Hvaða mataræði hentar mér best?

Hvaða mataræði hentar mér best?

Á ég að fasta ?
Eða fara á Ketó?
Hvað með kjötkúrinn?
Á ég að prófa vegan lífsstíl?
Gerast grænmetisæta?
Eða þetta nýja Flexiterian dæmi?
Lágkolvetna?
Minni fitu?

Það mataræði sem hentar þér best er það sem þú sérð fyrir þér að geta haldið þig við það sem eftir er. Að eilífu Amen.

Ertu í rokkstuði til hádegis bara með vatn í maganum þá er líklegt að föstur henta þér vel.
Ef þú ert í fósturstellingunni sjúgandi puttann með hausverk að þrauka á horriminni, hárlos og þurra húð þá þarftu að endurskoða málið.

Geturðu hugsað þér að éta bara dautt naut í öll mál næstu árin? Ekkert grænmeti. Enga ávexti. Ekkert korn. Eða skrifarðu sorgarbréf í Æskuna því þú þráir ekkert heitar en kartöflu í munninn, þá ertu ekki á réttri hillu.

Ertu til í að löðra þig í bernes og rjóma en forðast banana eins og loga vítis það sem eftir er þá er ketó alveg málið. En ef þú dregur þig í gegnum daginn í heilaþoku og æfingar jafn ánægjulegar og að ganga um í gapastokki þá þarftu líklega kolvetni í maskínuna.

Færðu hausverk og dauðaþreytu kortéri eftir að glomma í þig stórri skál af hrísgrjónum?
Þá væri kannski ráð að minnka kolvetni og auka við fitu.

Er þér illt í maganum í hvert skipti sem þú borðar dauða skepnu? Þá gæti verið ráð að dúndra meira græmmó í grímuna og prófa grænkeralífsstíl.

Hlustaðu á líkamann og prófaðu þig áfram.
Prófaðu lágkolvetna í nokkrar vikur.
Prófaðu að fasta í nokkrar vikur.
Prófaðu að auka við fituna í nokkrar vikur.

Hentu málbandi og vigt út í hafsauga og hlustaðu á líkamann og hvað hann er að segja við þig um heilsuna þína á meðan þú prófar.

Hvernig er frammistaðan á æfingum. Orkan yfir daginn. Hvernig er skapið. Kynlöngun. Hormónar. Svefn.

Það mataræði sem gerir þig heilbrigðan og lætur þér líða sem best, það er mataræðið sem hentar þér best. Það mataræði sem þú getur haldið þig við til langtíma og gerir þig heilbrigðan er fullkomið fyrir þig.

En hafðu í huga að það þarf ekki að koma upp í leitarstreng í Google.
Það þarf ekki að vera gefið út í bók.
Það þarf ekki að hafa nafn.
Það þarf ekki að hafa tvípunkt.

Þitt mataræði má heita í höfuðið á þér því það er þitt eigið.

Höfundur: Ragga Nagli

NÝLEGT