Heilsuvegferð mín hófst með Vitamixer blandara fyrir ansi mörgum árum og fram til dagsins í dag finnst mér fátt betra en að byrja daginn á bragðgóðum heilsudrykk sem gefur saðsama næringu og kröftuga orku inn í daginn. Að mínu mati eru heilsudrykkir einn af betri kostum þegar kemur að morgunmat því þeir gefa líkamanum færi á að hreinsa sig eftir nóttina, stuðla að jafnvægi blóðsykurs og létta á meltingunni. Heilsudrykkir eru fljótgerðir, stútfullir af næringarefnum, auðvelt að taka þá með sér og eitthvað sem allir geta gert. Með því að nota heilsudrykki reglulega nýtum við betur næringarefni og önnur virk efni sem eru nauðsynleg líkamanum til uppbyggingar og endurnýjunar. Það er líka mjög auðvelt að auka neyslu okkar á grænmeti, ávöxtum og annarri ofurhollri fæðu úr jurtaríkinu með því að skutla því út í heilsudrykkinn og stuðla þannig að meiri inntöku á andoxunarefnum og næringarefnum sem efla heilsuna okkar. Jafnvel einn grænn heilsudrykkur á dag er skref í rétta átt í að skapa sér góðar heilsuvenjur sem skila sér í bættri líðan. Vel nærður líkami er fullur af orku!
Það er snjallt að eiga ákveðin grunn hráefni þegar við gerum heilsudrykki s.s. gæða próteinduft, fræ og hnetur, ofurfæðisduft, trefjar, frosin ber og ávexti, góða fitu/olíu, möndlumjólk, krydd, stevíu o.fl. Hægt er að leika sér að vild með hráefnin en ég mæli með að koma sér upp góðum hráefnum sem hægt er að nota til að auka fjölbreytnina og næringuna í drykkjunum.
4 trix að góðum heilsudrykk
- Prótein: Hreint próteinduft, hnetur, fræ, kollagen, hreint jógúrt
- Trefjar: Grænmeti, ávextir, chia fræ, hörfræ, acacia trefjar, psyllium husk
- Góð fita: Avókadó, kókósolía, hörfræolía, hnetu & möndlusmjör, hampfræ, MCT olía
- Grænt: Spínat, grænkál, hveitigrasduft, brokkolí, mynta, grænt næringaduft, spirulina duft
Þessi samsetning á próteini, trefjum og góðri fitu heldur blóðsykri í jafnvægi, veitir stöðuga orku og slekkur á hungurhormónum og gefur okkur góða mettun til lengri tíma. Ég mæli með að bæta við ávöxtum eða grænmeti ef vill og nota vökva að eigin vali svo úr verði vel samsettur nærandi drykkur. Góð regla er að bæta regulega einhverju grænu út í drykkina til að auka magn trefja og plöntuefna. Ég nota lífræna sykurlausa möndlumjólk frá Isola í alla drykkina og stundum kókósmjólk eða kókósvatn. Fyrir þá sem vilja sæta og bragðbæta drykkina enn frekar má bæta við smá sætu ef vill s.s. lífrænu hunangi, vanilludufti eða stevíu.


Prótein sem ég mæli með í heilsudrykki
Hægt er að nota það prótein sem hentar best hverju sinni en flest þessara próteina gefa um 20 gr af próteini per ráðlagðan skammt og veita líkamanum allar nauðsynlegar amínósýrur. Sjálf kýs ég að nota prótein með hreinum innihaldsefnum sem eru án sykurs og kemískra aukaefna og vanda valið í þessum efnum upp á að fá bestu gæðin af góðu próteini sem líkaminn tekur best upp.
Plant protein complex
Hreint plöntuprótein úr hemp, quinoa og bauna próteini sem hentar þeim sem vilja borða meir úr jurtaríkinu og fyrir þá sem vilja sleppa mjólkurpróteini.
Chicken bone broth protein
Prótein unnið úr beinasoði úr hágæða kjúkling en það er talið hafa góð áhrif á stoðkerfi og bandvefi líkamans og hentar vel þeim sem eru með fæðuóþol. Þetta prótein er án bragðs og ég mæli því með að nota French vanilla stevia frá Now 2-5 dropar til að bragðbæta.
Collagen peptides protein
Hreint kollagen duft en kollagen er eitt helsta uppbyggingarefni fyrir húð, hár, neglur, stoðkerfi og bandvefi í líkamanum. Þetta er ekki fullkomið prótein þegar kemur að amínósýrum en gefur 10 gr af próteini per skammt og gott að nota til móts við aðrar tegundir af próteini inn á milli.
Sprouted brown rice protein
Prótein sem er úr spíruðum hýðisgrjónum og hentar þeim sem vilja neyta meir af jurtafæðu og einnig ef um fæðuóþol er að ræða en þetta er eitt af öruggari próteintegundum fyrir þá sem eru með fæðuóþol og meltist auðveldlega.
Whey protein
Hreint mysuprótein er unnið úr mjólk og eitt algengasta próteinduftið enda með fjölbreyttan amínósýruprófíl og gefur góða mettun og seddu til lengri tíma. Ríkt af amínósýrunni L-glútamín sem er viðgerðarefni fyrir skaddaða og skemmda vefi í líkamanum og hjálpar við endurheimt vöðva. Flestir þeir sem eru með laktósaóþol virðast geta melt mysuprótein.
Hnetur og fræ
Hnetur og fræ innihalda prótein í einhverju magni og ef þið kjósið er hægt að nota 2 msk af möndlusmjöri eða öðru hnetu og fræsmjöri í staðinn fyrir próteinduft en hafa ber í huga að það veitir þó ekki sama næringargildið hvað varðar amínósýrur og próteinþörf.
Höfundur: Ásdís Grasa
ATH: Hér má finna gómsætar uppskriftir að heilsusamlegum heilsudrykkjum frá Ásdísi Grasa.