Search
Close this search box.
Hugsaðu um þá hluti sem þú getur stjórnað

Hugsaðu um þá hluti sem þú getur stjórnað

Hugsaðu um þá hluti sem þú getur stjórnað

er setning sem ég hef notað margoft

Hugsaðu um þá hluti sem þú getur stjórnað er setning sem ég hef notað margoft á sjálfan mig og margir mættu taka þessa setningu sér til fyrirmyndar. Fólk pælir svo svakalega mikið í hvað veðrið er vont á Íslandi, hvað aðrir eru að gera í lífinu og metur sitt líf og sína hamingju út frá óstjórnanlegum hlutum. Oftast er það viðhorf og væntingar til lífsins sem ákvarða hversu hamingjusamur einstaklingurinn er.

Að ná árangri í íþróttum hefur svo marga sameiginlega kosti við að ná árangri í lífinu. Væntingar ákvarða gæði í öllu sem við gerum! Þær væntingar sem við gerum til lífsins og þær væntingar sem við setjum okkur til þess að ná árangri geta verið á marga vegu. Einni manneskju finnst árangur tengjast því að vera með háar tekjur. Annarri manneskju finnst árangur vera að eiga heilbrigt og gott samband við fjölskyldu og vini sína og þriðju manneskjunni finnst árangur vera að vinna titla í sinni íþróttagrein. Það sem margir gleyma í átt að árangursríkara lífi er að þú uppskerð eins og þú sáir. Þeir sem leggja meira á sig en aðrir og eru að sá fræjum hér og þar, eru alltaf líklegri til þess að ná árangri.

Það eru alltof margir sem tala einungis um hlutina en gera ekki mikið í hlutunum! Þetta er það sem skilur að þá sem ná langt í lífinu og þá sem ná ekki eins langt. Skrifaðu niður markmið, gerðu áætlun um hvernig þú ætlar að ná markmiðinu, hafðu markmiðið sýnilegt (ekki inni í höfðinu) og gerðu það sem skiptir öllu máli, láttu verkin tala!

Ef við prófum aldrei neina hluti og erum inni í skelinni, þá gerum við aldrei nein mistök og þá lærum við ekki eins mikið á lífið né á okkur sjálf.

Við þekkjum það öll að á einhverjum tímapunkti við einhverjar aðstæður erum við óviss hvað við viljum gera. Rannsóknir hafa sýnt að þeir sem taka af skarið og prófa sig áfram, þótt þeir viti ekki hvað þeir vilja, eru mun líklegri til þess að ná árangri og mun líklegri til þess að vita hvað þeir vilja eða vita hvað þeir vilja ekki. Ef við prófum aldrei neina hluti og erum inni í skelinni, þá gerum við aldrei nein mistök og þá lærum við ekki eins mikið á lífið né á okkur sjálf. Þetta á við í íþróttum, atvinnulífinu, samskiptum og lífinu öllu.

Í mínu lífi hef ég reynt að hugsa um þá hluti sem ég get stjórnað og allir þeir hlutir sem voru skrifaðir hér að ofan, eru stjórnanlegir. Jákvætt viðhorf og að setja ekki of miklar væntingar á fólk, gerði mig strax hamingjusamari og viljugri til þess að ná meiri árangri í mínu lífi.

Höfundur: Oliver Sigurjónsson

NÝLEGT