Í mjög langan tíma var ég góð með því að æfa, borða og synda. Ég hugsaði ekki mikið um hausinn á mér, um andlegu hliðina á þessu öllu saman. Jú, ég komst ákveðið langt og gerði vel, setti Íslandsmet og vann verðlaun, en eftir einhvern tíma þá hætti ég að bæta mig í nokkur ár og var bara í kyrrstöðu. Það var ekki fyrr en ég vann í hausnum á mér, fór til íþróttasálfræðings og talaði við fjölskyldu, vini og þjálfara um hvernig mér leið og um mín markmið sem ég stóð mig betur, synti hraðar, gerði betur en nokkurn tímann áður. Ég segi alltaf að hausinn sé 80% af íþróttinni en 20% sé líkamlegt.
Þú getur alltaf staðið þig vel án þess að fara til sálfræðings eða vera fullkomin andlega, en ef þér líður illa, þá stendur þú þig ekki eins vel og þú gætir gert. Ofan á allt þetta þá er mikilvægt að hafa góðan hóp í kringum sig; fjölskylda, vinir, þjálfarar, og æfingafélagar geta allir haft áhrif á hvernig þér líður og breytt og bætt skap þitt. Það er mikilvægt að hafa góðan hóp til staðar til að hvetja þig áfram, hrósa þér þegar það á við og hjálpa þér í gegnum erfiðu tímana sem og góðu tímana.
Ég væri ekki þar sem ég er í dag án fjölskyldunnar, vinanna, þjálfaranna, æfingafélaganna, styrktaraðilanna og landsmanna sem hafa allir stutt við mig, hvatt mig áfram og vilja að ég geri mitt besta í hvert skipti.
Höfundur: Hrafnhildur Lúthersdóttir