Höfundur: Coach Birgir
Það er alltaf gaman að lesa og viða að sér fróðleik, kenningum og staðreyndum tengt heilsu og hreyfingu. Skemmtilegast er þó þegar maður rekst á eitthvað sem setur hlutina í algjörlega nýtt samhengi. Sér í lagi varðandi málefni sem maður lifir og hrærist í hvern einasta dag.
Við lifum á tímum þar sem stöðug umræða á sér stað varðandi fitutap, fitubrennslu, hvað skal borða eða ekki borða, hvaða hreyfing skilar mestu fitutapi og svo framvegis. Í öllu þessu yfirflæði á efni og upplýsingum tengt fitu, hefur þú einhvern tíma velt því fyrir þér hvert fitan fer þegar þú brennir henni?
Skv. rannsókn sem eðlisfræðingurinn Ruben Meerman gerði árið 2014 kom í ljós að flestir sérfræðingar á borð við lækna, næringarfræðinga og líkamsræktarþjálfara töldu að eitt af eftirtöldum efnaskiptum myndi eiga sér stað í líkamanum við niðurbrot á fitu:
- Að fita umbreytist í orku
- Að líkaminn losi sig við fituna í gegnum ristilinn
- Að fita umbreytist í vöðva
Hvað hlutverki gegnir fita?
Fita samanstendur af frumum í líkama þínum og er aðallega notuð sem orkugeymsla og til verndar. Líkaminn notar síðan þessa orkuforða fyrir vinnandi vöðva sem og til að hýsa fjölda annarra efnaskiptaleiða og til niðurbrot á ensímum.
Þegar þú neytir fleiri kaloría en líkaminn þarfnast frá degi til dags, geymist afgangurinn af orkunni í fitufrumunum. Form þeirrar umfram orku er þekkt sem Þríglýseríð, sem er ákveðin tegund fitu og fituefna sem safnast saman í fitufrumunum. Auk þess að veita orku hjálpar þessi fituforði við að einangra líkamann og vernda lífsnauðsynleg líffæri.
Hvað gerist við fitubrennslu?
Þegar fitubrennsla á sér stað breytir líkaminn fitu í nýtanlega orku sem veldur því að fitufrumurnar dragast saman. Þessi umbreyting á efnaskiptaorku myndar á sama tíma varma sem hjálpar til við að stjórna líkamshita okkar. Samtímis er súrefni sem við öndum að okkur breytt í aukaafurðir.
Mörg ensím og lífefnafræðileg skref koma að því að brjóta niður eina þríglýseríð sameind. Hluti fitunnar er fáanlegur til nothæfrar orku en koltvísýringur (CO2) og vatn losna einnig úr fitufrumunni meðan á ferlinu stendur. Reyndar er stórt hlutfall af koltvísýringi (CO2) framleitt og fjarlægt úr líkamanum á meðan fitubrennsla á sér stað.
Skv. almennum viðmiðum er talið að meðalmaður andi að sér um það bil 2,3 kg af súrefnis daglega. Því til viðbótar neytir meðalmaðurinn um 2,5-3,5 kg af mat og drykk á dag. Til þess að léttast þarf það sem við borðum, drekkum og súrefnið sem við öndum að okkur einhvern veginn að fara út úr líkamanum.

Hvað verður þá um fituna sem við missum/brennum?
Eins mikið og við veltum fyrir okkur leiðum til að brenna fitu, þá spáum við flest minna í hvað verður um hana í fitubrennsluferlinu sjálfu. Við erum bara heilt yfir ótrúlega ánægð þegar vigtin sýnir lægri tölu en síðast þegar við stóðum á henni.
En þá kemur að þeirri merkilegu staðreynd sem ég komst að nýlega varðandi fitutap og vildi ólmur deila með ykkur líka. Við fitutap öndum við 84% af fitunni út í formi koltvísýrings. Eftirstöðvarnar, eða um 16% umbreytist í vatn og skilar líkaminn því frá sér í formi þvags, svita, tára eða annars vökvaforms. Koltvísýringur og vatn eru í þessu ferli aukaafurðir sem verða til vegna umbreytingar á orku og líkaminn losar sig við að langmestu leyti í gegnum annars vegar útöndun og hins vegar við þvaglát og svitamyndun. Magnað ekki satt!
Það skal algjörlega viðurkennt hér með að þrátt fyrir að hafa aðstoðað fólk við að brenna fitu í hart nær 30 ár, þá kom þetta mér skemmtilega á óvart þ.e. hversu stórt hlutfall fitu umbreytist í koltvísýring og losast úr líkamanum við útöndun.
Ef einhverjum skildi að ofansögðu detta í hug að reyna að auka fitubrennsluna með því að anda oftar og hraðar, þá virkar það því miður ekki né telst sérlega vænlegt til árangurs. Koltvísýringurinn sem við öndum frá okkur og verður til í fitubrennsluferlinu er orkuumbreyting sem á sér stað í fitufrumunum.
Hins vegar setur þetta lungun sem líffæri í nýtt ljós fyrir mig þar sem þau gegna greinilega lykilhlutverki í fitubrennsluferlinu.
Að endingu skal tekið fram að til eru margar og góðar leiðir til að auka súrefnisinntöku og þyngdartap. Að vinna að því að bæta efnaskiptahraða líkamans með virkari lífsstíl og reglulegri hreyfingu er þar frábær byrjun!
Með kærri kveðju frá Köben
Coach Birgir