úr því sem þeir hafa gert lengi. En það sem kom þér á þann stað sem þú ert á í dag, kemur þér ekkert endilega lengra.“

Þegar kemur að fólki sem er í góðu formi þá segist Unnar oft vera að hjálpa því útúr meiðslum. Þetta sé líka oft fólk sem er í mjög góðu ástandi og hefur verið í langan tíma en bætir sig kannski ekki mikið sem er hvorki gaman né hvetjandi. „Það getur verið kúnst að takast á við þetta. Hvernig bætir maður fólk sem er í fanta formi. Flestir afreksíþróttamenn eru fremur að æfa of mikið og oft erum við að draga úr æfingaálagi í því sem þeir eru þegar góðir í. Það getur verið andlega erfitt fyrir þessa einstaklinga að treysta því og draga úr því sem þeir hafa gert lengi. En það sem kom þér á þann stað sem þú ert á í dag, kemur þér ekkert endilega lengra. Það þarf að æfa það sem þú ert lélegur í.“

Hann segir að hlaupari sem sé með gott langþol geti til dæmis bætt sig í sprettum. „Þú ert kannski með gott þrek og sterk efnaskipti fyrir langtímaálag. Kannski viltu vera fljótari að jafna þig eftir brekkur og geta byrjað strax á sama hraða og fyrir brekkuna. Þetta er hægt að æfa. Þú getur aukið súrefnisupptökuna til dæmis með því að taka marga stutta spretti og brekkur. Kúnstin við það að komast á næsta stig er að sjá hvað vantar.“

Hlaup eru góð segir Unnar en þau þjálfa þig bara í hlaupum. „Ef þú vilt fara í fjallgöngur, ísklifur og á sjókajak þá þarftu að komast í gott heildarform og þá myndi ég alltaf mæla með eins fjölbreyttri hreyfingu og hægt er. Það er líka skemmtilegra. Ég er ekki aðdáandi fastra tækja. Ég vil gera hreyfingar sem innihalda jafnvægi og hliðarhreyfingar með lausum lóðum eða bjöllum.“

Hann er ekki með neina galdralausn þegar kemur að því að halda sér við efnið. „Það vita allir að jákvætt hugarfar skiptir máli en ég held líka að það sé nauðsynlegt að vera með marga litla áfanga. Byrja á því að búa til mörg lítil skref. Ég ætla út á horn í dag en útí búð á morgun. Margir litlir sigrar skipta máli. Við letjumst mjög hratt þegar við ætlum að gleypa heiminn í einum bita. Það er ekki hægt. Maður verður að byrja á því að léttast um 100 grömm ef maður ætlar að missa mörg kíló. Þannig að byrjum þá bara þar.“

Hann segist sjálfur hafa prófað flest þegar kemur að mataræði en er að mestu í paleo mataræði sem er einfaldast. Borðar kjöt og fisk, grænmeti og ávexti og hnetur og fræ en sleppir sykri og hveiti. „Þetta er heilnæmt og gott mataræði. Síðustu fjögur ár hef ég notað föstur alla daga. Borða bara í 8 tíma glugga og svo tek ég gjarnan lengri föstur uppúr veikindum. Mér finnst það endurstilla kerfið.“

Hann segist hafa prófað að sleppa kolvetnum en saknaði þeirra. „Í dag borða ég mikið af hrísgrjónum og stundum pasta en sleppi brauði. Lenskan í dag er að forðast kolvetni en maður þarf kolvetni í útivist.“

„Við erum eina skepnan á jörðinni sem fórnar svefni fyrir annað en mat.“

Svo er það svefninn. „Ég er alltaf með bókina hans Dr. Matthew Walker á náttborðinu. Hún heitir Why We Sleep og þar útskýrir hann þetta á mannamáli. Það er gríðarlega mikilvægt að sofa mikið og vel. Líkamlega á sér mikil endurheimt stað í svefninum en það er ekki síður andlega mikilvægt fyrir fólk sem stundar álagsvinnu og álagsæfingar að sofa vel. Ég reyni að ná alltaf 8 tímum og mæli með því við alla. Við erum eina skepnan á jörðinni sem fórnar svefni fyrir annað en mat. Við fórnum svefni í allskyns vitleysu eins og síma og Netflix og það er einfaldlega brjálæðislega óhollt. Eftir að hafa lesið Walker þá spyr maður sig: Lifum við til að sofa eða sofum við til að lifa. Það gerist meira í hausnum á okkur þegar við erum sofandi en þegar við erum vakandi. Svefn er lífið.“

Þessi grein birtist upprunalega á vef Vertu Úti – vertuuti.is

NÝLEGT