Hvernig á að ná markmiðum sínum í Meistaramánuði?

Hvernig á að ná markmiðum sínum í Meistaramánuði?

Hver er Pálmar Ragnarsson?

Ég er 32 ára og kem úr Grafarvoginum. Ég hef áhuga á körfubolta, MMA, skrifum, kvikmyndum, tónlist og fleiru. Ég er með BSc gráðu í sálfræði og er að klára master í viðskiptafræði. Ég hef þjálfað börn í körfubolta í um 12 ár sem er eitt það skemmtilegasta sem ég geri. Ég held fyrirlestra fyrir íþróttafélög þar sem ég segi frá aðferðum mínum í körfuboltaþjálfun og svo held ég fyrirlestra fyrir fyrirtæki þar sem ég tala um jákvæð samskipti á vinnustöðum og markmiðasetningu. Ég var að opna bloggsíðu sem ég hvet alla til að kíkja á en þar ætla ég að setja inn  skemmtilegar sögur vikulega.

Segðu okkur aðeins frá Meistaramánuði, hver er tilgangurinn með honum?

Tilgangurinn með Meistaramánuði er að hvetja fólk til þess að vera besta útgáfan af sjálfum sér í heilan mánuð og vonandi líkar fólki það svo vel að því langi að halda áfram með nýjan lífsstíl að mánuðinum loknum. Það tekur að minnsta kosti einn mánuð að breyta vana og því getur fólk nýtt Meistaramánuð til þess að venja sig á nýja hluti. Breytt slæmum venjum yfir í góðar. Svo hjálpar það til við að ná markmiðum þegar allir í kringum mann stefna að svipuðum hlutum á sama tíma og því virkar það hvetjandi fyrir fólk þegar allir ákveða að taka sig á samtímis.

Hvernig markmið er fólk að setja sér í Meistaramánuði?

Það er ótrúlega skemmtilegt að sjá hvað markmiðin eru fjölbreytt. Margir hafa notað Meistaramánuð sem upphafið að umtalsverðum breytingum í lífi sínu og notað mánuðinn til að sigrast á offitu, hætta að reykja, byrja að spara, finna hamingjuna á ný og svo framvegis. Svo eru enn fleiri sem nota Meistaramánuð til að setja sér einfaldari en samt mikilvæg markmið. Byrja að nota tannþráð, hrósa fólki, drekka meira vatn, klífa fjöll, sofa betur og svo framvegis.

Það er mikilvægt að stefna að einhverju sem skiptir mann máli.

Hvernig er best að setja sér markmið?

Það er mikilvægt að stefna að einhverju sem skiptir mann máli. Ég mæli með því að markmiðin snúi að einhverju sem hafi góð og mikilvæg áhrif á líf manns. Einnig skiptir máli að maður hafi áhuga á markmiðinu eða þyki það skemmtilegt. Ég segi oft fólki að líta inn á við og hugsa „Hvað er það sem mig langar mest að gera?“ í stað þess að velja sér markmið út frá því hvað aðrir eru að gera. Eða hugsa „Hvað er það sem ég ætti að vera að gera, en geri ekki?“ og setja sér markmið út frá því.

Einnig er hægt að skoða á hvaða sviðum í lífinu maður er að gera góða eða ágæta hluti í og á hvaða sviðum eitthvað vantar upp á. Það er erfitt eða ómögulegt að standa sig 100% á öllum sviðum og því er best að reyna að halda jafnvægi og standa sig ágætlega á sem flestum mikilvægum sviðum í lífi manns, frekar en að vera með suma þætti í botni en vera með allt í ólagi á öðrum.

Svo er mikilvægt fyrir fólk að ætla sér ekki of mikið í einu. Oft er betra að taka lítil skref en að ætla sér að sigra heiminn í einu stökki. Það getur aukið líkurnar á því að maður haldi markmiðið út til lengri tíma.

Hvernig er best að ná þeim markmiðum sem maður hefur sett sér?

Mín reynsla er sú að best sé að ná markmiðum ef maður er einbeittur og það skiptir mann virkilegu máli að ná þeim. Ef maður setur sér markmið sem skipta mann litlu máli eða maður hefur ekki mikinn áhuga á að ná þá nær maður þeim líklega ekki. Það er mjög gott að skrifa markmiðin sín niður og hafa þau fyrir framan sig sem áminningu og ef maður getur hakað í box er það jafnvel enn betra. Mér finnst gott að segja fólki frá markmiðunum mínum því það setur ákveðinn þrýsting á sjálfan mig að standa við þau og hvetur mig þannig áfram.

En sum markmið vill maður hafa bara fyrir sjálfan sig en þá eru það innri hvatar sem ýta manni áfram. Einnig er gott að vera í kringum hvetjandi fólk sem styður mann og skilur mann. Mikilvægt er að trúa því að maður geti og að maður muni ná markmiðinu. Einnig að vera sveigjanlegur ef eitthvað kemur upp sem veldur því að við náum ekki að vinna að markmiðinu eins og við hefðum viljað á miðri leið.

Best er að vera meðvitaður um það að það er mannlegt að allt heppnist ekki fullkomlega.

Hvað eigum við að gera ef okkur mistekst að ná markmiði sem við settum okkur?

Ekki gefast upp. Kannski ætluðum við okkur of mikið og þurfum að endurstilla markmiðið, gera það raunhæfara miðað við aðstæður okkar. Ef við tókum smá hliðarspor að koma okkur aftur á beinu brautina. Það verður öllum á og við erum ekki fullkomin. Sumir taka hliðarspor og bregðast þannig við að þeir dæma sig of harkalega og kasta öllu frá sér.

Best er að vera meðvitaður um að það er mannlegt að allt heppnist ekki fullkomlega og það getur verið mikill sigur fólginn í því að ná að koma sér aftur á beinu brautina eftir hliðarskref og halda áfram að vinna að markmiði sínu.

Hver eru þín langtímamarkmið?

Mitt langtímamarkmið er að segja ekki nei við spennandi tækifærum. Að gera það sem mig langar til í lífinu. Ekki festa mig í starfi sem mér finnst ekki spennandi eða gefandi. Mig langar að láta gott af mér leiða bæði á Íslandi og erlendis.

Markmiðið er að klára námið mitt og halda áfram að þjálfa körfubolta og halda fyrirlestra. Koma mér svo smám saman upp mínu eigin fyrirtæki og vonandi koma mér í þá stöðu að geta látið gott af mér leiða í kjölfarið. Svo langar mig að sinna áhugamálum mínum sem eru skrif og dagskrárgerð og draumur minn er að búa einn daginn til íþróttaþátt með góðum boðskap fyrir börn sem mig hefur langað til lengi.

Eitthvað í lokin sem þú vilt sérstaklega koma á framfæri?

Mig langar kannski að nýta tækifærið og hvetja fólk til þess að vera ekki feimið við að láta vaða. Alltof margir halda aftur af sér vegna hræðslu við að vera ekki nógu góð eða mistakast. Það gerist ekkert hræðilegt þó við mismælum okkur, gerum mistök eða upplifum vandræðalega þögn. Standið upp og segið það sem ykkur langar að segja, talið við fólkið sem ykkur langar að tala við og ekki segja nei við tækifærum vegna ótta við að mistakast.

Instagram: palmarragg

Snapchat: palrag

Höfundur: Pálmar Ragnarsson

NÝLEGT