Hummus hafrakex

Hummus hafrakex

Fyrir þessa uppskrift gerði ég mitt eigið hafrahveiti, sem er ekkert meira en bara hakkaðir hafrar, og minn eigin hummus en það er líka hægt að kaupa tilbúinn hummus út í búð. Ég hins vegar veit ekki hvar maður getur keypt hafrahveiti þannig ég tel best að búa það til sjálfur enda er það mjög auðvelt!

Innihald:

  • 1,5 dl af hafrahveiti
  • 2,5 dl af hummus
  • Sesamfræ frá Horizon (hægt að sleppa)

 

Heimalagað hafrahveiti

  • 1,5 dl af höfrum frá Himneskri Hollustu (hakkað niður í duft)


Heimalagaður hummus

  • 300 grömm af kjúklingabaunum í krukku frá Himneskri Hollustu (1 krukka)
  • 2-3 hvítlauksgeirar
  • 2-4 msk af extra jómfrúarólífuolíu frá Himneskri Hollustu
  • 1 msk af kjúklingabaunavatni frá krukkunni (ef vill)
  • 1/2 tsk af salti

 

Aðferð:

Byrjið á því að hita ofninn upp í 180°C og á meðan er hægt að útbúa hafrahveitið og hummusinn.

Hafrahveiti: Setjið 1,5 dl af höfrum í matvinnsluvél eða blandara og hakkið hafrana niður þar til þið fáið fínt duft. Leggið svo hafrahveitið í stóra skál en þið bætið svo hummusinum við þegar hann er tilbúinn.

Hummus: Skolið kjúklingabaunirnar vel til að byrja með. Ég helli baununum í sigti og skola þær undir köldu kranavatni en áður en ég geri það tek ég 1 msk af kjúklingabaunavatninu frá.

Setjið svo kjúklingabaunirnar ásamt hvítlauk, ólífuolíu, salti og kjúklingabaunavatni í matvinnsluvél og blandið í nokkrar mínútur þar til þið fáið mauk.

Bætið hummusinum við hafrahveitið og hnoðið vel saman þar til þið fáið deig. Ég notaði sleikju í verkið en það er hægt að nota hendurnar.

Næst skal leggja deigið á bökunarpappír og fletja það aðeins niður með höndunum. Leggið svo annan bökunarpappír yfir og rúllið deigið með kökukefli. Deigið á að vera þunnt, 6 mm eða minna á þykkt.

Þegar búið er að fletja deigið skal skera það í hringi. Hægt er að nota kringlótt „piparkökuform“ en ég notaði brúnina á glasi þar sem ég átti ekki kökuform. Hnoðið svo deigið sem verður afgangs aftur saman og endurtakið þar til deigið klárast.

Leggið deigið á bökunarplötu með pappír undir og gerið gat á alla bitana, þetta er gert til þess að þeir bakist jafnt. Þið takið gaffal og stingið honum 3-4 sinnum yfir kexbitana, byrjið efst og færið ykkur niður eftir kexinu. Ef kexbitarnir eru ekki allir jafnþykkir er best að setja þykkustu bitana í miðjuna og þynnri bitana út á hliðarnar.

Hummusdeig

Hummuskex

Spreyið bökunar- eða olíuspreyi létt yfir kexið og stráið sesamfræjum yfir ef þið viljið. Þrýstið svo sesamfræjunum varlega niður í kexið með fingrunum svo þau festast.

Bakið kexið í 30-40 mínútur þar til kexbitarnir verða stökkir og gylltir að lit. Til að vera viss um að kexið sé tilbúið tek ég gaffal og ýti honum ofan í kexið, ef gaffallinn fer ekki inn í kexið þá er það tilbúið en ef gaffallinn sekkur ofan í kexið þá þarf það lengri tíma í ofninum.

Ég lenti í því að sumir kexbitar voru tilbúnir en aðrir ekki. Ég einfaldlega tók tilbúnu kexbitana frá og leyfði hinum að vera lengur í ofninum. Geymið í loftþéttu íláti, t.d. í nestisboxi í 1-2 vikur.

Njótið!

Ef þið viljið fylgjast betur með mér getið þið fylgt mér á Instagram eða bætt mér við á Snapchat en ég er undir nafninu astaeats

Þangað til næst, verið heil og sæl!

Þessi færsla er gerð í samstarfi við Himneska Hollustu og Horizon
Upprunalegu uppskriftina má finna á vefsíðunni www.mindovermunch.com en ég þýddi hana yfir á íslensku

Höfundur: Asta Eats
Höfundur uppskriftar: Mind Over Munch

 

 

NÝLEGT