Jafnvægi er lykillinn

Jafnvægi er lykillinn

Höfundur: Ragga Nagli

Nú þegar Ketókúrinn er yfir og allt um kring eins og hönd Guðs, gætirðu allt eins snúið kettling úr hálsliðnum í kaffistofunni en að dúndra heitri beyglu í ristina.

„Borðarðu brauð???“ er sagt á innsoginu.

En brauð er ekki ógn við heimsfriðinn. Djöfullinn liggur í magninu. Of mikið er ekki gott fyrir okkur. Það á við um allt.

Að gleypa sjö beyglur á sólarhring er ekki gott fyrir þig. Að juða í sig súkkulaði allan daginn er ekki gott fyrir þig. Að borða eingöngu ribeye steik er ekki gott fyrir neinn.

Að slafra grænkálssmúðinga í allar máltíðir er ekki gott fyrir þig. Að drekka átta lítra af vatni á dag er heldur ekki gott fyrir þig.

Það sem er hinsvegar gott fyrir okkur er að borða næringarríka fæðu framyfir næringarsnauða. Það er líka gott fyrir okkur að tileinka sér fjölbreytt mataræði með eins mörgum matvælum og komast fyrir. Það sem er langbest fyrir okkur er að borða allskonar mat án þess að fá samviskubit þó að heit súrdeigssneið með smjöri rati á matardiskinn.

Hvernig lítur mataræðið þitt út í heildina? Ef þú ert að fá öll orkuefnin sem þú þarft.

Prótín, kolvetni, fitu. Ef þú ert að næra þig vel með heilum afurðum Þá mun einstaka brauðskorpa í radíus við munnvikin ekki spika þig upp eins og aligæs.

Þú munt ekki missa kontrólið og kúlið og tæta upp allan Samsölupokann…….nema að kornmeti hafi verið sett í kategoríu með Manson fjölskyldunni.

Skoraðu frekar á þessar gömlu hugsanir sem eru yfirleitt runnar undan rifjum megrunariðnaðarins og borðaðu matvæli sem hafa ratað á bannlistann þinn.

Engin matvæli koma úr forgarði Helvítis. Stundum er það frekar mataræðið í heildina sem þarf smá fínpússun. Stundum eru það eigin hugsanir og óraunhæfur ótti við matvæli sem halda okkur frá gleðinni.

Jafnvægi er lykillinn að langtímaárangri.

Hér má finna fleiri pistla eftir Röggu Nagla

NÝLEGT