Hvað tappar af streitufötunni þinni?

Hvað tappar af streitufötunni þinni?


„Hvað fyll­ir á og tapp­ar af þinni streitu­fötu,“ spyr Ragga nagli, sál­fræðing­ur. Hún seg­ir flesta full­orðna vera með hálf­fulla fötu af streitu­völd­um, meðal ann­ars vegna áfalla eins og dauðsfalla, of­beld­is, einelt­is og gam­alla, óleystra ágrein­inga. En hvað er í föt­unni þinni og hvernig hell­um við úr henni? Hún deildi hug­leiðing­um sín­um í Heilus­blaði Nettó: 

Hvað veld­ur streitu?

  • Of mörg verk­efni
  • Skilnaður
  • Einelti á vinnustað
  • Langvar­andi veik­indi
  • Óheil­brigð sam­skipti
  • Sorg og söknuður
  • Svefn­leysi

Dag­leg­ir streitu­vald­ar

Það sem fyll­ir föt­una enn meira köll­um við dag­lega streitu­valda sem drippa ofan í um leið og við opn­um glyrn­urn­ar á morgn­ana.

  • Vont and­rúms­loft á vinnustað
  • Rifr­ildi við mak­ann
  • Skila­frest­ur í vinnu
  • Skutla og sækja í fim­leika, fót­bolta, pí­anó
  • Borða rusl­fæði
  • Fé­lags­leg ein­angr­un

Innri streitu­vald­ar

Svo bæt­ast við drop­ar af innri streitu­völd­um sem eru sam­talið sem við eig­um við okk­ur sjálf í hausn­um.

Nei­kvætt sjálfstal og niðurrif: 

„Ég var eins og fífl á árs­hátíðinni um síðustu helgi.“

„Ojjjj hvað ég er feit í þess­um bux­um, eins og illa vaf­in rúllupylsa.“

„Þessi kynn­ing í vinn­unni var öm­ur­leg hjá mér.“

Kvíði, sjálfs­efi og áhyggj­ur

„Ég meika ekki að labba inn í rækt­ina, það munu all­ir horfa á mig og hlæja.“

„Ég þori ekki að segja NEI við yf­ir­mann­inn því ég vil ekki missa vinn­una.“

„Ég veit ekki hvort ég nái end­um sam­an í lok mánaðar.“

Flæðir yfir barm­ana á föt­unni

Heil­inn ger­ir ekki grein­ar­mun á ímynd­un og raun­veru­leika og nei­kvætt sjálfstal, áhyggj­ur og kvíði fara lóðrétt í föt­una. Svo flæðir yfir barm­ana á föt­unni. Og við upp­lif­um kuln­un. Örmögn­un. Af því að kröf­urn­ar eru of marg­ar, of háar, of mikl­ar fyr­ir þau úrræði sem við höf­um yfir að ráða. Úrræðin okk­ar eru tími, at­hygli og orka. Við eig­um ekki meira af þess­um auðlind­um, það er kom­inn bullandi yf­ir­drátt­ur og gulu miðarn­ir streyma inn um lúg­una. Og í því ástandi verður fram­heil­inn utan þjón­ustu­svæðis og við bregðumst við áreit­um eins og ung­ling­ar, með til­finn­ing­um en ekki rök­hugs­un.

Streit­an læt­ur á sér kræla í hegðun og hugs­un

Streit­an fer að koma fram í hegðun og hugs­un. Við erum pirruð, grát­gjörn, alltaf þreytt, gleym­in. Hugs­um nei­kvæðar hugs­an­ir. Lík­am­inn læt­ur líka vita þegar streit­an er far­in að flæða: Melt­ing­ar­trufl­an­ir, hár blóðþrýst­ing­ur, hækk­andi kó­lester­ól, ör hjart­slátt­ur, kvíðahnút­ur í maga, svefn- trufl­an­ir. Öll verk­efni verða óyf­ir­stíg­an­leg. Við vilj­um ekki hitta neinn og miss­um áhug­ann á öllu sem áður gladdi okk­ur.

Hjálp­leg bjargráð búa til göt í botn­inn á föt­unni svo streit­an míglek­ur úr föt­unni og út í haf­sjó. Hjálp­leg bjargráð eru að styrkja fé­lag­stengsl­in, stunda hreyf­ingu, horfa á grínþætti og hlæja dug­lega, setja svefn­inn í al­gjör­an for­gang, hvílast, stunda önd­un­aræf­ing­ar og nú­vit­und, borða hollt og góm­sætt.

Aðrir hlut­ir sem tappa af föt­unni

  • Nú­vit­und
  • Þakk­læt­is­dag­bók
  • Jóga
  • Band­vefs­los­un
  • Sál­fræðimeðferð
  • Sauma­klúbb­ur
  • Nudd
  • Dúll og dek­ur

Semsagt sjálfs­rækt „par excellence“.

Óhjálp­leg bjargráð sem end­ur­vinna streit­una

Svo áttu bjargráð sem tappa af streitu en bara í ör­stutta stund því þau eru í raun hringrás og end­ur­vinna streit­una með því að bæta enn meiru ofan í föt­una. Þetta köll­um við óhjálp­leg bjargráð. Eins og að fá sér sjúss. Smóka rettu. Úða í sig kexi. Sjoppa drasl á net­inu. Eitt­hvað sem keyr­ir upp dópa­mínið og okk­ur líður dúnd­ur­vel en bara í stutta stund. En við fyll­umst sekt­ar­kennd, eft­ir­sjá, sam­visku­biti, áhyggj­um og niðurrifi í kjöl­far slíkr­ar hegðunar. Eins og að pissa í skóna sína til að hlýja sér á fót­un­um. Það verður enn kald­ara eft­ir á. Og streitufat­an fyll­ist enn meira og nú með kokteil af nei­kvæðum til­finn­ing­um. Svo eru innri óhjálp­leg bjargráð eins og að taka strút­inn á þetta og bora hausn­um í sand­inn með því að hunsa vanda­málið. Fresta því að tak­ast á við hlut­ina. Halda leik­rit­inu gang­andi og segja að allt sé í gúddí þegar við erum í mol­um að inn­an.

Súr­efn­is­grím­an þín þarf að vera á and­lit­inu

Þrálát streita er hinn þögli skaðvald­ur nú­tím­ans. Skaðvald­ur sem smám sam­an ýtir fólki út úr at­vinnu­líf­inu. Út úr fé­lags­líf­inu. Út úr gleðinni. Út úr heils­unni. Það er því mik­il­vægt að tappa reglu­lega af streitu­föt­unni áður en heils­an hryn­ur í gólfið með til­heyr­andi kuln­un í starfi eða til­finn­inga­legu krassi á vegg. Sjálfs­rækt er ekki sjálfs­elska. Þú hjálp­ar eng­um í flug­vél­inni ef súr­efn­is­grím­an þín hang­ir bara um háls­inn á þér.

Gul­rót­ar­kökugraut­ur fyr­ir streitupésa

Kol­vetni eru bólu­efni við of háu kort­isóli því þau keyra það niður á núll einni. Og haframjöl lækk­ar kó­lester­ólið sem oft keyr­ist upp í rjáf­ur þegar við erum und­ir miklu álagi. Haframjöl er líka ríkt af B1 en lík­am­inn spæn­ir oft upp B-víta­mínið þegar við erum und­ir miklu álagi. Rús­ín­ur eru stút­full­ar af andoxun­ar­efn­um sem draga úr bólgu­mynd­un sem oft er viðvar­andi í streitu. Möndl­ur eru rík­ar af magnesí­um sem róar miðtauga­kerfið. Husk hjálp­ar melt­ing­unni og held­ur henni reglu­legri en streita hef­ur áhrif á þarma­flór­una með því að ráðast á góðu bakt­erí­urn­ar.

Þessi bakaði gul­rót­ar­kökugraut­ur er þess vegna dúnd­ur­byrj­un á deg­in­um fyr­ir þau sem glíma við kuln­un eða ör­mögn­un.

Bakaður gul­rót­ar­kökugraut­ur

50 g haframjöl frá MUNA

1 tsk. lyfti­duft

1 msk. NOW Psylli­um Husk

1 msk. rús­ín­ur 

1 rif­in gul­rót

½ tsk. Ceylon kanill 

½ tsk. engi­fer

½ tsk. múskat

1 tsk. vanillu­drop­ar

1 klípa salt

100 ml eplamús, ósæt

150–200 ml mjólk (úr plöntu eða belju)

1 msk. möndl­ur 

Hitið ofn­inn í 180°C. Blandið höfr­um, huski, kryddi, lyfti­dufti og rif­inni gul­rót sam­an í stórri skál. Blandið mjólk, vanillu­drop­um og eplamauki sam­an í minni skál og hrærið vel. Blandið blautu hrá­efn­un­um sam­an við þurru hrá­efn­in og bætið svo rús­ín­um sam­an við. Setjið blönd­una í lítið eld­fast mót og dreifið möndl­um yfir. Bakið graut­inn í 35–40 mín­út­ur. Látið kólna í 5–10 mín­út­ur.

Toppaðu gleðina með syk­ur­lausu Good Good sírópi og jafn­vel góðri vanillujóg­úrt til að fá smá kremfíl­ing. Þenn­an graut má líka gera kvöldið áður svo hann sé klár þegar þú rúll­ar þér fram úr bæl­inu. Þá er bara að opna ís­skáp­inn og vopn­ast gaffli til að njóta. 

Fylgist með Röggu Nagla hér.

NÝLEGT