Search
Close this search box.
„Í mínum huga snýst fjallamennska fyrst og fremst um að njóta og vera í núinu“

„Í mínum huga snýst fjallamennska fyrst og fremst um að njóta og vera í núinu“

Sara Björg er 32 ára gömul Suðurnesjamær og móðir tveggja stúlkna, Kamillu sifjar 13 ára og Kristínar Svölu 11 ára. Hún er fædd í Reykjavík en ættuð úr Svarfaðardal og Dýrafirði. Sara Björg ólst upp í Keflavík og hefur búið þar nánast alla sína ævi með smá viðkomu hér og þar á landsbyggðinni. Sara Björg er mikil útivistarmanneskja, fjallgöngu garpur, hjúkrunarfræðingur, einkaþjálfari og núna nemi í fjallaleiðsögn. Sara Björg er nýjasti penninn okkar hér á H Magasín og bjóðum við hana innilega velkomna. Í tilefni af því báðum við hana að sitja fyrir svörum til að leyfa lesendum að kynnast sér aðeins nánar.

Hvaða menntun hefur þú og við hvað starfar þú í dag?

Ég útskrifaðist sem ÍAK einkaþjálfari árið 2009 og sem sjúkraliði og stúdent árið 2010. Ég hóf svo nám í hjúkrunarfræði við Háskólann á Akureyri haustið 2010 og starfaði samhliða námi á Landspítalanum. Lengst á Grensásdeildinni, eða í samtals 6 ár og færði mig síðan yfir á Bráðamóttökuna í Fossvogi og síðar á Kvennadeildina. Ég starfaði svo sem hjúkrunarfræðingur á Vestfjörðum og Suðurnesjum áður en ég hóf nám í ljósmóðurfræðum við Háskóla Íslands haustið 2018. Eftir fyrsta árið í ljósmóðurfræði ákvað ég að hætta námi og stóð þá á algjörum krossgötum. Síðan þá hef ég verið hálfgerður farandhjúkrunarfræðingur og hef síðastliðið ár starfað mikið á landsbyggðinni. Í haust hóf ég svo nám í fjallaleiðsögn í Framhaldsskólanum í Austur Skaftafellssýslu sem ég hef stundað síðustu mánuði meðfram vinnu. Því námi lýkur í vor með grunnréttindinum í fjallaleiðsögn.

Sara Björg á göngu niður Móskarsðhnúka

Nú ert þú hjúkrunafræðingur, hvernig hefur þetta skrýtna Covid ár lagst í þig?

Ég man ennþá daginn sem ég heyrði fyrstu fréttir af Covid-19 og hugsaði með mér að þessi veira myndi aldrei ná til Íslands. En annað kom nú á daginn eins og allir vita og það var óhugnalegt hversu hratt það gerðist. Í fyrstu bylgjunni þurftum við, eins og aðrar stéttir að hugsa út fyrir kassann og aðlaga okkur að nýjum veruleika og hefur það óneitanlega verið krefjandi að starfa við þessar óvenjulegu aðstæður. Sem betur fer lögðust allir á eitt að finna nýjar leiðir til að mæta þörfum skjólstæðinga okkar og það var algjörlega magnað að finna samstöðuna í þjóðfélaginu. Mitt starf krefst þess að ég mæti á staðinn til vinnu og það reyndist svolítið púsluspil þegar skólar og tómstundir lokuðu og börnin mín þurftu að sjá um sig sjálf á meðan ég var í vinnunni. Þannig að okkar raunveruleiki var kannski svolítið frábrugðinn öðrum hvað það varðar í fyrstu bylgjunni. Sem betur fer eigum við góða að og saman höfum við komist í gegnum þessa skrýtnu tíma.  

Hvað er það skemmtilegasta sem þú gerir?

Ég elska auðvitað að vera úti og ganga á fjöll, fara í leiðangra og læra nýja hluti, ýmist ein eða í góðum félagsskap. Þannig að ég myndi segja að það væri það skemmtilegasta sem ég geri og get í dag ekki hugsað mér lífið án útivistar ?

Áttu þér uppáhalds fjall á Íslandi?

Mér finnst mjög erfitt að gera upp á milli og svo á ég svo mörg eftir þannig að ég myndi ekki segja að ég ætti eitt uppáhalds fjall enn sem komið er ?
Snæfellsjökull, Öræfajökull og Kristínartindar eru samt í smá uppáhaldi.

Á Botnssúlum

Stundar þú öðruvísi útivist og hreyfingu yfir vetrarmánuðina?

Ég elska vetrarfjallamennsku þannig að ég fer alveg jafn mikið á fjöll á veturnar og á sumrin. Undir venjulegum kringumstæðum myndi ég kannski æfa meira innandyra og mæta oftar í tækjasalinn en að öðru leyti stunda ég samskonar hreyfingu allan ársins hring.

Hver er þinn bakgrunnur í íþróttum?

Ég hef alltaf verið frekar virk og byrjaði snemma að æfa sund og fimleika. Svo kom að því að ég þurfti að velja á milli og fimleikarnir urðu ofan á. Ég æfði lengst hópfimleika með Fimleikadeild Keflavíkur eða þar til ég þurfti að hætta vegna meiðsla, þá færði ég mig inn í tækjasalinn og fann mig rosalega vel í því og finnst enn þann dag í dag gaman að mæta í ræktina ?  

Hvaða 5 hluti áttu alltaf í ísskápnum?

Hleðslu, haframjólk, egg, sódavatn og Collab

Hefur þú stundað fjallamennsku í mörg ár?

Ég er úr mikilli útivistarfjölskyldu og ólst upp í sveit á sumrin, meðal annars á hestbaki, í fluguveiði og í jeppaferðum um hálendið með foreldrum mínum.

Þegar kemur að fjallamennsku myndi ég þó segja að ég væri algjör byrjandi að því leitinu til að ég byrjaði ekki að stunda fjallgöngur fyrr en fyrir um það bil tveimur árum síðan og hafði þá litla sem enga reynslu af því fyrir utan að hafa kannað heiðar og dali í sveitinni minni.
Þar sem ég er alin upp á Suðurnesjunum þá eru fjöllin heldur ekki beinlínis allt í kringum mig og því hafði ég mest á þeim tíma gengið á Þorbjörn í mínu nærumhverfi.

Ég fann að mig langaði að skoða fjöllin betur og læra meira og skráði mig því á byrjendanámskeið í fjallgöngum. Í framhaldi af því fór ég svo á tvö framhaldssnámskeið og lærði heilmikið af því en er alltaf að læra eitthvað nýtt og öðlast meiri reynslu.

Hvaða önnur áhugamál hefur þú utan fjallaferða?

Ég les mikið og finnst mjög notalegt að liggja upp í sófa með góða bók og kaffibolla. Það er svolítið mín gæðastund. Svo finnst mér gaman að ferðast og taka myndir og hef náð að sameina þann áhuga með útivistinni.

Hvað myndir þú geta ráðlagt algjörum byrjanda í fjallamennsku?

Að byrja bara rólega og fara út á sínum eigin forsendum. Í mínum huga snýst þetta fyrst og fremst um að njóta og vera í núinu. Ef við ætlum okkur of mikið í upphafi er hætt við að við gefumst upp og höldum að þetta sé jafnvel ekki eitthvað fyrir okkur. Ég myndi því ráðleggja algjörum byrjenda að byrja á því að lesa sér aðeins til og kynna sér leiðir og búnað og byrja svo bara á göngutúrum á lægri hólum og fellum. Láta alltaf vita af sér og fara stuttar vegalengdir í sínu nærumhverfi með góðum félaga eða skemmtilega hljóðbók í eyrunum. Anda að sér ferska loftinu og njóta útiverunnar og náttúrunnar. Hægt og rólega má svo auka erfiðleikastigið í takt við aukið þol og jafnvel að setja sér markmið til að vinna að.
Ef fólk hefur tök á, þá mæli ég líka með byrjendanámskeiðum og gönguhópum. Það er frábær leið til að byrja að stunda fjallgöngur. Þar fær maður strax réttu upplýsingarnar, leiðsögn, stuðning og fræðslu sem ég myndi segja að væri mjög mikilvægt þegar maður er byrjandi á fjöllum.

Í ísklifri með FAS á Fjallsjökli. Mynd tekin af Skúla Pálmasyni

Áttu þér uppáhalds árstíð?

Vetur er mín allra uppáhalds árstíð. Það er eitthvað við það að fara út í kuldann og koma svo inn í hlýjuna eftir góðan dag og fá sér heitt súkkulaði með rjóma og skríða undir teppi með góða bók í skammdeginu.

Ertu jólabarn og ertu með einhverjar fastar jólahefðir?

Mér finnst jólin mjög hátíðlegur tími og finnst fátt betra en að eyða honum með fjölskyldunni minni. Í gegnum tíðina hef ég alltaf verið mikið jólabarn og hlakkað mikið til jólanna en í mínum huga er þetta svolítið hátíð barnanna og ég reyni að skapa hefðir í kringum dætur mínar. Við erum með fastar hefðir sem fylgdu mér úr minni barnæsku eins og aðventudagatal sem ég bý til sjálf og inniheldur lítinn glaðning á hverjum degi fram að jólum, spilum jólalög og horfum saman á jólamyndir. Á aðfangadagsmorgunn set ég líka alltaf hreint á rúmin og allir fá ný náttföt og nýja bók fyrir jólanóttina. Ég baka líka alltaf sörur á aðventunni og lauma mér í eina og eina með kaffibollanum en stelpunum mínum finnst þær svo góðar að þær eru yfirleitt búnar að klára þær fyrir jól.
Þar sem ég vinn vaktavinnu þá er ég líka yfirleitt að vinna yfir jólin og mér hefur alltaf fundist það mjög hátíðlegt og svolítið ómissandi partur af mínum jólum.
Það sem mér finnst kannski mikilvægast er bara að allir njóti sín á þessum tíma og gleymi sér ekki í þessum veraldlegum hlutum.

Uppáhalds matur?

Lambalæri með brúnuðum kartöflum, sósu og meðlæti.

Hvað er það skemmtilegasta sem þú gerir með fjölskyldunni?

Mér finnst skemmtilegast að ferðast með stelpunum mínum, sérstaklega á nýja staði sem við höfum ekki komið á áður.

Eru aðrir fjölskyldumeðlimir eins duglegir að ganga á fjöll og þú?

Nei, því miður þá er ég sú eina, fyrir utan foreldra mína, sem hafa smitast af þessari fjallabakteríu en ég bíð spennt eftir því að stelpurnar mínar átta sig á því hvað þetta er skemmtilegt! ?

Sara Björg að júmma sig upp úr sprungu á jökli

Hver er mikilbvægasti búnaðurinn að eiga þegar maður ætlar að ganga á fjöll?

Það fer svolítið eftir eðli fjallamennskunnar hvaða búnað maður þarf að eiga en fyrir flesta sem ætla bara að skreppa í stutta fjallgöngu í sínu nærumhverfi, þá myndi ég segja að það væri mikilvægast að eiga góða gönguskó, viðeigandi fatnað og þægilegan bakpoka.
Á veturnar er líka ómissandi að eiga Esjubrodda og höfuðljós.
Flestir eiga síma og ættu alltaf að taka hann með sér í fjallgöngu sem öryggistæki ef þeir eiga ekkert annað. Þá er líka mikilvægt að hafa hann fullhlaðinn eða hafa ferðahleðslutæki meðferðis.
Svo má hægt og rólega bæta við búnaðinn sinn og áður en maður veit af, þá er maður kominn með heila hirslu heima hjá sér undir allan búnaðinn sinn.

Instagram eða Facebook?

Instagram

Podcast eða bók?

Bók

Te eða kaffi?

Uppáhellt kaffi með haframjólk

Hvernir hugar þú að andlegu heilsunni?

Ég kem alltaf endurnærð heim eftir góða fjallgöngu og finn að á fjöllum fæ ég mína næringu, tæmi hugann og er bara 100% í núinu að njóta.
Ég myndi því segja að útivera og hreyfing sé ótrúlega góð leið til að huga að andlegu heilsunni enda hafa rannsóknir ítrekað sýnt fram á jákvæð áhrif útiveru á andlega líðan.

Drauma fjall að ganga á?

Ama Dablam

Fjallastelpan Sara Björg

Eitthvað sem þú vilt deila með lesendum að lokum?

Ekki vera hrædd við að prófa eitthvað nýtt. Það er gaman að vera byrjandi og takast á við ný ævintýri og ákaflega valdeflandi að stíga út fyrir þægindarrammann sinn. Við þurfum ekki að vera best í öllu eða kunna allt í upphafi.
Lífið er svo stutt. Njótum þess einfaldlega að elta draumana okkar og lifa í núinu.

Við hjá H Magasín þökkum Söru Björg kærlega fyrir viðtalið og hlökkum til að deila með ykkur pistlunum hennar á næstunni.

NÝLEGT