Hugmyndir fyrir heimaþjálfun

Hugmyndir fyrir heimaþjálfun

Neyðin kennir naktri….

Það er ansi margt sem má brúka til styrktarþjálfunar í staðinn fyrir galvaníseraðar stangir og gúmmíhúðuð handlóð í loftkældri líkamsræktarstöð.

Því þó slík musteri heilsunnar séu með harðlokaðar dyr nú um mundir er engin ástæða til að leyfa kjötinu að rýrna af grindinni.

Mannskepnan er lausnamiðuð aðlögunarmaskína og Kóróna krísan hefur kennt mörgum ræktarmelnum að finna leiðir til að rífa í járnið og viðhalda þannig uppsöfnuðum styrk og atgervinu sem við höfum unnið hörðum höndum að.

Svo ekki sé minnst á öll þau jákvæðu áhrif sem regluleg hreyfing hefur á geðheilsuna. Rannsóknir sýna að hreyfing getur dregið úr streitueinkennum og bætt getu okkar til að höndla streitu. Ekki veitir af því nú þegar óvissa og ótti eru allsráðandi. Margir upplifa vanlíðan og kvíða varðandi framtíðina. Regluleg dagleg hreyfing losar út vellíðunarhormónin endorfín og dópamín.

Jafnframt sýna rannsóknir frá Harvard T.H. Chan School of Public Health að hreyfing er góð til að meðhöndla væg til miðlungs einkenni depurðar.

Það er því ærin ástæða til að halda lífinu í rútínunni af hamagangi, hoppum og skoppum.

Æfingar hafa ýmiss jákvæð áhrif á heilastarfsemina, sérstaklega lyftingar sem fela í sér margskonar hreyfiferla búa til nýjar taugabrautir, nýjan lærdóm, stöðuskynjun og minni bólgumyndun. Ekki síst að rífa í járnið til að keyra upp sjálfstraustið og veita hugarró með því að dreifa huganum frá neikvæðum hugsunum og óþægilegum hversdagsleikanum.

Lyftingar keyra upp sjálfstraustið og bæta sjálfsmyndina.

Að brúka skrokkinn til góðra verka og þurfa að líða óþægilega í klukkutíma gerir hugann að Teflon pönnu fyrir streituvalda Kórónukrísunnar.

Þú getur skokkað út í Byko eða Lífland og fjárfest í landbúnaðarvörum, lánað gangstéttarhellur eða lánað gaskútinn hjá nágrannanum. Rykfallnar bækurnar koma nú að góðum notum sem uppfylling í töskur og poka. Niðursuðudósalagerinn nýtilegur í vöðvaviðhald. Gangstéttarhellur úr garðinum fá nýtt hlutverk.

Notaðu ímyndunaraflið og nýttu þér það sem heimili og garður hafa upp á að bjóða til að halda áfram vegferðinni að verða sterkari. Ekki leyfa Kórónunni að keyra þig útí skurð með heilsuvenjurnar þínar. Hún fær ekki það dagskrárvald líka. Nægt er það fyrir.

Hugmyndir að æfingatækjum

Gaskútar

Bakpoki fylltur með niðursuðudósum

Gangstéttarhellur

Moldarpokar

Innkaupapokar með niðursuðudósum

Sandpokar

Fötur fylltar af grjóti

Ferðataska fyllt af bókum

Kærasti/kærasta/eiginmaður/eiginkona/barn

Kústskaft með álímdum gosflöskum

Slökkvitæki

Blómapottar

Höfundur: Ragga nagli

NÝLEGT