Hveitilaus og trefjaríkur pizzubotn. Það hljómar kannski ekki ótrúlega vel í eyrum allra. Sérstaklega ef við erum vön “venjulegum“ pizzum sem innihalda oftast hveiti, ger og jafnvel smá sykur. Þessi pizzubotn er þó sniðug tilbreyting þar sem botninn inniheldur ekkert hveiti og er því mun léttari í magann. Aðalhlutverkið hér leikur áleggið sem við setjum ofan á og þar má helsta nefna parmaskinkuna og döðlurnar, en að sjálfsögðu er hægt að setja sín uppáhalds álegg á pizzuna og gera hana að sinni eigin.
Botninn:
1 1/2 dl möndlumjöl
1 dl fræblanda
1 msk chia fræ
1 msk psyllium husk
1 tsk lyftiduft
Pizzukrydd eftir smekk (t.d. oregano, svartur pipar, hvítlaukskrydd o.fl.)
Smá klípa salt
3 egg
1 dl möndlumjólk
Sykurlaus pizzusósa:
Ein krukka tómatpúrra
Ólífuolía, u.þ.b. 5 msk eða meira ef þið viljið
Pizzukrydd eftir smekk, t.d. basil, oregano, svartur pipar
Smá salt
Hvítlauksgeiri eða hvítlaukskrydd
Álegg sem fer inn í ofn:
Pizzuostur
Tómatar
Paprika
Sveppir
Döðlur
Pizzukrydd eftir smekk
Álegg sett á eftir að pizzan kemur úr ofninum:
Avocado
Parmaskinka
Klettasalat
Hvítlauksolía
Parmesan ostur og/eða feta ostur
Aðferð:
Stilltu ofninn á 220 gráður. Í skál hrærir þú saman öllum hráefnunum fyrir pizzubotninn. Leyfðu deiginu að standa í nokkrar mínútur til að draga í sig vökva og þykkna aðeins. Settu bökunarpappír á plötu og helltu deiginu (sem er mjög blautt) á og forbakaðu í ofninum í u.þ.b. 8 mínútur. Á meðan þú forbakar deigið getur þú gert sósuna en þú blandar einfaldlega bara saman öllum hráefnunum. Taktu næst botninn út úr ofninum, settu sósuna og ostinn á og allt áleggið sem fer í ofninn. Bakaðu í u.þ.b. 15 mínútur. Taktu botninn út, skerðu pizzuna í sneiðar og settu svo allt ferska hráefnið ofan á.