Search
Close this search box.
Hvaða skref getur þú tekið í dag sem færir þig nær bættri líðan?

Hvaða skref getur þú tekið í dag sem færir þig nær bættri líðan?

Höfundur: Íris Huld Guðmundsdóttir

Á síðustu vikum og mánuðum hefur verið aukin umfjöllun um streitu og álag í samfélaginu. Á tímum sem þessum er algengt að heilbrigðar venjur fólks fjúki út í veður og vind og ef ekkert er aðhafst getum við lent í vítahring álags. Því er mikilvægt að vera á varðbergi hvað heilsuna varðar því aukin streita hefur áhrif á okkur öll, fullorðna jafnt sem börn.

Síðasliðið ár hef ég ásamt manni mínum haldið úti námskeiðinu “Sigrum streituna”. Þar leggjum við til þau tæki og tól sem hafa reynst okkur vel við að vinna bug á streitunni jafnframt því að finna bætta líðan í líkamanum og á andlegu hliðinni.

Til þess að þessar æfingar skili tilsettum árangri þá þurfum við að tileinka okkur ákveðnar venjur og koma þeim inn í okkar daglegu rútínu.

Við vitum öll nokkurn veginn sjálf hvað við ættum að gera til þess að bæta líðan okkar. Það er oft hægara sagt en gert, sér í lagi ef maður er í miklu streituástandi. Þá eigum við það til að telja okkur trú um að við höfum ekki tíma eða orku til þess að gera breytingar.

Ef þú veist ekki hvernig er best að stíga fyrstu skrefin í átt að streituminna lífi þá er góð byrjun að spyrja sig eftirfarandi spurninga:

  • Hvaða þáttum daglegs lífs ég hef ég fulla stjórn á?
  • Hvaða aðferðir hafa reynst mér vel við í svipuðum aðstæðum áður sem gætu komið sér vel í dag?
  • Hvaða skref get ég tekið strax í dag sem færir mig nær bættri líðan?

Í miðju Covidfári og samkomubanni fann ég sjálf hvernig streitan á heimilinu náði hægt og rólega yfirhöndinni. Ég gerði mér fulla grein fyrir því að það var á minni ábyrgð að snúa blaðinu við og byrjaði því að gera litlar og viðráðanlegar breytingar. Skrefin þurfa alls ekki að vera stór, en til þess að þau hafi áhrif þarf að taka þau af staðfestu og þetta var mín leið:

Daglegar öndunaræfingar

Ég hafði áður stundað Buteyko öndun með afar góðum árangri og lít ég á þær æfingar sem grunninn að góðri heilsu.

Áhrif af Buteyko er m.a:

  • Aukin slökun
  • Betri svefn
  • Minni bólgur
  • Betri melting.

Heilsusamleg rútína

Koma reglu á svefn. Fara að sofa á sama tíma og vakna á sama tíma.
Dagleg líkamsrækt.  Tímalengd og tegund æfinga er aukaatriði. Aðalatriðið er að koma hreyfingunni aftur á sinn stað.

Dagleg teygjurútína. Reglulegar teygjur geta dregið úr verkjum í stoðkerfi og veitt slökun í kerfið sem leiðir oftar en ekki til betri svefngæða.

Næra líkamann vel með hollu og góðu mataræði. Sneiða hjá sykri, koffeini og öðru sem getur haft neikvæð áhrif á taugakerfið og aukið á streituástand líkamans.

Halda heilsudagbók

Með því að halda úti dagbók um líðan þína og breytingar í kjölfar nýrra heilsusamlegra venja eykur þú sjálsmeðvitund, gefur þér færi á að tjá tilfinningar þínar og skrá árangur og fagna bætingum.

Temja sér jákvætt hugarfar

Allir dagar eru misjafnir og enginn dagur fullkominn. Það er þó alltaf hægt að finna eitthvað jákvætt á hverjum degi. Mikilvægt er að hrósa sjálfum sér fyrir allar framfarir sama af hvaða stærðargráðu þær eru í stað þess að draga sig niður fyrir eitthvað sem maður “ætti” að vera að gera. Þar að auki er jákvæðnin smitandi og getur skipt sköpum í samskiptum við þína nánustu

Allir finna einhvern tíman fyrir streitu en við viljum halda henni í lágmarki. Með því að finna aðferðir sem henta náum við að vera við stjórnvölinn, þekkja viðvörunarmerki streitunnar og geta því gripið skjótt inn í og snúið blaðinu við.

Heilsan er í þínum höndum

Næstu námskeið “Sigrum streituna” hefjast þann 3. júní í Primal Iceland.
Nánari upplýsingar um námskeiðin er að finna inni á heimasíðu Primal, www.primal.is/streita eða á samfélagsmiðlum Primal: facebook.com/primaliceland

____________

Íris er íþróttafræðingur og hefur lokið námi í markþjálfun,heilsumarkþjálfun frá IIN (Institute for integrative nutrition) og stjórnendamarkþjálfun frá HR. Fyrir nánari upplýsingar er hægt að hafa samband við Írisi gegnum netfangið iris@primal.is.

Facebook: facebook.com/Lifsmark/
Instagram: lifsmark_hugurogheilsa

NÝLEGT